Dreifibréfsmálið: Jóhannes fer inn á þing
Það var við sögulegar aðstæður sem Jóhannes skáld úr Kötlum tók sæti á Alþingi Íslendinga sumarið 1941. Landið hafði verið hernumið af Bretum árið áður og fjölmargir Íslendingar unnu í kjölfarið við störf tengd hersetu Breta, meðal annars við flugvallargerð á Reykjavíkurflugvelli. Þrjú verkalýðsfélög, Dagsbrún, Iðja og Múrarafélagið stóðu í verkfalli í upphafi ársins og þegar á leið, án þess að samningar væru í sjónmáli, hótaði breska herstjórnin því að íslenskir verkamenn sem höfðu unnið fyrir setuliðið yrðu ekki ráðnir framar í vinnu heldur yrðu breskir hermenn látnir ganga í störf þeirra.
Það svarf síðan til stáls þegar uppvíst varð að á meðal bresku hermannanna hafði verið dreift fjölrituðu bréfi á ensku þar sem útskýrð var staða hinna íslensku verkamanna og hermennirnir hvattir til að sýna þeim samstöðu í verkfallinu með því að ganga ekki í störf þeirra.
Dreifibréfið
Vísir birti þýðingu á dreifibréfinu þann 6. janúar 1941 en þá hafði breska setuliðið handtekið þá Harald Bjarnason og Helga Guðmundsson verkamenn;
„Upplýsingar um verkfallið. Brezkir hermenn. Þrjú af aðal verkalýðsfélögum Íslands hafa gert verkfall. Félög þessi eru Iðja, félag verksmiðjufólks, múrarafélagið og Dagsbrún, stærsta verkalýðsfélag okkar, á borð við enska sambandið Transport & General Workers sem Mr. Bevin er fyrir. Við höfnina, í verksmiðjunum og á brezku vinnustöðvunum er verkfallið algert (100%).
Við erum neyddir til að gera verkfall því það er eina leiðin til þess, að við fáum að sporna við því, að hinir íslenzku vinnuveitendur lækki lífsskilyrði okkar í þeim tilgangi að auka gróða sinn. Þessir vinnuveitendur standa gegn réttlátum kröfum okkar af hundruð íslenzkra heimila og þúsundir íslendinga. Hún lætur sjálf ótvírætt með ýmsu móti í ljós við Íslendinga sína skoðun á málunum.
Þjóðstjórnarblöðin hér bera þess gleggstan vottinn hvernig brezka herstjórnin skipuleggur starfið fyrir hinn „brezka málstað“, þar sem sum blöðin beinlínis lýsa sig opinberlega fylgjandi honum. Og svo ætti Íslendingum að vera óheimilt að láta brezku hermennina vita sannleikann um verkfallið, sem nú stendur yfir.
Manni verður á að spyrja: Er þetta skoðanafrelsið sem brezka herstjórnin er að berjast fyrir? Er þetta „verndin“ sem hún hét að veita? Eru þetta efndirnar á loforðunum um að blanda sér ekki í okkar innanlandsmál? En fram úr hófi keyrir þó svívirðingin hjá þjóðstjórnarblöðunum íslenzku, þessum þýlyndu málpípum milljónamæringanna og brezku heryfirvaldanna. Í stað þess að mótmæla kröftuglega hinum nýja, ósvífna yfirgangi brezku heryfirvaldanna, er þau nú enn einu sinni handtaka Íslendinga, þá leggjast þau hundflöt fyrir ofbeldinu.
