Hamskipti Jóhannesar úr Kötlum
Jóhannes úr Kötlum var fæddur á næstseinasta ári bjartsýnisaldar og drakk bjartsýni aldamótakynslóðarinnar með móðurmjólkinni. Tuttugasta öldin varð honum stöðugt syndafall. Í honum fékk öldin spámann og refsivönd sem sá nýjan heim í hugskoti sínu en var um leið glöggskyggn á syndir samtímans. Skáldskapur hans var þversagnakenndur eins og öldin, bjartsýnn og myrkur, innleitinn, útleitinn, hvass, lygn, háttbundinn, frjáls.
Þegar Jóhannes úr Kötlum var á 45. ári varð hann þjóðskáld með ljóðinu sem við köllum oftast Land míns föður. Árið eftir kom áttunda ljóðabók hans út. Fram að því hafði hann verið meðal afkastamestu skálda en nú liðu tíu ár uns næsta ljóðabók undir nafni hans kom út. Á þeim áratug urðu hvörf í skáldskap hans.
Litríkur ferill var að baki. Hann hafði kvatt sér hljóðs sem nýrómantískt skáld. Fáir stóðu honum framar í bragsnilld og ljóðrænu. Síðan varð hann skáld þeirrar byltingar sem í vændum var, kommúnisti í fullu starfi sem setti inntakið ofar öllu öðru. Bæði þessi skeið einkennast af frjósemi og skáldskapargleði en efa gætir lítt. Jóhannes tekur stökk úr rómantík í byltingarkveðskap átakalaust. 1Sjá t.d. Óskar Halldórsson. „… hvernig skal þá ljóð kveða?” Nokkrar athuganir á ljóðformi Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 36 (1975), 124-37, Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta. Nokkrar hugleiðingar um bókmenntalega stöðu Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 39 (1978), 124-42; Njörður P. Njarðvík. Vort er ríkið. Fáein orð um baráttuljóð Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 39 (1978), 143-57..
Skáldfákur hans fetar greiða og beina leið uns hann var orðinn þjóðskáld. Þá gægist fram óánægja með sjálfan sig og eigin stöðu. 2Einar Bragi. Viðtal við Jóhannes úr Kötlum. Birtingur 3,3 (1957), 1-9 (einkum bls. 6-7).
Ljóðabókin Sól tér sortna kom út árið 1945 og ber vitni óvissu skáldsins og upplausn hugmynda hans. Hún er varða á þróun sem hafði hafist þegar Jóhannes breytti sér úr nýrómantískum braglistamanni í lúðraþeytara byltingarinnar. Það nýja í bókinni er efinn sem gægist þar öðru hvoru fram. Í ljóðabókinni Eilífðar smáblómi hafði Jóhannes virst á leið til hnitaðri skáldskapar en nú er sem hann hrökkvi til baka án sérstaks takmarks. 3 Óskar Halldórsson. „… hvernig skal þá ljóð kveða?”, 127-29. Bragstefna Sólarinnar er óreiðukennd og lítill heildarsvipur á, innan um útleitin baráttuljóð eru tregablandin þjóðkvæði. Sjá má nokkur módernísk einkenni en flest ljóðin eru þó rímuð og boðskapurinn skýr eins og áður.
Í þessari ljóðabók er kvæðið Dagskipun Stalíns þar sem dregin er upp helgimynd af manni sem sé „mannsins bezti vin.” (57) 4 Allar tilvitnanir í Sól tér sortna eru sóttar í: Ljóðasafn V. Rvík 1982. En barnsleg trú er fjarri því að setja svip sinn á bókina sem heild. Þvert á móti segist skáldið í Æviágripi, fremsta ljóði og stefnuyfirlýsingu hennar, vera „oftast í klípu / og óánægður með heiminn, þjóðina og flokkinn.” (7) Ljóðið er frásagnarkvæði um barn aldamótanna og syndafall þess sem heimsstyrjaldirnar tvær eru gríðarleg tákn fyrir. Þó að formlega sé ljóðið engin nýjung gegnir öðru máli um sjálfsmynd manns sem hafði um hríð verið sannfært baráttuskáld: „Mitt líf hefur mestan part lent í villu og svíma: / í labbi og áti og svefni og þvíumlíku” (7). Skáldið kennir eigin tilgangsleysis sárt og biðst afsökunar á að hafa ekki fallið í stríði.
