Hátíð fer að
höndum ein

Um kveðskap Jóhannesar úr Kötlum um jólin

Í skáldskap Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) tvinnuðust saman tveir þættir sem í hugum margra eru andstæðir: Róttæk vinstristefna og kristin trúarhugsun. Hér verður brugðið ljósi á kveðskap Jóhannesar um jólahátíðina og kannað hvernig þessi stef endurspeglast í henni.
Jólaljóð Jóhannesar eru mjög fjölbreytt allt frá hinu stórkarlalega barnakvæði Grýla hét tröllkerling leið og ljót til lágstemmdra erinda sem hann orti út frá þjóðvísunni Hátíð fer að höndum ein.

Grýlukvæði og leiðsluljóð

Framan af einkenndu barna- og það sem kalla mætti leiðslu- eða íhugunarljóð kveðskap Jóhannesar um jólin. Með leiðslubókmenntum er átt við frásagnir eða annars konar texta af því sem borið hefur fyrir höfund í draumsýn.1Jakob Benediktsson 1989: 158-159. Hér er gengið út frá að sá „draumur“ geti hafa borið fyrir mann í vöku.
Það sem flestir kannast við af þessum ljóðum eru ugglaust kvæðin í kverinu Jólin koma sem birst hefur í á annan tug prentana frá 1932. Hafa Grýlukvæði og kvæðin um jólasveinana þrettán og jólaköttinn átt hvað drýgstan hlut í að halda minningu þessara furðuvera þjóðsagnanna á lofti og skila henni til nýrra kynslóða allt til upphafs 21. aldar. Kverinu lýkur svo á angurblíðu ljóði, Jólabarnið, þar sem jólahald í íslenskri baðstofu færist um set út að fjárhúsjötu þar sem nýfætt Jesúbarnið liggur og foreldrar þess bíða eftir betra skýli „í fátækt og miklum vanda.“2Ljóðasafn 1984(9): 27.

Þá kemur þú með þín kerti,
kveikir við jötuna lágu,
og réttir fram, hreina og hlýja,
höndina þína smáu.

Og bláeyga jólabarnið
þú berð inn í vöggu þína.
Og allir englarnir syngja,
og allar stjörnurnar skína.3Ljóðasafn 1984(9): 27.

Ljóðið er íhugunarkvæði börnum til huggunar sem staðið hefur stuggur af ókindunum sem ort var um í fyrri kvæðunum og er ætlað að gera þau að virkum hluttakendum í jólaatburðinum. Í því verður fæðing Krists einnig sístæð og nálæg þar sem hún gerist hvert aðfangadagskvöld. Jólanóttin er þar með hafin yfir tíma og rúm en er ekki aðeins aðfaranótt 25. desember.

Í fyrstu ljóðabók Jóhannesar, Bí, bí og blaka (1926), birtist áþekkt leiðsluljóð, Nóttin helga. þar fylgist ljóðmælandinn með kertisstubb sínum brenna upp og í loganum opnast honum heill heimur. Hann verður vitni að atburðum hinnar fyrstu jólanætur og öðlast persónulegt samband við Jesúbarnið og móður þess:

Móður milda ég sé, –
mig hún nálgast skjótt,
blessað barnið sitt
ber til mín í nótt.

Jesúbarnið blítt
brosir ljúft við mér.
Ástaralda guðs
yfir heiminn fer.

Barnið brosir við,
– bendir mér til sín.
Klökk við móðurkné
krýpur sála mín.

Grætur móðir glöð:
„Guð á drenginn minn.
Horfðu í augu hans,
– hann er bróðir þinn!“4Ljóðasafn 1972(1): 124-125.

Skáldið lýkur ljóði sínu í bæn:

Blíða Jesúbarn!
Beint í ríki þitt
láttu lýsa mér
litla kertið mitt!5Ljóðasafn 1972(1): 127.