Alþýðublaðið skrifar enn einu sinni sem væri það einkamálgagn brezku herstjórnarinnar og dirfist að tala um „undirröður kommúnista” meðal brezku hermannanna. Hjá „Vísi” verður þó tilfinningin með Kveldúlfi og milljónamæringunum öllu yfirsterkari, og gerist það blað svo bíræfið að ljúga því upp að verkfallsmenn séu að biðja brezka herinn hjálpar! — einmitt þegar sýnilegt er að íslenzkir menn eru að reyna að brjóta verkfallið á bak aftur með aðstoð brezks hervalds. Svo lágt leggst þetta blað, er til skiptis hefur rekið erindi þýzka nazismans og enskuheims valdastefnunnar, að það heimtar að íslenzk lögregla gerist sporhundar fyrir brezku heryfirvöldin, en minnist ekki með einu orði á þá kröfu allra heiðarlegra Íslendinga að þessum heryfirvöldum beri að sleppa öllum Íslendingum úr vardhaldi sínu tafarlaust. Því að þeir vona að brezka herstjórnin beiti hermönnunum til þess að brjóta verkfallið á bak aftur. Af þessum sökum verða brezku hermennirnir að kynnast staðreyndunum um verkfall það, sem nú stendur yfir.
Um hvað er verkfallið? Eftir brezka hernámið hefur kaupgjald á Íslandi verið lögfest með bráðabirgðalögum eins og það var í apríl 1938, að viðbættum 3/4 hlutum þeirrar verðhækkunar, sem verða kann. Vinnudagurinn var ákveðinn 10 stundir. Lögin gengu úr gildi 31. desember 1940. Verkalýðsfélögin og Vinnuveitendafélagið hafa ekki orðið ásátt um nýtt kaupgjald og vinnutíma. Síðan styrjöldin hófst hefur verið áætlað, að verðlag hér hafi hækkað um 60%. Verð á kjöti hefur hækkað um 67%, mjólk 50%, fiski 150%. Við förum fram á að vinnudagurinn á Íslandi verdi 9 stundir í stað 10, þar sem það er ranglátt að vinna þurfi 10 stundir til þess að fá eftirvinnu. Við förum fram á að kaupgjaldið sé ákveðið nákvæmlega i samræmi við verðlagið og að tímakaupið verði 1 shilling og 9 pence fyrir klukkustund í stað 1/5. Í Englandi, þar sem verðlag er ekki eins hátt og hér, fá verkamenn, sem vinna í þjónustu ríkisins, 2 shillings um tímann og þar yfir.
Íslenzku vinnuveitendurnir eru vel færir að verða við kröfum okkar, því að þeir græða milljónir á styrjöldinni. Svo að eitt dæmi sé nefnt, hafa stóru íslenzku togarafélögin, sem eru harðvítugustu andstæðingar verkalýðsins grætt 1 1/2 milljón sterlingspunda árið sem leið, að miklu leyti á brezka markaðnum. Ólafur Thors íslenzki verkamálaráðherrann, er aðalhluthafinn í stærsta togarafélaginu. Við getum ekki lengur þolað þann ránsskap, að í hvert sinn sem verðlag hækkar, skuli kaupgjaldið aðeins fylgja að nokkrum hluta og mismuninum síðan vera fleytt niður í vasa íslenzku auðmannanna.
Við berjumst sömu baráttunni og þið. Ykkur mun verða sagt, að verkfallinu sé stefnt að hernaði Breta. Ef þið lesið þetta flugrit vandlega, munuð þið sannfærast um að þetta er ekki satt. Verkfallinu er beint að stríðsgróðamönnum Íslands, sem vilja nota styrjöldina, og ef gerlegt er, brezku hermennina, til þess að knýja niður kaup verkalýðs okkar. Það eru sömu stríðsgróðamennirnir, er svíkja (swindle) brezku hermennina og heimta óhóflegt verð fyrir vörurnar, er hermennirnir kaupa. Nú þegar sjást merki þess að nota eigi ykkur til þess að brjóta verkfallið. Brezka herstjórnin hefur hótað, að leyfa verkfalls-mönnum ekki að snúa aftur til vinnu sinnar. Hermönnunum hefur verið skipað að dreifa með byssustingjum hópi verkamanna á friðsamlegum verkfallsverði.