Skáldið sem fram kemur í þessari bók er sannfærður sósíalisti og ómyrkur að orða hugsjónir sínar. Hann telur framtíðina þeirra en þó ber á svartsýni og þreytumerkjum. Í stríði er skáldskapur gagnslítið vopn. Fátækt og misrétti verða ekki sigruð með pennanum einum. Hlutskipti baráttuskáldsins er vanþakklátt og óvíst um árangur. Öðru hvoru brýst fram vægðarlaus sjálfsskoðun þar sem skáldið er vegið og léttvægt fundið. Í einu ljóði skrifar ritvél skáldsins ásakanir á hendur þeim sem sat á friðarstóli þegar heimurinn barðist, hafði hæst en situr svo í kyrrðinni (67-69). Vonbrigði með stöðu byltingarinnar eru skýlaust orðuð í kvæðinu Öreigaminning: „En þessi barnaskapur / á þönum eftir frelsi / – hann þekkist ekki lengur.” (86) Forystumenn sósíalista voru orðnir ráðherrar og teknir að gera málamiðlanir: „sjálfur Billinn makkar / við Ólaf Thors og Hermann” (86). Veruleikinn er annar en skáldið hafði boðað og skáldið hlífir ekki sjálfum sér og horfist í augu við það. Hann stendur þó við sitt opna ljóð og í lokin kemur herhvöt hans: „Nei, mætti ég þá biðja / um minna af veizluhöldum, / en meira af byltingunni.” (87)
Stríðið er samt mesta áfallið. Eins og aðrir sósíalistar stóð Jóhannes úr Kötlum með bandamönnum í þessu stríði en fram kemur í þessari stríðsljóðabók að honum finnst erfitt að réttlæta mannfórnir valdhafanna, jafnvel þó að við Hitler sjálfan sé að eiga. Þetta kemur fram í lokaorðum kvæðisins Móðir hermannsins: „Sigur er unninn. Sonur þinn fær orðu. / Svona er lífið. Vertu bara góð.” (70) Eftirmáli bókarinnar er á sömu lund og upphafið. Skáldið er enn sakbitið yfir að vera á lífi og hafa ekki dáið eins og aðrir: „Og kvæðin mín – þau dæmast til að deyja / sem daprir vottar þess, er hefur skeð. / Í stríði þessu létu margir lífið, / og lof sé guði, ef þau teljast með.” (110)
Það leynir sér ekki á Sól tér sortna að Jóhannes úr Kötlum er í kreppu. Hann er tekinn að efast um baráttuna en einkum um eigin skáldskap. Sá efi hefur þó enn ekki fengið skýrt form. Jóhannes úr Kötlum var fangi eigin skáldanafns. Ekki aðeins var hann verðlaunaskáld á sigurhæðum þaðan sem engin leið er nema niður á við heldur einnig rauður penni. Hann hafði gerst þjónn byltingar sem nú var orðin að stjórnarmyndunarþrefi. Hún hafði kallað á hið opna form sem fyrst hafði verið sem hressandi bað í köldu vatni en hafði misst endurnýjunarkraftinn.
Sól tér sortna hlaut harða gagnrýni. Harðasta af Magnúsi Kjartanssyni: 5Tímarit Máls og menningar 7 (1946), 65.
Jóhannes úr Kötlum er of hefðbundinn í framsetningu sinni og túlkun. Hann talar miskunnarlaust um frelsi, kúgun, réttlæti o. s. frv., enda þótt þeim orðum hafi verið útjaskað svo af ómerkilegum pissskáldum að þau hafa enga merkingu lengur, nema blásið sé í þau nýju lífi; en það hefur Jóhannesi úr Kötlum ekki tekizt.
Kúvendingin úr nýrómantík í róttækan baráttuskáldskap virðist ekki hafa kostað átök og fórnir. Öðru máli gegndi nú. Staða skáldsins innan bókmenntastofnunarinnar réð þar mestu. Rúmlega þrítugt og stórefnilegt skáld hefur leyfi til að þróast. Sömu reglur gilda ekki um hálffimmtug verðlaunaskáld. Jafnaldri Jóhannesar, Davíð Stefánsson, hafði lent í að verða stofnun þegar með fyrstu ljóðabók sinni. Hann náði aldrei sömu snerpu aftur, Svartar fjaðrir eru enn taldar merkasta ljóðabók hans. Til skálda sem hafa slegið í gegn eru gerðar kröfur. Þau hafa skyldum að gegna. Skyldur Jóhannesar úr Kötlum voru margþættar. Hann var þjóðskáld en einnig byltingarskáld.
