Skáld lífs
og lands

Jóhannes úr Kötlum 4. nóvember 1899 / 4. nóvember 1999

Þegar hann kom fram ungt skáld árið 1926 með sína fyrstu bók virtist hann aðeins ætla að verða enn ein bakröddin í nýrómantískri hljómsveit þeirra Davíð Stefánssonar og Stefáns frá Hvítadal. Bókin hét Bí bí og blaka og stóð vel undir nafninu sem fengið var að láni úr alþekktri vögguvísu. En vísan leynir á sér og það gerði skáldið unga líka. Hann hélt áfram að nota hendingarnar í bókarnöfn: Álftirnar kvaka (1929), Ég læt sem ég sofi (1932)
. . . Og þegar Samt mun ég vaka kom út, 1935, var draumhuginn úr fyrstu bókinni orðinn byltingarsinni. Sú bók varð, splunkuný, guðspjall dagsins hjá verkfallsvörðum á jólanótt, eins og Jón úr Vör segir frá í viðtali í Birtingi 1957.
Skáldið sem lét vísuna góðu leiða sig áfram til róttæks sósíalisma var Jóhannes úr Kötlum og í dag eru nákvæmlega hundrað ár síðan hann fæddist að Goddastöðum í Dölum. Hann lauk prófi frá Kennaraskólanum 1921 og kenndi nokkur ár á eftir en vann lengst af fyrir sér með ritstörfum og ritstjórn.
Hann var geysilega afkastamikið skáld, gaf út fimmtán frumsamdar ljóðabækur, flestar efnismiklar, og eitt frægt safn af þýddum ljóðum, Annarlegar tungur (1948), fimm bækur með barnaljóðum, fimm skáldsögur og eitt safn af barnasögum, þýddi mikið, skrifaði greinar og ritdóma.
Jóhannes var í fyrstu borinn fram af hinni sterku og áhrifamiklu ungmennafélagshreyfingu sem setti svo mikinn svip á fyrstu áratugi aldarinnar. Í fyrstu bókunum er hann gagntekinn af trú á landið, þjóðina og guð og orti mörg innblásin ljóð um átrúnaðargoð sín. En fljótlega fer honum að sárna óréttlætið í heiminum og misskipting lífsins gæða. Strax í Álftirnar kvaka birtir hann ljóðið ,,Mannsbarnamóður³ sem lagt er í munn örsnauðri konu sem kveður vögguljóð við barn sitt og eins og títt er um íslensk vögguljóð er það fullt af óhugnaði. En óhugnaðurinn stafar ekki af draugum og forynjum næturinnar heldur af veðurhamnum úti fyrir og örbirgðinni innan dyra ‹ og endirinn gefur í skyn að barnið sé dáið.
Ætla má að einkum tvö bókmenntaverk hafi snúið Jóhannesi til sósíalisma, Alþýðubókin eftir Halldór Laxness (1929) og ljóðabókin Hamar og sigð eftir Sigurð Einarsson í Holti (1930) sem varð eins konar hugmyndabanki fyrir róttæk skáld á kreppuárunum. Í fyrsta kvæðinu í Ég læt sem ég sofi (1932) segir Jóhannes:

Ég orti áður fyrri
um ástir, vor og blóm.
En nú er harpan hörðnuð
og hefur skipt um róm.
Hún breytist, eins og annað,
við örlaganna dóm.

Þegar hér var komið sögu var kreppan gengin í garð með sínum síharðnandi andstæðum milli þeirra sem máttu sín einhvers og einskis. Jóhannes horfir hneykslaður á misréttið og yrkir “Opið bréf³ til guðs þar sem hann ber þetta fyrrverandi átrúnaðargoð sitt þungum sökum ‹ en hlýtur þó að þakka honum skáldskapargáfuna, rétt eins og Egill þakkaði Óðni forðum. Þetta er á köflum máttugt kvæði í tilkomumiklu orðskrúði sínu.
Sama árið, 1932, kom út sú bók Jóhannesar sem langvinsælust hefur orðið, prentuð ótal sinnum og kennir öllum íslenskum börnum að þekkja nafnið hans: Jólin koma. Hvaða íslenskt barn á hvaða aldri sem er hefur ekki sungið þessa vísu:

Bráðum koma blessuð jólin,
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt,
í það minnsta kerti og spil.