Ef verkfallið heldur áfram verður ykkur sennilega skipað að vinna það verk, sem verkfallsmennirnir unnu áður. Maður sem tekur að sér verk starfsbróður, sem gert hefur verkfall, er einhver fyrirlitlegasta mannskepna. Hann er kláðagemsi, verkfallsbrjótur (svartleggur). Margir ykkar eru í verkalýðsfélögum. Þið komið frá landi, sem er heimkynni verkalýðsfélaganna. Vissulega verðið þið ekki til þess að gerast svartleggir gagnvart bræðrum ykkar í íslenzku verkalýðsfélögunum.
Hvað getið þið gert? Ef ykkur er skipað að framkvæma verk í herbúðunum eða við höfnina, sem þið teljið að íslenzkir verkamenn hafi áður unnið, eða ef ykkur er skipað ,að skerast í leikinn við verkfallsmenn á einhvern hátt, eigið þið að neita sem einn maður. Sendið undirforingja ykkar til yfirforingjanna með þau skilaboð, að þið teljið ekki slík afskipti skyldu ykkar sem hermanna. Bendið á að þið séuð í hernum til þess að berjast gegn fasisma, ekki til þess að berjast gegn íslenzku þjóðinni er gerir nákvæmlega það sama, sem þið munduð gera í hennar sporum. Hermenn, ef þið standið fastir er sigur okkar vís og þið munuð öðlast vináttu og þakklæti þjóðar okkar. Talið djarflega við yfirmenn ykkar. Talið djarflega upp í opið geðið á Ólafi Thors og ágirndarpúkunum vinum hans.
„Við erum hermenn, ekki verkfallsbrjótar“.
Þjóðviljinn studdi baráttu verkamannanna með afgerandi hætti á síðum blaðsins;
„Brezku heryfirvöldin óskapast nú yfir flugblaði þessu og beita refsiaðgerðum, taka enn einu sinni Íslendinga fasta án þess að íslenzk yfirvöld fái þar nokkuð nærri að koma. Ofbeldi þessarar herstjórnar gengur nú svo langt að líkast virðist því að hún stefni að því að hrifsa til sín öll völd hér, brjóta borgararéttindi Íslendinga gersamlega á bak aftur. Málgögn brezku herstjórnarinnar hér halda því fram að hún líti á flugmiða þennan sem undirróður meðal hermannanna. Eru það undarleg rök. Þessi herstjórn hefur óskað eftir sem nánustum kynnum milli Íslendinga og brezku hermannanna.“
Þjóðviljinn 7. janúar 1941. Bls. 4.
Í varðhald og dóm
Þann 10. janúar seldi herstjórnin brezka íslenzkum yfirvöldum í hendur fimm menn, sem hún hafði þá látið fanga, þá Harald Bjarnason, Helga Guðlaugsson, Eggert H. Þorbjarnarson, Eðvarð K. Sigurðsson og Guðbrand Guðmundsson.
Dómsmálaráðuneytið höfðaði í kjölfarið mál gegn 8 verkamönnum þann 5. febrúar 1941 og vísaði þar til 10. kafla hegningarlaganna sem fjallar um landráð.
Ráðuneytið höfðaði einnig mál gegn ritstjórum Þjóðviljans og vísaði þar til 2. málsgreinar 121. greinar hegningarlaganna;
„Hver, sem opinberlega og greinilega fellst á eitthvert þeirra brota, er í X. og XI kafla laga þessara getur, sæti sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 1 ári.“
Þann 15. febrúar var síðan í Sakadómi kveðinn upp dómur yfir fjórum af þeim átta verkamönnum sem málið var upphaflega höfðað gegn, tveir fengu 18 mánaða fangelsi og hinir tveir fjögurra mánaða fangelsi. Allir voru þeir sviptir borgaralegum réttindum, kosningarétti og kjörgengi til opinberra starfa. Ritstjórar Þjóðviljans voru dæmdir í þriggja mánaða varðhald hvor.
Bæði verkamennirnir og ritstjórar Þjóðviljans ákváðu að skjóta málinu til Hæstaréttar.