Í næstu bók, Álftirnar kvaka (1929), er að finna ljóðið Jólin okkar þar sem enn gætir íhugunar út frá jólaljósi. þar má þó greina nýjan tón, samstöðu með þeim sem þjást. Sá tónn átti eftir að harðna og skerpast því harðar sem varð í heimi:

Hann markið eilífa minnir á.
Og móti öllum, sem ljósið þrá,
hann bróðurfaðminn sinn breiðir,
og börnin við hönd sér leiðir.
Hann blessar alla, sem biðja af ást,
– hann blessar alla, sem lifa og þjást,
og smælingjans götu greiðir.6Ljóðasafn 1972(1): 259.

Meðal leiðsluljóða Jóhannesar með vísun til jóla má loks nefna Vökunótt (Eilífðar smáblóm 1940). þrátt fyrir að þar sé kveðið um sumarnótt er höfðað til gjafa vitringanna og þar með þrettánda dags jóla í síðasta erindinu:

Júníljós sig hjúfra um skóg og hraun,
– hér er gull og reykelsi og myrra.
Jesúbarnið lék hérna á laun
lengi nætur einu sinni í fyrra.7Ljóðasafn 1973(4): 59.

Kreppu- og stríðsjól

Með kreppunni, uppgangi fasisma og nasisma, borgarastyrjöldinni á Spáni og loks heimsstyrjöldinni síðari óx róttækni Jóhannesar og tónninn í skáldskap hans varð harðari og óvægnari. Litið hefur verið svo á að þá hafi hann tekið sinnaskiptum frá kristinni bernskutrú til kommúnisma.8Hjalti Hugason 2004: 78. Sjálfur virðist hann ekki hafa litið svo á heldur skynjað trúarhugsun sína og þjóðfélagsviðhorf sem samfellda heild er þróast hafi án stórvægilegra straumhvarfa. þá leit hann svo á að félagsleg réttlætiskennd sín væri fremur móðurarfur en áhrif stjórnmálastefna er hann kynntist síðar á lífsleiðinni.9Hjalti Hugason án árt.: 12.

Sonur götunnar í Ég læt sem ég sofi (1932) er að sönnu ekki jólaljóð heldur miskunnarlaus lýsing á kjörum ellefu ára götubarns sem elst upp á strætum stórborgar á tímum kreppunnar og „sýgur hvern fingur til blóðs“.10Ljóðasafn 1972(2): 32. Aðstæðum hans er lýst svo: „–Hann á engan föður og enga móður/og engan guð eða jól“.11Ljóðasafn 1972(2): 30. Við svipaðan tón kveður í Biðjið og yður mun veitast (Hart er í heimi 1939). þar er sögusviðið íslensk sveit en ljóðmælandinn er ungur dregur sem í örvæntingu bíður þess á aðfangadag að það verði heilagt vitandi þó að hans bíður „ekkert kerti, ekkert ljós“:

Í örvæntingu blítt ég bað
minn bróður, Jesúm Krist,
að búa kóngakerti til
og koma því sem fyrst.12Ljóðasafn 1973(3): 170.

Síðan bíður drengurinn uns hulin hönd dregur gaddaða frostrós á döggvaðan gluggann „í grimmmúðlegri ró“:

Hið kalda svar við sárri bæn
ég sá í þeirri rós:
Vor himinn gefur héluvönd,
er hjartað þráir ljós.

… Og jólin flýðu fátækt barn,
– en fannst þér, Jesús minn,
þá ekkert ljótt að leika á
svo lítinn bróður þinn?13Ljóðasafn 1973(3): 171.

Hér tekst skáldið á við Jesú í nokkurs konar Jakobsglímu út af óréttlæti heimsins og nálgast þannig eitt áleitnasta vandamál kristinnar guðfræði: Hvernig saman fari trú á algóðan, réttlátan Guð og ranglæti heimsins (oft nefnt guðvörn).