Lausn skáldsins var sérstæð og á raunar ekki sinn líka í íslenskri bókmenntasögu. Það klæddist gervi. Jóhannes úr Kötlum hætti að peðra út ljóðabókum. Í stað þess tóku að birtast ljóð eftir Anonymus. Skáldanafnið flæktist fyrir skáldinu. Það gat ekki endurfæðst undir eigin nafni. Nafnleysinu fylgdi frelsið sem skorti.
Tíu ár liðu milli ljóðabókanna Sól tér sortna og Sjödægru. Það var sá tími sem verðlaunaskáldið Jóhannes úr Kötlum þurfti. En skáldið á bak við nafnið hafði þegar í Sól tér sortna sagt sér sjálfum það sem Magnús Kjartansson sagði í ritdómi sínum. Og áður en sá harði dómur féll kom svarið, í 3. hefti Tímarits Máls og menningar árið 1945. Fremst í því hefti er ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum. Það heitir Kliðhenda og er hefðbundið minningarljóð um Sigurð Thorlacius skólastjóra, fagurt og vel ort en ófrumlegt með öllu:
Höfugar daggir brúði þína beygja,
bregður nú húmi á glókollana þína.
Eitt er þó víst: að æskan þekkir sína.
Áfram mun hún þitt stríð til sigurs heyja. 6Tímarit Máls og menningar 6 (1945), 185.
Þannig orti Jóhannes úr Kötlum anno 1945. En aftar í sama hefti eru þrjú ljóð saman undir titlinum „Órímuð ljóð”. Höfundur þeirra er Anonymus. Hrynjandin er regluleg en rími og stuðlum hefur verið kastað. Það var fyrsta skref hins nafnlausa skálds.
Ljóðin heita Tvö augu, Ferskeytlur og Ragnarök. Í því síðastnefnda eru þessar ljóðlínur:
Rís svo hinn næsta dag
handan við sól og tungl
bláhvítu ljósi skyggð,
tárfögur, hrein. 7Tímarit Máls og menningar 6 (1945), 240.
Þetta var nýr tónn á þessum tíma. Ljóðið er ekki rímuð ræða þó að það hafi skýrt erindi; þar er minnst á „vélknúin morð”. Skáldið vill halda baráttunni áfram en leitar nýrra leiða. Og kvæðið Ragnarök er eitthvað nýtt.
Í sama hefti Tímarits Máls og menningar og birti hinn hvassa dóm Magnúsar Kjartanssonar kom annað ljóð eftir Anonymus og árið 1947 birtust fleiri ljóð undir samheitinu Órímuð ljóð. 8Tímarit Máls og menningar 8 (1947), 99-102. Enn er rímleysið höfuðatriði hjá hinu nafnlausa skáldi enda er eitt ljóðanna hið magnaða Rímþjóð sem sameinar bæði fasta hrynjandi og orðgnótt. Það er uppgjör skáldsins við rímið sem á þessum tíma var konungur í íslenskum ljóðheimi og áþjökun ungra skálda. Skáldið er farið að gera tilraunir með hljóm og liti. Miðleitni kemur í stað útleitni. Sjá má áhrif frá framandi álfum og nýstárlega og markvissa notkun lita. Þetta var árið áður en Tíminn og vatnið kom út.
Meginmunurinn á ljóðum Jóhannesar úr Kötlum og ljóðum eftir Anonymus var að ljóð Jóhannesar voru opin og auðskilin. Í þeim var hvorki gáta né galdur. Ljóðin sem Anonymus setti á prent voru myrk og torræð. Það á ekki síst við um ljóðið sem birtist árið 1948 undir heitinu „Eitt órímað ljóð” en skáldið kallaði síðar †skelfi. Þetta hámóderníska ljóð – sem er raunar ekki órímað þrátt fyrir fyrsta heiti sitt heldur rímað á nýjan hátt – er frá sama tíma og atómskáldin eru að koma fram og Steinn yrkir Tímann og vatnið. 9Tímarit Máls og menningar 9 (1948), 84-85. Sama ár gaf Anonymus út ljóðabók með þýðingum á ljóðum erlendra skálda, einkum módernískra. Annarlegar tungur er ein fyrsta móderníska ljóðabókin á íslensku.