Hæstiréttur kveður upp dóm
Hinn 17. mars kvað Hæstiréttur síðan upp úrskurð í málinu og daginn eftir birti Þjóðviljinn þessa umfjöllun á forsíðu;
„Hæstiréttur kvað í gær upp dóm í hinu svokallaða dreifibréfsmáli, og staðfesti hinn svívirðilega pólitíska stéttardóm sakadómarans Jónatans Hallvarðssonar, að mestu leyti. Breytingar eru þær einar að 18 mánaða fangelsi þeirra Eggerts Þorbjarnarsonar og Hallgríms Hallgrímssonar er breytt í 15 mánaða fangelsi og að þeir Eðvarð Sigurðsson og Ásgeir Pétursson skuli ekki missa almenn borgaraleg réttindi.
Forsendur Hæstaréttar fyrir þessum svívirðilegasta dómi, sem hann hefur kveðið upp, eru birtar hér á eftir, því þær sýna bezt hve gjörsamlega órökstuddur dómurinn er, og að hann er aðeins innlegg í stéttar- og stjórmnálabaráttu þá, sem háð er hér um þessar mundir.
Það er sérstaklega eftirtektarvert að rétturinn tekur ekki til meðferðar eitt einasta atriði í ræðum verjanda né sækjanda. Hinum skörpu rökum verjendanna er hvergi mótmælt, jafnvel röksemdir eins hins allra kunnasta og færasta lögfræðings þjóðarinnar, Péturs Magnússonar, eru ekki virtar svars, enda eru allar líkur til þess, að dómurinn hafi verið ákveðinn áður en sókn og vörn fór fram.
Refsingar þær, sem hinir ákærðu eru dæmdir til eru þessar:
- Hallgrímur Hallgrímsson og Eggert Þorbjarnarson eru dæmdir í 15 mánaða fangelsi og sviptir borgaralegum réttindum.
- Eðvarð Sigurðsson og Ásgeir Pétursson eru dæmdir í 4 mánaða fangelsi.
- Einar Olgeirsson og Sigfús Sigurhjartarson eru dæmdir í 3 mánaða varðhald.
Það virðist augljóst, að tilgangurinn með dómi þeim, er ritstjórar Þjóðviljans hafa fengið, sé sá, að hindra þá frá þátttöku í stjórnmálabaráttunni fyrir kosningarnar í vor, og verður sá tilgangur sennilega undirstrikaður með því að láta þá sitja í varðhaldi um kosningarnar. Allt verður þetta mál rakið nánar í næstu blöðum. Dómurinn með forsendum er svohljóðandi;
„Þegar brezkur her steig á land á Íslandi þann 10. maí síðastliðið ár, var lýst yfir því af hálfu brezka ríkisins, að ekki mundi verða hlutazt til um stjórn landsins af hálfu Breta umfram það, sem nauðsyn bæri til vegna hernámsins. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu var það ljóst, að hætta á afskiptum erlends valds af íslenzkum málefnum jókst mjög vegna hernámsins. Og var af þeim sökum og oft síðar af opinberri hálfu brýnt fyrir íslenzkum þegnum að gæta allrar varúðar í umgengni við hernámsliðið, svo að Íslendingar veittu engin efni til frekari íhlutunar þess um íslenzk mál.
Takmarkið með útgáfu dreifibréfsins og útbýtingu þess meðal brezkra hermanna var það að afstýra því, að hermennirnir ynnu þau verk í þarfir herliðsins er íslenzkir verkamenn höfðu áður innt af hendi. Til þess að ná þessu markmiði er í dreifibréfinu skorað á brezku hermennina að neita allir sem einn (refuse in a body) að hlýða skipunum yfirmanna sinna um framkvæmd slíkra verka.
