Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir er rithöfundur, blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi.


„Mér þykir ekki erfitt að velja eitt ljóð Jóhannesar úr mörgum ægiflottum. Ástæðan er sú að fyrst þegar ég las Kalt stríð þá vakti það einhvern magnaðan byltingaranda í brjósti mér. „Þetta mórauða skólp sem hnígur þyngslalega um æðar vorar”…„Ó, hvað þetta er dæmalaust lýsandi fyrir doðann sem einkennir okkur flest”, hugsaði ég þá og ég er enn að melta þetta æðisgengna ljóð. Alltaf þegar ég les það, þá finnst mér ferlega gaman að vera sósíalisti, en nútíminn hefur einhvern veginn komið því þannig fyrir að sósíalistar hljóti að vera liðleskjur og lúserar. Sumsé: Þegar mér líður eins og enginn geti skilið mig, þá er ég guðslifandifegin að geta hallað höfði mínu að þessu ljóði.“


Kalt stríð



Þetta er ekki blóð.

Þetta er ekki sú sanna uppspretta hjartans
þetta er ekki straumfall ástarinnar
þetta er ekki lækurinn
ekki áin
ekki fljótið
ekki hafsjórinn
sem litar líf vort rautt.

Þetta mórauða skólp sem hnígur þyngslalega um æðar vorar
það er ekki mannsblóð
ekki hinn skapandi lífsflaumur kynslóðanna
heldur tóbak og kaffi og brennivín.

Þurfum vér þá svipuhögg í andlitið
þarf að brenna land vort
svívirða konur vorar
henda börn vor á byssustingjum
til þess að blóð vort verði rautt og heitt
til þess að blóð vort verði lifandi
til þess að blóð vort verði ósvikið mannsblóð?

Verður blóð vort þá fyrst rautt og heitt og lifandi
þegar vér liggjum helsærðir í valnum
og það fossar niður í rúst vorrar glötuðu ættjarðar?



Þorsteinn frá Hamri

Þorsteinn frá Hamri (f. 1938) hefur fyrir löngu tryggt sér sess meðal fremstu ljóðskálda sem ort hafa á íslenska tungu. Allt frá því hann gaf út sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli árið 1958, aðeins tvítugur að aldri, hefur hann mótað og fágað ljóðstíl sinn, og oft er talið að honum hafi tekist sérlega vel að bræða saman hina gömlu ljóðahefð og stílbrögð nýrrar aldar, ljóðmál módernismans. Þorsteinn hefur einnig skrifað skáldsögur og sagnaþætti og eftir hann liggja margar þýðingar. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi. Þá var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1995 fyrir Það talar í trjánum og 1999 fyrir Meðan þú vaktir. Þorsteinn fékk verðlaun á degi íslenskrar tungu árið 2009.


„Eftirlætisljóð á ég mér mörg eftir Jóhannes úr Kötlum og geri ekki upp á milli þeirra, en þessa stundina er mér í minni skörulegur flutningur skáldsins sjálfs á tveimur ljóðum. Þetta var á samkomu sem efnt var til honum til heiðurs þegar hann varð sextugur. Þessi ljóð voru „Ég finn ég verð” og „Maður hver”. Þau birtust síðan bæði í Tregaslag. Ljóðinu „Maður hver”, sem hér verður fyrir valinu, er þar ásamt fleiri ágætisljóðum valinn staður í ljóðaflokknum Stef úr glataðri bók.“


Maður hver



Maður hver er mold
hljóðlega flýgur nú hrafn yfir skóga
sáran þýtur í sefi

hnígur senn vort hold
maðkarnir nálgast á báða bóga
eina vonin er efi.

Skáld er skammlíft mjög
orð þess sem gári á öreyðu þagnar
tærist og deyr af trega

leysast upp vor lög
reynt er á þol hverrar einustu agnar
ferst hið forgengilega.



Þorgrímur Gestsson

Þorgrímur Gestsson er blaðamaður og rithöfundur og hefur starfað sjálfstætt undanfarin 15 ár. Hann hefur á þeim tíma sent frá sér nokkrar bækur sagnfræðilegs eðlis. Í bókinni Ferð um fornar sögur (2003) blandar hann saman sagnfræði og blaðamennsku og segir frá för sinni um fornsagnaslóðir Noregs. Hann vinnur nú að sambærilegri bók um Orkneyjar og Hjaltland.


„Ljóð Jóhannesar úr Kötlum eru órjúfanlegur hluti af uppvexti mínum. Einna minnisstæðast er þó Sóleyjarkvæði, ekki síst vegna þeirra þriggja hljómplatna með flutningi þess ljóðs, sem gefnar hafa verið út. Því hljómaði þetta ljóð oft í flutningi góðs listafólks á þeim tíma þegar ég reyndi að átta mig á hinum pólitíska veruleika samtímans. Ég vel annan hluta Sóleyjarkvæðis, ekki síst vegna þess að mér finnst skáldið tala þar til samtíma okkar sem nú lifum, ekki síður en síns eigin.“


Sóleyjarkvæði



2

Elskhuginn blundar alla stund,
en fölnar fljóð
– íturri voru forðum
hans ævintýrin góð:
eitt sinn hljóp sá riddarinn prúði
yfir rínarflóð.