Í bókinni eru kvæðin alþekktu um Grýlu, jólasveinana og jólaköttinn sem öllu öðru fræðslu- og skemmtiefni fremur hafa haldið lífi í þessum vættum í minni þjóðarinnar.

Jóhannes vann gjarnan að nokkrum ljóðabókum í senn og skipti svo efninu á milli þeirra af eðlislægri smekkvísi. Til dæmis vann hann að fjórum ljóðabókum á árunum 1935-40 svo ólíkum að vel mætti trúa því að þær væru eftir fjóra menn. Í Hrímhvítu móður (1937) er gerð tilraun til að yrkja nýja Íslandssögu í lotulöngum kvæðum. Í Hart er í heimi (1939) er samtíminn tekinn fyrir, lið fyrir lið, í hörðum pólitískum kvæðum. Jóhannes nær meira að segja að yrkja um nýbyrjaða heimsstyrjöld. Í Eilífðar smáblóm (1940) eru stutt og persónuleg ljóð á flótta frá stríði og dauða, mörg undurfalleg. Fjórða bókin, Mannssonurinn, var ort á þessu skeiði en kom ekki út fyrr en 1966. Þar er saga Jesú Krists rakin í hlýlegum smákvæðum.
Eftir stríðið varð baráttan gegn erlendri hersetu á Íslandi brýnni en baráttan fyrir bættum kjörum, en þó að mörg skáld hafi lagt hönd á plóg gegn her í landi á Jóhannes langfrumlegasta verkið. Sóleyjarkvæði (1952) er langur epískur bálkur, ortur undir léttum þjóðkvæðaháttum, harður og nístandi og fagur og leikandi til skiptis. Þar segir frá Sóleyju sólufegri sem verður fyrir því óláni að elskhugi hennar, hinn frækni frelsissöngvari, er stunginn svefnþorni og hún getur ekki vakið hann. Öll náttúran lamast þegar söngvarinn þagnar og Sóley sjálf verður fyrir ofsóknum illþýða þegar hún reynir að vekja hann. Í heild sinni er þessi bálkur óviðjafnanlegur og hefur ásamt barnaljóðunum öðru fremur haldið nafni Jóhannesar lifandi meðal almennings. Pétur Pálsson gerði lög við mörg ljóða flokksins og hann hefur tvisvar verið tekinn upp á hljómplötu, í fyrra skiptið af hópi listamanna á vegum herstöðvaandstæðinga, í seinna skiptið af Háskólakórnum. Sú kynslóð sem nú er á fertugsaldri ‹ börn 68-kynslóðarinnar sem Jóhannes hafði svo mikla trú á kann þessi ljóð síðan í bernsku og syngur þau, kannski án þess að vita eftir hvern þau eru.

Jóhannes var ,,mesti forkur að ríma” eins og hann segir um sjálfan sig í ,,Æviágripi” í Sól tér sortna (1945) og þegar órímuð ljóð fóru að birtast árið 1945 í Tímariti Máls og menningar eftir skáld sem kallaði sig Anonymus datt ekki nokkrum manni í hug að þar færi sjálfur Jóhannes úr Kötlum.
Sjálfur sagðist hann í Birtingsviðtali 1957 ævinlega fá vonda samvisku þegar máttarstólpar þjóðfélagsins verðlaunuðu skáldskap hans ‹ þá stökkvi hann út undan sér! Eftir verðlaunin sem hann fékk árið 1930 fyrir Alþingishátíðarkvæði varð hann sósíalisti. Eftir að hann deildi fyrstu verðlaunum með Huldu fyrir lýðveldishátíðarljóð 1944 fór hann að yrkja óhefðbundið.
Enginn hefur útskýrt það betur en Jóhannes sjálfur í ljóðinu ,,Rímþjóð” hvers vegna bragbreytingin varð einmitt á þessum tíma, eftir síðari heimsstyrjöld en ekki fyrr eins og í grannlöndum okkar. Við þurftum fyrst að verða fullvalda fólk í öllum skilningi:

Í sléttubönd vatnsfelld og stöguð
hún þrautpíndan metnað sinn lagði
í stuðla hún klauf sína þrá
við höfuðstaf gekk hún til sauða.