Það hefur verið venja að kalla Jóhannes úr Kötlum samherja módernista, skáld sem endurnýjaðist til samræmis við ferska strauma sem yngri skáld báru með sér. Sveinn Skorri Höskuldsson hefur orðað bókmenntalega stöðu Jóhannesar úr Kötlum svo:
Hann verður ekki til að hefja merkið og gengur ekki fram fyrir skjöldu í upphafi en fylgir fast á eftir þeim, er fyrstir fóru. … Í þróun íslenskrar ljóðlistar um hálfa öld þykir mér sem Jóhannes minni á þá hugprýðismenn, er söxin vörðu. Hann var aldrei stafnbúi í þeim skilningi að hann hæfi fyrstur vopnaskipti í sókn nýrrar stefnu, en þegar stafnbúar féllu eða hopuðu í hlé úr bardaganum aftur undir lyftingu veraldargæða, þá stóð óbugaður víkingurinn úr Dölum. 10Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta, 140.
Þessi mynd er skemmtileg en það gleymist að þó að Sjödægra komi ekki út fyrr en árið 1955 fer Anonymus af stað árið 1945 og hefur þegar náð listrænum tindi árin 1947 og 1948, á svipuðum tíma og móderníska stefnan er hér að bresta á. 11Sbr. viðurkennt yfirlitsrit Eysteins Þorvaldssonar (Atómskáldin. Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Rvík 1980, 84-128) sem leggur áherslu á stöðu fimmmenninga sem voru öllu yngri en skáldið úr Kötlum og hófu störf sem módernistar á eftir Anonymusi.
Um Sjödægru hefur verið fjallað meira en nokkra aðra ljóðabók Jóhannesar úr Kötlum og litlu við það að bæta. 12Sjá m.a. Eysteinn Þorvaldsson. Könnun Sjödægru. B.A. prófs ritgerð í íslenzku vorið 1970. Mímir 17 (1971), 27-54; Halldór Guðmundsson. Sjödægra, módernisminn og syndafall Íslendinga. Svart á hvítu 2,2 (1978), 3-9. Einnig: Guðni Elísson. Ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum. Mímir 33 (1986), 82-92. Í eftirmála ritsins segir skáldið þetta um verk sitt: 13Jóhannes úr Kötlum. Til lesandanna. Sjödægra. Rvík 1955, 162.
Vera má að einhverjir virði mér til fordildar einnar jafnt form sem efni þessarar bókar. Og einn kann að sakna stuðla, annar stéttabaráttu, hinn þriðji skáldskaparins sjálfs. En hitt er jafnsatt fyrir því, að öðruvísi gat ég ekki ort á þessu stigi málsins – og tjóar því lítt um að sakast.
Hér stígur loksins fram sjálft verðlaunaskáldið Jóhannes úr Kötlum og kastar gervi Anonymusar. Óhætt er að líta á Sjödægru sem sköpunarsögu hans þó að sú sköpun hafi tekið tíu ár en ekki sjö daga. Á orðum skáldsins má marka að hann sé ekki með öllu laus við kvíða þegar hann stígur fram sem módernískt skáld. Þó hafði hann verið módernískt skáld í tíu ár. Jóhannes úr Kötlum hafði verið í löngu fríi sem skáld en Anonymus starfað af krafti. Þáttur hans í að færa módernisma í ljóðagerð til Íslands var ríkur.
Tíu ára skáldskaparferill Anonymusar var merkur. Sérstæðust eru þó hamskipti skáldsins meðan á endurnýjuninni stóð. Verðlaunaskáldið réð ekki við umbyltinguna, það þurfti að kasta skáldanafninu á meðan. Það hafði þau áhrif að á meðan önnur skáld af sömu kynslóð voru föst í skáldskap æsku sinnar varð til nýr Jóhannes úr Kötlum.