Upphafsmenn dreifibréfsins gáfu það út fjölritað og nafnlaust og reyndu að dylja eftir mætti hvar það var vélritað og fjölritað og með hvaða tækjum, og kveðast hinir ákærðu Eggert Halldór og Hallgrímur Baldi, sem lengi þrættu fyrir verknað sinn, hafa gert það til þess að torvelda rannsókn á uppruna bréfsins, með því að þeir hafi talið, að „setuliðsstjórnin mundi taka miðann illa upp og mundi reyna að komast fyrir, hverjir væru höfundar hans og jafnvel beita fangelsunum í sambandi við það, eins og raun varð á”. Þeim hefur því verið ljóst eins og hverjum manni hlaut að vera, að verknaður þeirra gæti leitt til þess að, ; brezku heryfirvöldin tækju fastan ótiltekinn fjölda manna, þar á meðal saklausa menn, meðan verið væri að rannsaka málið.
Einnig hlaut þeim að vera ljóst, að skapazt gæti agaleysi í hernum ef einhverjir hermanna yrðu við áskorun þeirra um óhlýðni við yfirmenn sína. En agalaus her í landinu stefnir bæði einkahagsmunum og opinberum, í brýna hættu. Þá var og mikil hætta á íhlutun heryfirvaldanna um íslenzk málefni og óþægilegum tak mörkunum þeirra á athafnafrelsi almennings, einkanlega ef ekki hefði náðst til upphafsmanna dreifibréfsins.
Verknaður hinna ákærðu Eggerts Halldórs og HalIgríms Balda varðar því við 88. gr. hinna almennu hegningarlaga nr. 19 frá 1940, og þykir refsing þeirra hvors um sig hæfilega ákveðin 15 mánaða fangelsi auk réttindasviptingar svo sem í héraðsdómi segir.
Þá hafa hinir ákærðu Eðvarð Kristinn og Ásgeir, sem vissu um efni bréfsins og áttu þann þátt í dreifingu þess, sem lýst er í héraðsdóminum, bakað sér með því refsingu samkvæmt 88. gr. hegningarlaganna og er refsing þeirra hæfilega ákveðin í héraðsdómi, en ekki er næg ástæða til þess að svipta þá réttindum samkvæmt 68. gr. sömu laga.
Með skýrskotun til forsenda héraðsdómsins má staðfesta ákvæði hans um refsingu hinna ákærðu Einars Baldvins og Sigfúsar Annesar, svo og ákvæði hans um sýknu hinina ákærðu Haralds, Helga, Guðbrands og Guðmundar.
Því dæmist rétt vera:
Héraðsdómurinn á að vera óraskaður að öðru en því, að fangelsisvist ákærðu Eggerts Halldórs Þorbjarnarsonar og Hallgrims Balda Hallgrímssonar hvors um sig sé 15 mánuðir og niður falli ákvæði um réttindasviptingu ákærðu Eðvarðs Kristins Sigurðssonar og Ásgeirs Péturssonar.
Ákærðu Eggert Halldór og Ásgeir greiði in solidum skipuðum verjanda sínum fyrir hæstarétti, Pétri Magnússyni hæstaréttarmálaflutningsmanni, málaflutningslaun kr. 150,00. Ákærðu Hallgrímur Baldi, Eðvarð Kristinn, Einar Baldvin Olgeirsson og Sigfús Annes Sigurhjartarson greiði in solidum skipuðum verjanda sínum fyrir hæstarétti, Agli Sigurgeirssyni cand. jur., málflutningslaun kr. 200,00. Allan annan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar á meðal málflutningslaun skipaðs sækjanda fyrir hæstarétti, Sigurgeirs Sigurjónsaonar cand. jur., kr. 250,00, greiði hinir dómfelldu allir in solidum.
Dóminum ber að fullnægja með aðför að lögum.“
Þjóðviljinn gagnrýndi einnig harðlega framgang ríkisstjórninnar í þessu máli, sagði hana draga taum Breta þegar í raun væri um innanríkismál að ræða. Blaðið taldi dóm Hæstaréttar í alla staði fáránlegan og á engan hátt væri hægt að saka þessa einstaklinga um landráð af nokkru tagi.