Því rýrari verður í aski
því dýrari háttur á tungu:
við neistann frá eddunnar glóð

hún smíðaði lykil úr hlekknum.

Loks opnaðist veröldin mikla
og huldan steig frjáls út úr dalnum
þá sökk hennar rím eins og steinn
með okinu niður í hafið.

Þessi gagnorða íslenska bókmenntasaga birtist fyrst 1947 og síðan í Sjödægru, ljóðabókinni þar sem Jóhannes kom fram sem nýtt skáld árið 1955, þótt kominn væri hátt á sextugsaldur.
Sjödægra er í sjö hlutum. Í þeim fyrsta eru hefðbundin ljóð, í öðrum hluta órímuð og óstuðluð ljóð með háttbundinni hrynjandi, eins og ,,Rímþjóð”, eftir það taka við ljóð í frjálsu formi. Alltaf notaði Jóhannes þó hefðbundin brageinkenni þegar honum hentaði í kveðskap sínum, en eftir bragbyltingu hans verður myndmálið markvissara og bygging ljóðanna hnitmiðaðri en fyrr.
Efnið er áfram blanda af ljóðrænum náttúruljóðum, þjóðernislegum ljóðum og pólitískum skáldskap, og sem fyrr yrkir hann um sársaukafulla samtímaviðburði, fjöldamorð á Gyðingum og frelsisbaráttu Keníubúa, en hér bætast við móderískari ljóð, þrungin tilvistarangist, eins og “Hellisbúi³ sem endar á þessu erindi:

Ég er skógarmaðurinn
á Sjödægru:
líf mitt blaktir
á einni mjórri fífustöng

Aldrei náði þó svartsýnin yfirhöndinni í ljóðum Jóhannesar, til þess hafði hann of mikla samúð með manninum og baráttu hans fyrir brauðinu.

Á árunum eftir að Sjödægra kom út fóru ung skáld, Ari Jósefsson, og Dagur Sigurðarson að ýfast við innhverfri svartsýni módernistanna og heimta hið skorinorða ljóð aftur til að andæfa köldu stríði sem gerði sig líklegt til að tortíma öllu mannkyni. Jóhannes kunni vel við þann brag og í Óljóðum (1962) skipar hann sér í þá sveit og yrkir kjaftfor og uppreisnargjörn ljóð sem helmingi yngra fólk hefði verið fullsæmt af:

kannski er hægt að ríma saman já og nei
kannski er hægt að skapa myndheild úr ringulreið
kannski er hægt að gæða djöfullegustu pyndingar
ljúfri hrynjandi
en hvern gleður hin sjálfumnæga verund ljóðsins
þegar sprengjan hefur breytt jörð og mannkyni í
einn logandi hvell

Þegar Jóhannes úr Kötlum lést, 1972, stóð hann enn í eldlínunni í róttækri uppsveiflu, dáður af ungum skáldum og ungu róttæku fólki í landinu. Þegar sú sem þetta ritar kenndi íslenskar bókmenntir við Háskóla Íslands á áttunda áratugnum vildu nemendur helst ekki lesa neitt annað skáld. Hann trúði því, eins og fram kemur í síðustu bók hans, Ný og nið (1971), að þetta unga fólk myndi standa sig betur í baráttunni fyrir betri heimi en hans kynslóð hafði gert. Hann óskaði þess sjálfur að hann hefði fremur barist með hnúum og hnefum en í ljóðum sínum, en þá hefðu þau ekki verið til taks áfram handa þeim sem vilja nota þau í þeirri baráttu sem var honum svo hugstæð.

Silja Aðalsteinsdóttir

Silja Aðalsteinsdóttir – rithöfundur, þýðandi og bókmenntafræðingur, er þekkt nafn í íslenskum bókmenntaheimi. Síðustu árin hefur Silja starfað sem ritstjóri hjá Forlaginu.

Jóhann Páll Valdimarsson

Jóhann Páll Valdimarsson er bókaútgefandi og liðtækur ljósmyndari.

Greinin birtist áður í Dagblaðinu Vísi þann 4. nóvember 1999 í tilefni 100 ára afmælis Jóhannesar úr Kötlum.

| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2024