Þegar lygin hrynur
Þá er aðeins hálf sagan sögð. Óneitanlega eru mikil umskipti fyrir harðsvíraðan rímara að semja órímuð ljóð. Ljóðið †skelfir eru mikil hvörf frá hinum opnu og auðskildu ljóðum í Sól tér sortna. En kúvendingin varð á fleiri sviðum og ekki er hægt að leiða hjá sér kvæðið Dagskipun Stalíns sem hefur iðulega verið dregið fram skáldinu til háðungar. Þá vill gleymast hvenær það var ort. Þýskaland Hitlers var í árásarstríði gegn heiminum. Skyndilega voru Sovétmenn orðnir bandamenn Breta og Bandaríkjamanna. Á þeim árum ríkti mikil velvild í garð Sovétríkjanna og Stalíns meðal þessara þjóða og þótti jaðra við föðurlandssvik að hallmæla Stalín. Ekkert gerðist á vesturvígstöðvunum en her Stalíns sneri stríðinu við við Stalingrad. Lof um Stalín var ekkert einsdæmi á þessum árum.
Þetta voru góðir tímar fyrir kommúnista á borð við Jóhannes úr Kötlum. Eins og fleiri hafði hann talið Sovétríkin framtíðarríki á þeim árum þegar kreppan virtist geysa alstaðar nema þar. Síðan höfðu ríkt hörð ár Moskvuréttarhalda og griðasamninga við Hitler sem höfðu reynt á þolrif kommúnista. Nú loksins stóðu hið besta og næstbesta saman gegn hinu versta. Þó er Sól tér sortna ein svartsýnasta bók hans til þessa. Efi var tekinn að sækja að baráttuskáldi kommúnismans.
Árið 1956 afhjúpaði Krústjeff misgjörðir Stalíns í ræðu á 20. flokksþingi Kommúnistaflokksins Sovétríkjanna. Þar voru staddir ýmsir kommúnistaleiðtogar á Vesturlöndum, t.d. Aksel Larsen hinn danski sem skömmu síðar yfirgaf flokk sinn og hafnaði Sovéthollustu hans. 14Kurt Jacobsen. Aksel Larsen. En politisk biografi. Valby 1993, 486-649. Íslenskir kommúnistar brugðust öðruvísi við. Þeir höfðu verið í minna sambandi við Sovétríkin. Um átján ára skeið höfðu þeir verið í Sósíalistaflokknum sem hafði tekið þátt í ríkisstjórn og verið breiðari en kommúnistaflokkar Vestur-Evrópu. Þeir gerðu því það sem Aksel Larsen gat ekki, létu sem sér kæmu uppljóstranirnar um Stalín ekki við. Töldu þeir alla umræðu um málið vatn á myllu andstæðinganna. Hægt og hljótt hurfu íslenskir vinstrisósíalistar frá trú á Sovétríkin. Það var ekki fyrr en síðar að Halldór Laxness gerði upp við sinn mikla þátt í hinni röngu sýn á Sovétríki Stalíns.
Jóhannes úr Kötlum tók ekki þátt í þessari allsherjarþögn. Árið 1956 hélt gamall samherji hans, síra Sigurður Einarsson, ræðu hjá Heimdalli, ræddi þar kvæðið Dagskipun Stalíns og lýsti Jóhannes úr Kötlum og fleiri íslenska kommúnista samábyrga á illvirkjum harðstjórans. Málsvörn Jóhannesar er meistaraleg. Hann dregur fram að ekki aðeins Sigurður sjálfur heldur einnig bandaríski sendiherrann í Sovétríkjunum höfðu sagt hið sama um Stalín og hann á þessum tíma: 15Jóhannes úr Kötlum. Fagurt galaði fuglinn sá. Vinaspegill. Rvík 1965, 41-51. Þessi grein birtist fyrst í Þjóðviljanum 26. apríl 1956.
Þegar frá er skilið skáldaflúr um hvítvængjuð englabörn, lítinn geitarost og annað rómantískt glingur, þá fæ ég satt að segja ekki séð ýkja mikinn mun á þessum „lofsöng” og mínum.
En Jóhannes er meira í hug en að verja sig. Uppgjör flestallra umventra kommúnista hefur að lokum tekið að snúast upp í ákærur á hendur öðrum, eins og Sigurður Einarsson varð Jóhannesi að dæmi um í þessari grein. Jóhannes úr Kötlum fór ekki þá leið heldur horfðist í augu við sjálfan sig sem skáld: 16Sama rit, 46.