Í Himnahymnum (Sól tér sortna 1945) er enn vikið að hlutskipti hins fátæka um hátíðarnar. Ljóðið er annars gamansöm lýsing á hátíð í höll himnakonungsins sem drekkur jól að fornum sið með tveimur nafntoguðustu guðsmönnum þjóðarinnar, sr. Hallgrími Péturssyni og meistara Vídalín. Á borðum eru magálar, lambatungur, laufabrauð og Rínarvín. Þegar gleðin stendur sem hæst lætur jólabarnið til sín heyra:

Rís þá Jesúbarn
sem rós við hjarn:
skimar augnablik
sem skynji svik,
bendir á jarðardyr
í bobba – og spyr
guðlegt ektapar:
Hver grætur þar?14Ljóðasafn 1974(5): 84.
Kemur þar fram samstaða skáldsins og Krists með öllum sem líða. Trufluninni er þó ekki jafnvel tekið af öllum:

Drottinn vill nú frið
og dokar við;
vitur Máríá
sér víkur frá;
myrkvast Hallgríms sjón,
– en meistari Jón
svarar, vanur baksi:
O – sofðu lagsi!15Ljóðasafn 1974(5): 84.

Í þessu hálfkæringslega ljóði leynast þó vísanir í jólaboðskapinn í þeirri mynd sem var Jóhannesi töm, sem sé að á hverjum jólum sé heiminum frelsari fæddur:

Sæl er Máríá
og segir þá:
Fætt þann hef ég enn,
sem frelsar menn.
Svífa kerúbar
og serafar;
lamb sefur í ró
við ljónsins kló.16Ljóðasafn 1974(5): 81.

Lok erindisins er tilvísun í einn af þeim ritningarstöðum sem lesinn er á öðrum sunnudegi í aðventu þ. e. 11. kapítula. Spádómsbókar Jesaja þar sem lýst er því allsherjarjafnvægi sem muni ríkja þegar friðarhöfðingi framtíðarinnar hefur sest að völdum.

Á kreppuárunum orti Jóhannes ljóðabálkinn Mannssoninn sem birtist þó fyrst í heild 1966. Almennt er þar dregin upp mjög mennsk mynd af Kristi. Frá fæðingu hans segir í ljóðinu Í kofanum. þar gætir þó dýpri skilnings er skáldið ályktar:

Því hér var þá fædd þessi framtíðarvon,
sem fólk hafði lifað á, meðan það svalt.
Og móðirin horfði á sinn himneska son:
ó hvað hann var jarðneskur þrátt fyrir allt.17Ljóðasafn 1973(4): 15.

Jól 1936 (Hart er í heimi) er ljóð sem sýnir hvernig Jóhannes brást við samtíma sínum. þar lýsir hann því er sprengju var varpað á hóp barna sem dönsuðu kringum jólatré. Sögusviðið er Madríd á dögum borgarastyrjaldarinnar. Um afdrif barnanna segir: „Og öll þau hurfu úr lífsins leik:/þau leystust upp – þau urðu að reyk“.18Ljóðasafn 1973(3): 161. Í kjölfarið fylgir svo vægðarlaus spurn skáldsins um samband réttlætisins og vilja Guðs:

Og enn vér höldum heilög jól,
– ég horfi í spurn á barnið mitt:
Nær rekst þá vísdómsvilji guðs
á veslings glaða brjóstið þitt
og tætir sundur ögn fyrir ögn?
En enginn svarar: Myrkur. þögn.19Ljóðasafn 1973(3): 162.

Skáldið glímir hér enn við Guð sinn og krefur hann um réttlæti. Þegar bókin Eilífðar smáblóm kom út (1940) var heimsstyrjöldin skollin á. Í ljóðinu Jólanótt er koma Krists sett á svið í umhverfi íslenskrar sveitar. Hér er um að ræða umhverfisbundna guðfræði í líkingu við þá sem átti eftir að ryðja sér til rúms meðal ýmissa undirokaðra hópa sem felldu Krist og boðskap hans að sínum eigin félagslega veruleika. Jesús kemur að sveitabæ, þó ekki í líkingu barns heldur fullvaxinn og ríðandi kannski á ösnu eða brúnum fola. Stef jólanna og fyrsta sunnudags í aðventu, innreiðin í Jerúsalem, renna því saman í eitt. Lausnarinn verður þó að forsmá gestrisnina og brjóta þar með gegn einu af hefðbundnum siðaboðum þjóðarinnar. það var því ekki aðeins lögmál Gyðinga sem Kristur braut í krafti kærleikans þegar neyðin svarf að:

– – –

Herrann brosir, horfir milt á frúna:
hann má ekki vera að slóra núna.