Eitt sinn reið hann hvítum jó
um víða völlu,
sveiflaði gambanteini,
snart kristalsbjöllu
– hringdi þá hvelfing skær
og himinninn svaraði öllu.

Lífið hló við dauðanum,
dauðinn við lífinu hló,
allt sem dó það lifnaði aftur
um leið og það dó
– svo fagur
var slagurinn sem hann sló.

Söng hann til frelsis sína þjóð
og djarft var sporið,
af vindum loftsins var hans ljóð
og vængjum fuglsins borið,
það kom – það kom
eins og vorið.

Fló þá úr vestri finngálkn eitt,
fauk úr nösum glóð,
digran bar í kló
dala falan sjóð
– þoldi ekki að heyra yfir hafið
þau sólarljóð.

Sáldraði yfir tóra þóra
silfurpeningum fínum,
gaut að riddarans borg
glórum sínum:
látið þennan þagna
– þetta er guðlast í eyrum mínum.

Eigi vildu þeir tórar þórar
brúðgumann slá í hel
– ungir höfðu þeir leikið sér við hann
að legg og skel,
enda aðgátin hollust
ef allt átti að fara vel.

Þó himinsins dýra málmi
þeir hlytu að fagna,
gengu þeir sig til einnar nornar,
skelkaðir sannast sagna,
og báðu hana að leggja sér lið
og láta söngvarann þagna.

Lobba hló og hljóp til borgar
hélugrá,
læddist inn fyrir sparlök blá
loðnum skónum á
og stakk honum svefnþorn
– hann stundi og féll í dá.

Reimt var í svörtum skógi
er rann hún til baka
– súgaði í eyrum svikaranna:
sú mun vaka
er yður kemur á klaka,
á kaldan klaka.



Þóra Elfa Björnsson

Þóra Elfa Björnsson er framhaldsskólakennari og hefur starfað við kennslu í bókiðngreinum frá árinu 1983. Þóra hefur einnig ritað bækur um draumaráðningar, fengist við þýðingar á barna- og fullorðinsbókum og ritað ýmsar greinar, ljóð og viðtöl.


„Ljóðið Umskiptingur lýsir græðgi, ágirnd og sjálfselsku sem sést ekki fyrir en hneppir allt og alla í álög. Ljóðið er lýsing á einum manni en mér finnst hann vera persónugerfingur þess kerfis og allra þeirra innan þess sem ekki hirða um einstaklinginn eða samfélagið heldur aðeins eigin hag.“


Umskiptingur



Örðug gerist nú hugraun hans,
hæstráðandans til sjós og lands,
– ekki er honum rótt.
Hví er sál þessa mikla manns
myrk eins og vetrarnótt?

Öðruvísi það áður var
andrúmsloftið, sem ríkti þar.
– Mér það minnisstætt er,
hve hann ungur af öllum bar
öðrum á landi hér.

Öllum, sem þráðu æskumóð,
æðra takmark og hreinna blóð,
virtist sem væri hann
sendur til bjargar sinni þjóð,
– sáu þar foringjann.

Þjóðin fól honum fé og völd,
– fyrri kynslóða syndagjöld
greiddi hann leynt og ljóst.
Bjartir neistar af nýrri öld
náðu inn í sérhvert brjóst.

Réttlætinu hann ákaft ann,
– enginn mælti jafndjarft sem hann,
enginn rauðara reit.
Sannleikans eldur einatt brann
í augum, hvert sem hann leit.

Óralangt gat hann arm sinn teygt,
umsvifalaust í duftið beygt
fanntanna fjörráð myrk.
Allt, sem var rotið, falskt og feigt,
flýði hans sálarstyrk.

Þannig lengi við stjórn hann stóð,
stormana klauf og flauminn óð,
glaður og hjartahlýr.
Leiftur flugu um land og þjóð,
ljómuðu grös og dýr.

Svo var það eitt sinn síðla dags:
sjálfselskunnar og þjóðarhags
velja á milli varð.
Hvernig væri að leita lags,
– löghelga sjálfs sín arð?

Innri barátta hörð var háð:
Hví skyldi ei treysta á drottins náð,
ef hann ósanngjarn var?
Og – þegar betur að var gáð –
eitthvað honum þó bar!

Hafði ´ann ei lagt fram líf og blóð,
lyft upp úr vesöld heilli þjóð?
– Í borðið hann bleikur sló.
Á þeirri stund hans æskuglóð
út í brjóstinu dó.

Upp frá því snérist eðli hans
öndvert gegn málstað fólks og lands,
– steingervings komst á stig.
Upp frá því sál hins mikla manns
miðaði allt við sig.

Lýðinn tók hann að leika grátt,
lofaði mörgu, efndi fátt,
– skiptist á harka og hik.
Hugsjónir allar smátt og smátt
smækkuðu – og urðu svik.

Loksins umhverfðist allt hans skap,
– augun minntu á stjörnuhrap,
taugarnar fundu ei frið,
óskirnar féllu eins og krap,
alltaf niður á við.

Nú er það af, sem áður var:
enga fær hvíld um næturnar
hataður harðstjórinn,
– án þess að bíða bæturnar
berst hann við skuggann sinn.

Svipir þess, sem hann eitt sinn ann,
yfirskyggja hinn þreytta mann,
– eitra hans anda og blóð,
þar til loksins að hittir hann
hefndin frá blekktri þjóð.