Það hefur löngum verið árátta mín að yrkja lofsöngva. Ég hef ort lofsöngva um guð almáttugan, móður náttúru, lands míns föður. Ég hef ort lofsöngva um átthagana og moldina, fjöll og dali, ár og vötn. Ég hef ort lofsöngva um fuglana og blómin, hestinn og kúna, hundinn og köttinn, laxinn og hornsílið. Ég hef jafnvel ort lofsöngva um músina og mosann. En fyrst og síðast hef ég þó ort lofsöngva um fólk. Ég hef ort lofsöngva um heimasætur. Ég hef ort lofsöngva um börn og gamalmenni. Ég hef ort lofsöngva um söguhetjur Íslands og þegna þagnarinnar. Ég hef ort lof-söngva um nafngreinda menn, innlenda og erlenda: Helga Péturss og Georgi Dimitroff, Magnús Helgason og Mao Tse-tung, Einar Olgeirsson og Kaj Munk, Halldór Laxness og Nordahl Grieg. Og ég orti lofsönginn um Stalín. Það er eini lofsöngurinn sem hefur gert verulega lukku.
Jóhannes játar hreinskilnislega á sig oftrúna á Stalín en hafnar ekki þeim þætti í eigin fasi sem olli henni: 17Sama rit, 47.
Allt vort líf er áhætta og þó er kannski trúin á manninn áhættusamari en nokkuð annað. Þar er nú eins gott að hafa vaðið fyrir neðan sig ef vel á að fara. Eigi að síður er það þessi trú sem hnikað hefur homo sapiens nokkuð á leið og þeim mun lengra sem hún hefur verið heitari og einlægari. Mér hefur jafnan verið það rík nauðsyn að skynja framtíðarmanninn gegnum ákveðna einstaklinga og tengja þannig hugsjónina lifandi veruleika. Þá getur skáldi orðið gjarnt til að mála sterkum litum – skapa hetjur og jafnvel dýrðlinga.
Þannig hafi verið með lofið um Stalín, það hafi verið óskmynd fremur en raunsæ lýsing. Niðurstaðan er þessi: 18Sama rit, 48.
Uppljóstranirnar í austurvegi virðist ný útgáfa gömlu sögunnar um það hvernig siðblindan nær valdi yfir framkvæmd mikillar hugsjónar í brimróti samfélagsafla sem reynast mannlegu einstaklingseðli ofviða. Þetta eru sorgleg tíðindi … Það er alltaf og alstaðar jafn sorglegt þegar maðurinn stenzt ekki raun sinnar dýrustu skynjunnar.
Skáldið stóð fast við hugsjónir sínar. En um leið sneri hann baki við eigin trú á Stalín í stað þess að afneita þessum miklu og illu tíðindum. Það er engu líkara en að þau hafi ekki komið honum verulega á óvart. Viðhorfsbreyting hans í skáldskap hafði allan tímann verið samofin endurmati hans á stjórnmálunum.
Í sömu ljóðabók og lofið um Stalín var sett á prent velti skáldið vöngum yfir makki „Billans” við Ólaf Thors. Hann horfir á forystumenn Sósíalista af sama efa og tröllríður skáldskap hans almennt. Afstaða hans til heimsmálanna er að flækjast. Fullvissa fyrirstríðsáranna hverfur. Skáldið er sami hugsjónamaður og fyrr en hugsjónin holdgerist ekki í sovétkommúnisma eða Stalín eða íslenskum sósíalistum. Margoft hefur verið bent á ýmis teikn vonbrigða í seinustu verkum skáldsins. 19Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta, 142; Njörður P. Njarðvík. Vort er ríkið, 143. Nýlega hefur Sveinn Skorri Höskuldsson rætt tengsl ljóðsins Næturróður við Samothrake eftir Gunnar Ekelöf. 20Sveinn Skorri Höskuldsson. Lífróður. Skæðagrös. Skrif til heiðurs Sigurjóni Björnssyni sjötugum 25. nóvember 1996. Rvík 1997, 201-26. Munur ljóðanna felst að hans mati í þessu: „Ef til vill lýkur „Samothrake” á von, þrátt fyrir allt, þar sem Næturróður” á enga.” 21Sama rit, 226.