Úti í heimi er allt í grænum sjó,
– andskotinn þar heilum löndum ræður.
Ljóssins fursti finnur aldrei ró,
fyrr en allir verða góðir bærður.
Júðans ríki jóla sinna bíður,
– Jesús Kristur út í myrkrið ríður.20Ljóðasafn 1973(4): 128.

Hér er Kristi lýst sem friðarhetju sem unir sér engrar hvíldar fyrr en friður hefur komist á í stríðandi heimi. Jólafriður og vopnaskak fara ekki saman. Kveðskapur Jóhannesar markaðist oft af pólitískum aðstæðum staðar og stundar. Gegn varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna orti hann til t.d. hina miklu hvöt sína til þjóðfrelsis, Sóleyjarkvæði (1952). þar kemur Kristur mjög við sögu bæði í líkingu Jesúbarnsins og ungs, fátæks smiðs sem sté niður af rauðum kvalakrossi til að koma á friði og frelsi.21Ljóðasafn 1974(5): 156-157.

Lýsingin á Jesúbarninu er nöturleg enda er það tákngervingur þess frelsis sem þjóðin hafði nýverið hafnað eða „borið út“:

Myrkur er yfir útskögum
– og hvað er að:
vera liggur í snjónum
vafin innan í blað
– er þetta kannski jesúbarnið
eða hvað?
_ _ _

útburðurinn skreiðist
undan mogganum sínum,
vappar um skaflinn næturlangt
og gólar í gnýnum:
faðir vor, ég heimta að þú skilir
handleggnum mínum.

Myrk er heiðin á miðju nesi,
en kátt er í kanabý:
þar er lífið þurrkað út
með kurt og pí
– ég var lífið, ó móðir mín
í kví kví.22Ljóðasafn 1974(5): 150-151.

Jesúbarnið er hér ekki aðeins samsamað glötuðu sakleysi nýfrjálsrar þjóðar heldur einnig einni forsmáðustu veru íslenskra þjóðsagna og öllum börnum sem er hafnað eða þau vanrækt.

Að lokinni heimsstyrjöld

Spennan í ljóðum Jóhannesar sem tengjast jólunum slaknar á árunum eftir heimsstyrjöldina. Sýnir það hvaða loftvog kveðskapur hans var á samfélags- og heimsástandið hverju sinni. Í miklu harmljóði eða elegíu sem skáldið orti eftir móður sína (Halldóru Guðbrandsdóttur d. 1945), Mater dolorosa (Sjödægra 1955), rifjar það upp kirkjuferð á jólum:

Manstu á jólunum
þegar við fórum til kirkju
og þú hvíslaðir við dyrnar:
hér er guð.

Manstu undrandi kertaljósin
sem blöktu á hjálminum:
gjafir hinna fátæku
hinna þreyttu.

Manstu spurula tónana
sem flögruðu um hvelfinguna:
bænir hinna syndugu
hinna auðmjúku.

Og manstu þegar maður
með kross á baki
sneri sér að okkur og söng
drottinn sé með yður

hvernig ég skimaði titrandi
um allt hið mikla hús
greip í skúfinn þinn og stundi:
hvar er guð?23Ljóðasafn 1976(7): 67-68.

Hér einkenna spurn, undrun og leit hughrif skáldsins, kenndir sem yfirgáfu Jóhannes aldrei: Hvar er Guð að finnaþ Sumum kann að finnast lýsing Jóhannesar á íslenskri sveitakirkju yfirdrifin þar sem hann ræðir um mikið hús með hvelfingu. Þó kunna hér að vera gildar forsendur fyrir hrifningunni.

