Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson er prófessor í íslensku og rithöfundur. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 2003. Frá því í júlí 2011 hefur hann gegnt stöðu prófessors við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ármann hefur sent frá sér tvær skáldsögur, Vonarstræti og Glæsi. Vorið 2011 kom út í ritröðinni Íslenzk fornrit hjá Hinu íslenska fornritafélagi konungasagnaritið Morkinskinna í tveimur bindum en Ármann sá um útgáfuna ásamt Þórði Inga Guðjónssyni.

„Ljóðið sem ég valdi er úr Sjödægru (1955). Ég hika ekki við að kalla hana eina af fimm merkilegustu ljóðabókum 20. aldarinnar og þar eru mörg mögnuð ljóð sem væri freistandi að velja og ræða aðeins um (Ýskelfir, Rímþjóð, Næturróður, Hellisbúi, Heimur í smíðum, Eitt stakt hagl, Miðnætti í Keníu). Ljóðið sem ég valdi er kannski ekki eitt af mögnuðustu ljóðum bókarinnar en það hefur hins vegar lengi orkað sterkt á mig og ég valdi það eitt sinn fyrir löngu til að lýsa hlutskipti hugsjónamannsins eftir hin miklu vonbrigði 20. aldarinnar, einfaldlega vegna þess að ég gat ekki orðað hlutina betur sjálfur. Ég veit ekki hvað skáldið sjálft ætlaði ljóðinu að merkja en hitt veit ég að hann varð einna fyrstur til að gera upp við Stalín, heiðarlega og hispurslaust og án þess að hafna þeim sjónarmiðum og tilfinningum sem lágu á bak við hans eigin róttækni, hvert sem hún leiddi hann. Ljóðið heitir Fjöll. Það má líka lesa sem mjög fallega mynd um fjarskann og þau áhrif sem hugmyndin um eitthvað stórkostlegra en mann sjálfan getur haft.“

Fjöll

Mín fjöll eru blá
mín fjöll eru hvít
lífsins fjöll
við dauðans haf.

Mín fjöll
eru sannleikans fjöll
blátt grjót
hvítur snjór.

Mín fjöll standa
þegar lygin hrynur
mín bláu fjöll
mín hvítu fjöll.