Ekki er hægt að skilja sundur skáldskap Jóhannesar úr Kötlum og stjórnmálastarf. Þegar Anonymus tók til starfa hafði skáldið í rúman áratug verið boðberi nýs heims, byltingar, Sovét-Íslands. Ljóðið Dagskipun Stalíns er lokahnykkur á þeim ferli. Ljóð Anonymusar snerust ekki um slíkar hetjur. Í þeim var ekki skýr boðskapur, annar en þær ályktanir sem hver lesandi fyrir sig getur dregið. Jóhannes úr Kötlum var hættur að vera hirðskáld og var orðið skáld einvörðungu.
Árið áður en Krústjeff fletti ofan af Stalín kom Sjödægra á prent. Í henni er ljóðið Fjöll sem segir allt sem segja þarf um hugsjónir skáldsins á þeirri tíð þegar sannleikurinn var ekki lengur auðþekktur og handhafar hans engir lengur til:
Mín fjöll standa
þegar lygin hrynur
mín bláu fjöll
mín hvítu fjöll. 22Sjödægra, 93.
Módernisti úr skápnum
Jóhannesi úr Kötlum tókst það sem engu öðru skáldi lánaðist, að feta allan veginn frá Svörtum fjöðrum til módernismans. Hamskipti hans voru margþætt. Jóhannes úr Kötlum þróaðist ekki úr vinstrimanni í hægrimann. Pólitískt stökk hans var enn lengra. Hann hætti að vera fylgismaður málstaðar sem var skýr og átti sér holdtekningu í þessum heimi og varð þess í stað maður sem stóð einn með sín bláu og hvítu fjöll, málstað sem stóð eftir þegar guðir féllu af stalli. Hugsjónir hans fóru ekki með í fallinu.
Um leið breytti hann sér úr baráttuskáldi sósíalismans í nútímaskáld. Hann lét fyrir róða rím og stuðla og hinn hreina boðskap. Í staðinn komu ljóðmyndir og margræðni. Í þessu fylgdi hann ekki hinum yngri mönnum heldur var hann leiðsögumaður þeirra. Ljóðbylting hans varð ekki með Sjödægru árið 1955 heldur tíu árum fyrr.
Hamskipti Jóhannesar úr Kötlum eru ekki aðeins athyglisverð fyrir það að þau fóru fram heldur hvernig þau fóru fram. Eins og önnur verðlaunaskáld var Jóhannes úr Kötlum fangi eigin skáldanafns. Ekki aðeins hins íslenska skáldskapararfs með rími sínu og ljóðstöfum heldur einnig þeirrar baráttu sem hann hafði leitt og gefið skáldskap sinn. Honum leyfðist ekki að hlaupa undan sér. Lausn hans var dulargervið. Jóhannes úr Kötlum hélt áfram að vera sá sem menn þekktu. Skáldið undir nafninu kom fram nafnlaust. Hann var hikandi og í felum en ætlan hans virðist þó hafa verið skýr frá upphafi.
Tíu árum síðar sameinuðust þeir Anonymus og Jóhannes úr Kötlum. Módernisti varð orðinn til. Endurfæðingin gerði hann hvorki sjálfumglaðan né sigurvissan og hann dró fyrri lofsöngva ekki til baka. En öðruvísi gat hann ekki ort á þessu stigi málsins.
Greinin birtist áður í Mími, nr. 47 / 1999
Ármann Jakobsson
Ármann Jakobsson er prófessor í íslensku og rithöfundur. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 2003. Frá því í júlí 2011 hefur hann gegnt stöðu prófessors við íslensku- og menningardeild HÍ. Ármann hefur sent frá sér tvær skáldsögur, Vonarstræti og Glæsi. Vorið 2011 kom út í ritröðinni Íslenzk fornrit hjá Hinu íslenska fornritafélagi konungasagnaritið Morkinskinna í tveimur bindum en Ármann sá um útgáfuna ásamt Þórði Inga Guðjónssyni.
Stefán Karlsson
Stefán Karlsson hefur um árabil starfað sem fréttaljósmyndari, síðustu árin hjá Fréttablaðinu og Vísi.is.