Fluttir í járnum til Bretlands
Síðla kvölds þann 26. apríl 1941 voru þeir Einar Olgeirsson, 5. þingmaður Reykvíkinga, formaður Sósíalistaflokksins og ritstjóri Þjóðviljans, Sigfús Sigurhjartarson, varaformaður Sósíalistaflokksins og ritstjóri Þjóðviljans og Sigurður Guðmundsson blaðamaður hjá Þjóðviljanum allir teknir fastir af herstjórn Breta. Þeir voru fluttir í járnum til Bretlands þar sem þeir sátu í varðhaldi í um það bil þrjá mánuði, fyrir að stunda svokallaðan „andbreskan áróður“. Í kjölfarið var útgáfa Þjóðviljans bönnuð og Bretar gáfu út opinbera tilkynningu um að hér eftir yrði hverskyns útgáfa og mótmæli sem bæru keim af „andbreskum áróðri“ stöðvuð í fæðingu.
Alþingi Íslendinga samþykkti einróma mótmæli gegn þessum aðgerðum og tilskipunum Breta. Rithöfundasamband Íslands mótmælti einnig auk fjölmargra aðila úr verkalýðshreyfingunni.
Jóhannes úr Kötlum, sem varamaður Einars Olgeirssonar á Alþingi, sat þessvegna seinni hluta þingsins 1941 og sumarþingið í júlí sama ár sem þingmaður Reykvíkinga, meðan Einari var haldið föngnum í Bretlandi.
Frestun alþingiskosninga
Síðasta verk reglulegs Alþingis árið 1941 var að samþykkja þingsályktunartillögu, þess efnis, að kosningum til Alþingis skyldi fresta um óákveðinn tíma og allt til stríðsloka ef þurfa þætti. Jafnframt ákvað þingið að framlengja umboð þeirra þingmanna, sem þá áttu sæti á Alþingi um óákveðinn tíma.
Ríkisstjórnin, sem bar þessa tillögu fram, viðurkenndi að með þessari ákvörðun væri stjórnarskrá Íslands „lögð til hliðar“. Samkvæmt stjórnarskránni áttu að fara fram kosningar til Alþingis fjórða hvert ár og enginn gæti endumýjað umboð þingmanna nema kjósendur, samkvæmt þeim reglum sem kosningalögin mæltu fyrir um.
Brynjólfur Bjarnason fjallar um málið í Innlendri víðsjá í tímaritinu Rétti, 2. hefti 1941;
„…ríkisstjórnin rökstuddi þessa ráðstöfun meö því að nauðsyn bryti lög, en kosningar væru óframkvæmanlegar, eins og sakir standa, vegna loftárásarhættu, siglingaerfiðleika og óvissrar framtíðar. Þetta munu vera einna bjánalegustu ástæður, sem sögur fara af að fram hafi verið bornar til að réttlæta stjórnlagarof. Um loftárásahættuna er það að segja, að engar samkomur voru bannaðar, um sama leyti komu þúsundir manna saman til að horfa á íþróttakappleiki og samstundis eftir þinglausnir boðuðu stjórnarflokkarnir til stjórnmálafunda víðsvegar um landið og kepptust við að safna þangað sem mestu fjölmenni.