Sóknarkirkja fjölskyldunnar var að Hjarðarholti en þar stóð fyrsta krosskirkja Rögnvaldar Ólafssonar (1874-1917) húsagerðarmeistara í rómantískum ný-gotneskum stíl.24Hörður Ágústsson 2000: 261-266. Hefur hún án efa orkað sterkt á fegurðarskyn margra, ekki síst lítils verðandi skálds.
Jóhannes var það skáld kynslóðar sinnar sem gekk hvað lengst í formtilraunum. Í Tregaslagi (1964) er að finna órímað jólaljóð í tveimur erindum, Jólasnjó:

1
Sannleikurinn er ótrúlegur –
svífandi mjöll kyssti
varir mínar í dag
– vöktu mér furðu
undarlegar þrár
andhverfra veralda:
leitaði dautt snjókorn
að lifandi blóðkorni?

2
Nú er mér allur harmur úr hug
því hvíta gyðjan
sníður mér kufl úr snjó
snýr strengi
blárra geisla á boga
barnsins sem fæðist í kvöld
– allt er nú hreint: íslandið ég
og ástin mín.25Ljóðasafn 1976(8): 31.

Ljóðið boðar frið vegna þess sístæða jólaundurs að Jesús fæðist um hver jól og endurnýjar þannig mann og heim, skapar forsendur friðar og réttlætis. þá leiðir hinn hvíti jólasnjór til hreinsunar – karþasis – í huga skáldsins. Áleitinnar tómhyggju gætir hins vegar í aðventuljóðinu Jólaföstu (Ný og nið 1970):

Hægt silast skammdegið áfram
með grýlukerti sín
hangandi í ufsum myrkursins.

Þegar búið er að kveikja
vitrast mér tvennskonar stórmerki:
gestaspjót kattarins
og hringsól gestaflugunnar.

Ég hlusta og bíð í ofvæni
en það kemur enginn…26Ljóðasafn 1976(8): 153.

Hátíð fer að höndum ein

Í jólakveðskap Jóhannesar fléttast saman gaman og alvara, trú og tómhyggja, þjóðfélagsádeila og draumkennd íhugun. Sums staðar er tónninn hvass en sums staðar angurblíður og á hið síðarnefnda ekki síst við um elstu ljóðin og æskuminninguna í Mater dolorosa.

Hinn lágstemdi tónn íhugunarinnar kemur þó e.t.v. hvergi betur fram en í fjórum erindum sem Jóhannes orti við fornt viðlag úr fórum Grunnavíkur-Jóns (1705-1779), Hátíð fer að höndum ein:27Silja Aðalsteinsdóttir 1984: 156.

Gerast mun nú brautin bein,
bjart í geiminum víðum,
ljómandi kerti á lágri grein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.

Sæl mun dilla silkirein
syninum undurfríðum,
leið ei verður þá lundin nein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.

Stjarnan á sinn augastein,
anda mun geislum blíðum,
loga fyrir hinn litla svein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.

Heimsins þagna harmakvein,
hörðum er linnir stríðum,
læknast og þá hin leyndu mein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.28Ljóðasafn 1984(9): 138-139.

Er fyrsta og síðasta erindið að finna í sálmabók þjóðkirkjunnar.29Sálmabók 1997 sálmur 722.

Í fyrsta erindi Jóhannesar í þessum „sálmi“ gætir hugrenningatengsla við þau orð sem sótt eru til Spádómsbókar Jesaja (40: 3) og heimfærð upp á Jóhannes skírara m.a. í Matteusarguðspjalli (3:3):

Jóhannes er sá sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni:

Rödd hrópanda í eyðimörk:
Greiðið veg Drottins,
gjörið beinar brautir hans.

