Árið 1999 fór ég að safna lausavísum föður míns og þeim vísum sem aðrir gerðu um hann. Nokkrar kunni ég og vissi að þær væru ekki til í minni annarra eða á prenti. Ég taldi því ástæðu til þess að skrifa þær niður svo þær glötuðust ekki. Síðan hafa nokkrar bæst við, sem ég hef rekist á í bókum, tímaritum, á netinu og víðar. Ég vil biðja þá sem kunna lausavísur eftir hann, sem ekki eru hér, að hafa samband við mig.
Svanur Jóhannesson

Lausavísur

Úr Þórsmörk

Þegar Einar sonur minn fæddist þann fyrsta júlí 1958 var pabbi við gæslustörf í Þórsmörk ásamt móður minni Hróðnýju. Ég skrifaði þeim bréf, þar sem öðruvísi var ekki hægt að koma boðum til þeirra. Þetta var merkur viðburður, því þau urðu afi og amma í fyrsta sinn.
Ég skrifaði þeim hvernig mér hefði litist á frumburðinn, þegar ég leit hann í fyrsta sinn og lýsti því hvernig hárið hefði verið blásvart og úfið og hann hefði ranghvolft framan í mig augunum.
Stuttu seinna fékk ég bréf og svohljóðandi vísur til Einars:

Egill karl og afi þinn
eru á bækur skráðir,
þó þeir væru að sönnu um sinn
svartir og ljótir báðir.

Ásýnd þín mér ægir síst
inn í framtíð gneypa.
Þú munt eitt sinn – það er víst-
þína sögu greypa.

Í Morgunblaðinu kom viðtal við Magdalenu Thoroddsen. Þar segir hún: ,,Jóhannes orti til mín landsfræga vísu:

Ef mig renar andlegt slen
óðar spen ég fólki kven,
mína ben þá mildar pen
Magdalena Thoroddsen.

Vísuna orti Jóhannes eftir að við kynntumst í Þórsmörk. Ég var þar á ferðalagi með blaðamönnum en hrapaði í Valahnúk og meiddi mig mikið. Ég þurfti að komast yfir í næsta dal til að komast í rútu. Jóhannes sem var þarna landvörður þá, smíðaði anskolli mikinn lurk og lét mig hafa. Hann gekk svo með mér yfir hálsinn, sem er kortérs gangur venjulega við vorum einn og hálfan tíma á leiðinni. Ég var öll lemstruð og marin og gat í raun alls ekki gengið þótt ég gerði það. Við Jóhannes töluðum mikið saman í þessari ferð. Seinna bauð hann mér og Halldóru systur minni heim í kaffi til sín og konu sinnar. Við héldum alltaf sambandi eftir þetta. Honum fannst ég víst kjarkmikil að komast yfir hálsinn svona illa leikin sem ég var.

Pabbi iÌ? goÌ?ðum feÌ?lagsskap iÌ? Ã?oÌ?rsmoÌ?rk.jpg

Jóhannes í góðum félagsskap í Þórsmörk. Þekkja má aftast Emelíu Friðriksdóttur konu Ingimars Sigurðssonar í Fagrahvammi, Jóhannes og Hróðný k.h. – Þóra systir mín í fremri röð í miðju.

Eftirfarandi vísur birtust í Tímanum 15. Júlí 1961 í grein eftir Guðmund Guðna Guðmundsson. Guðmundur var fæddur á Ísafirði 22. maí 1912. Foreldrar hans voru: Guðmundur Guðnason formaður þar og Anna saumakona s.st. rituð Torfadóttir, en talin með vissu dóttir Þórðar alþ.m. í Hattardal Magnússonar. Guðmundur birti oft greinar og kvæði í blöðum.

Jóhannes skáld úr Kötlum húsvörður í Skagfjörðsskála leit eitt sinn inn í svefnskálann og sá hvar ung stúlka lét fara vel um sig í rúminu sínu. Skáldið horfði um stund á ungfrúna en mælti svo:

Heyrðu, hjartans Úlla
hvað ert þú að núlla
réttast væri að rúlla
í rúmið þitt og lúlla.

Um Minnu eða fröken Rasmussen

Það hallast margir að einlífi – en
það er ástin, sem gefur oss trú og von,
rík er hún fröken Rasmussen
en ríkari verður frú Ásgeirsson.