Erfiðast var þó að skilja, hvernig siglingaerfiðleikar til annarra landa gátu meinað íslendingum, að kjósa sér þingmenn. Um hina óvissu framtíð er það að segja, að hingað til hefur þjóðunum þótt því meiri nauðsyn til bera að velja hæfa menn í trúnaðarstöður sem framtíðin er óvissari og tvísýnni.“
Þingsályktunartillagan um frestun kosninga var samþykkt með atkvæðum allra viðstaddra þingmanna nema fjögurra, sem greiddu atkvæði á móti. Það voru þingmenn Sósíalistaflokksins, Jóhannes úr Kötlum, Brynjólfur Bjarnason og Ísleifur Högnason og Páll Zóphóníasson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Brynjólfur Bjarnason heldur áfram;
„Þingmenn Sósíalistaflokksins lýstu þvi yfir, að hér eftir væri ekkert löglegt þing og engin lögleg stjórn í landinu. Öll þau lög, sem hið umboðslausa þing samþykkti væri markleysa og sömuleiðis allir þeir dómar, sem felldir yrðu og allar þær stjórnarráðstafanir, sem framkvæmdar yrðu á grundvelli þeirra „laga”. Hér eftir væru ráðherrarnir og þeir gerfiþingmenn, sem þeir styðja sig við, ekki annað en flokkur valdránsmanna, þar til nýjar kosningar hafa bundið enda á þetta lögleysisástand.“
En brátt dró til annarra stórra tíðinda vegna styrjaldarinnar sem áttu eftir að hafa langvarandi áhrif á stjórnmál landsins.
Bandaríkin hernema Ísland
Síðari hluta dags 8. júlí kom allstór bandarísk flotadeild til Reykjavíkur. Forsætisráðherra hélt útvarpsræðu um kvöldið og tilkynnti landsmönnum að Bandaríkin hefðu tekið að sér hervernd Íslands samkvæmt ósk ríkisstjórnarinnar og las ráðherra upp orðsendingar, sem farið höfðu milli hans og Bandaríkjaforseta um þessi mál.
Sama kvöld tilkynnti BBC að hið nýja hernám hefði farið fram, samkvæmt samkomulagi milli Bretlands og Bandaríkjanna.
Daginn eftir var Alþingi kallað saman (Sumarþingið 1941). Alþingismenn höfðu fyrst fengið að vita ástæðuna kvöldið áður þegar forsætisráðherra flutti útvarpsræðu sína. Stjórnin lagði fyrir þingið tillögu til þingsályktunar, þess efnis að þingið staðfesti samkomulag það, sem stjórnir Bandaríkjanna og Íslands höfðu gert með sér. Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar var samþykkt með 39 atkvæðum gegn 3.
Þingmenn Sósíalistaflokksins greiddu atkvæði á móti og færðu fram eftirfarandi ástæður:
1. Samkomulag þetta er gert bak við þing og þjóð af ríkisstjórn, sem er umboðslaus frá þjóðinni.
2. Með samkomulagi þessu er erlendu herveldi selt sjálfdæmi um örlög íslands í nútíð og framtíð. Engin tilraun hefur verið gerð til þess að fá sameiginlega tryggingu Bandamanna fyrir frelsi, fullveldi og friðhelgi Íslands að ófriðnum loknum.
3. Ríkisstjórnin notaði ekki hið einstæða tækifæri til þess að sjá hagsmunum Íslands borgið með ítarlegum og ákveðnum samningum við Bretland og Bandaríkin. Flest skilyrðin, sem sett voru af Íslands hálfu, voru mjög almenns efnis, loðin og óákveðin. Engin ákvæði voru um það, hvað verða skyldi um eignir Bandaríkjanna, er þau hverfa héðan með herlið sitt, hvort þær skyldu afhentar Íslendingum eða hvort Bandaríkin ættu að eiga til frambúðar mannvirki á Íslandi, sem kunna að verða margfalt verðmætari en allur þjóðarauður Íslendinga. Bandaríkjunum var ekki gert að skyldu að koma hér upp sprengjuheldum loftvarnabyrgjum og engin skýr ákvæði eru í samningnum um, að þeim beri að bæta Íslendingum það tjón, sem verða kunni af loftárásum. Almenn og óákveðin loforð um hagkvæma viðskiptasamninga við Bretland og Bandaríkin eru auðvitað harla lítilsvirði, eins og nú er komið á daginn og síðar mun verða nánar að vikið. Þar lítur hver sínum augum, á silfrið. Hér var vitaskuld um einstakt tækifæri að ræða, að gera hagkvæma viðskiptasamninga við Bandaríkin og Bretland, áður en samið var um herverndina.