Eru þessi orð Jesaja þekktur aðventutexti sem lesinn er á 3. sunnudegi í jólaföstu.30Handbók 1981: 64. Lokaerindið verður aðeins skilið í ljósi þeirrar framtíðarvonar sem víða kemur fram í kveðskap Jóhannsear og felur í sér hugsjón um endurnýjun gjörvalls mannlegs samfélags og er samantvinnuð úr róttækri byltingarhugsjón og kristnum hugmyndum um guðsríkið.31Hjalti Hugason 2004: 86-90.

Lokaorð

Jólakveðskapur Jóhannesar úr Kötlum er athyglisverður aldarspegill og sýnir hver opin kvika tilfinningalíf skáldsins var fyrir aðstæðum heimsmála á hverjum tíma. Hinn stríði tónn sem fram kemur á kreppu- og stríðsárunum sýnir það best.
Þá takast á gaman og alvara í þessum kveðskap sem og trú og tómhyggja. Andstæðurnar sem fram koma eru miklar allt frá góli útburðarins á Miðnesheiði til fölskvalausrar framtíðarsýnar um að hulin mein muni læknast við komu Krists.
Víðast má segja að róttæknin og trúarhugsunin í jólaljóðunum skerpi hvor aðra fremur en að önnur brjóti brodd af hinni.

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Árni Svanur Daníelsson

Árni Svanur Daníelsson starfaði sem verkefnisstjóri og sérþjónustuprestur á Biskupsstofu en þjónar nú sókninni í Reynisvallaprestakalli. Hann er líka ansi góður ljósmyndari.

Tilvísanir

   [ + ]

1. Jakob Benediktsson 1989: 158-159.
2. Ljóðasafn 1984(9): 27.
3. Ljóðasafn 1984(9): 27.
4. Ljóðasafn 1972(1): 124-125.
5. Ljóðasafn 1972(1): 127.
6. Ljóðasafn 1972(1): 259.
7. Ljóðasafn 1973(4): 59.
8. Hjalti Hugason 2004: 78.
9. Hjalti Hugason án árt.: 12.
10. Ljóðasafn 1972(2): 32.
11. Ljóðasafn 1972(2): 30.
12. Ljóðasafn 1973(3): 170.
13. Ljóðasafn 1973(3): 171.
14. Ljóðasafn 1974(5): 84.
15. Ljóðasafn 1974(5): 84.
16. Ljóðasafn 1974(5): 81.
17. Ljóðasafn 1973(4): 15.
18. Ljóðasafn 1973(3): 161.
19. Ljóðasafn 1973(3): 162.
20. Ljóðasafn 1973(4): 128.
21. Ljóðasafn 1974(5): 156-157.
22. Ljóðasafn 1974(5): 150-151.
23. Ljóðasafn 1976(7): 67-68.
24. Hörður Ágústsson 2000: 261-266.
25. Ljóðasafn 1976(8): 31.
26. Ljóðasafn 1976(8): 153.
27. Silja Aðalsteinsdóttir 1984: 156.
28. Ljóðasafn 1984(9): 138-139.
29. Sálmabók 1997 sálmur 722.
30. Handbók 1981: 64.
31. Hjalti Hugason 2004: 86-90.

Heimildir & hjálpargögn

Biblían, 1981.

Handbók íslensku kirkjunnar, 1981.

Hjalti Hugason, 2004: „Kristur og framtíðarlandið.“ Andvari. 129. ár.

Hjalti Hugason, án árt.: „Á mótum dulhyggju og félagshyggju.“ (ób. ritg.).

Hörður Ágústsson, 2000: Íslensk byggingararfleifð 1. b.

Jakob Benediktsson, 1989. Hugtök og heiti í bókmenntafræði.

Ljóðasafn, 1972-1984: Jóhannes úr Kötlum: Ljóðasafn. 1.-5. og 7-9. b.

Sálmabók íslensku kirkjunnar, 1997.

Silja Aðalsteinsdóttir, 1984: „Eftirmáli.“ Í Jóhannes úr Kötlum: Ljóðasafn 9. b.

| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2024