Í sambandi við þetta mál báru þingmenn Sósíalistaflokksins fram þingsályktunartillögu þess efnis, að
1. Ríkisstjómin fari þess á leit við Bandaríkin, Bretland og Sovétríkin, að þau gefi sameiginlega yfirlýsingu um, aö þau skuldbindi sig til að viðurkenna algert frelsi, fullveldi og friðhelgi Íslands að styrjöldinni lokinni og taki ábyrgð á því, að það fái að njóta þess sjálfstæðis og að ekki verði gengið á rétt þess á nokkurn hátt — og
2. Að nú þegar verði tekið upp stjórnmálasamband við Sovétríkin.
Alþingi felldi að taka þessa tillögu á dagskrá.
Sumarþingið stóð aðeins í einn dag og eina málið á dagskrá var herverndarsamningurinn við Bandaríkjamenn. Þetta var síðasti dagur Jóhannesar úr Kötlum á þingi.
Bretar leysa Íslendinga úr haldi
Þrátt fyrir að Bretar hefðu stöðvað og lagt bann við útgáfu Þjóðviljans reis blaðið upp úr öskustónni þann fyrsta júlí 1941 undir nafninu „Nýtt dagblað“.
Þann 10. júlí birtist eftirfarandi frétt á forsíðu blaðsins:
„Brezka ríkisstjórnin hefur ákveðið, samkvæmt samningum við íslenzku ríkisstjórnina er fram fóru um að Bandaríkin hernæmu Ísland, að láta lausa alla þá íslenzka fanga, sem fluttir hafa verið til Englands, en þeir munu vera tíu, þrír blaðamenn Þjóðviljans og sjö frá Ísafirði og Reykjavík, sem fluttir voru út vegna hjálpar við þýzkan flóttamann. Samkvæmt yfirlýsingu um þetta mál á Alþingi í gær, má þvi vænta þess, að þeim Einari Olgeirssyni, Sigfúsi Sigurhjartarsyni og Sigurði Guðmundssyni og öðrum íslenzkum föngum, hafi verið sleppt úr fangelsi, og að þeir séu væntanlegir hingað á næstunni.
Nýju dagblaði er þó ekki kunnugt um, hvenær má vænta þeirra hingað heim.“
Þeir félagar Einar Olgeirsson, Sigfús Sigurhjartarson og Sigurður Guðmundsson komu síðan til landsins þann 5. ágúst 1941.
Dvölin í Bretlandi
Þremenningarnir höfðu dvalið fyrst í um fimm vikur í Royal Victoria Patriotic School í London en þar voru skilríkjalausir einstaklingar og innflytjendur geymdir þar til gengið var frá málum þeirra. Þeir voru síðan fluttir í Brixton-fangelsið þann 6. júní og voru þar í haldi til 18. júlí.
Aðbúnaður Íslendinganna í Brixton-fangelsinu
Skonsuklefar, 10 fet á lengd og 5–6 fet á breidd. Tréfleki og hálmdýna til að sofa á. Aldrei í 6 vikur var skipt um rúmföt. 2 ullarteppi, lak og lítill svæfill, samanrekið borð, lítið og ómálað, stóll eins, vaskafat og vatnskanna og koppur með fangamarki kóngsins, en konunglegt merki sást ekki á öðrum hlutum. Glerungshúðaður blikkdiskur og leirkanna, skeiðargeifla og hnífbreddi. Annað: 200 klefar í byggingunni. Fangar lokaðir inni í klefum 19 tíma á sólarhring. Morgunmatur: Hafragrautur, 3 brauðsneiðar og smjörlíki. Teblanda.
Páll og Svanur
Feðgarnir Páll Svansson og Svanur Jóhannesson söfnuðu heimildum og settu þessa grein saman um þær sögulegu aðstæður þegar Jóhannes úr Kötlum tók sæti á Alþingi Íslendinga. Svanur er sonur Jóhannesar úr Kötlum og Páll er sonur Svans.