Milli steins
og sleggju

1969 á RÚV: Samtalsþáttur Matthíasar Johannessens: Jóhannes úr Kötlum

Unnið upp úr þætti Ríkissjónvarpsins 1969

Víða er komið við í samtalinu. Rætt um skáldskap Jóhannesar, tíðarandann og framtíðina sem Jóhannes segist ekki bjartsýnn á. Þykir honum sem frumsmiðurinn standi við lúbarið grettistak og reiði til höggs og mennirnir sitji ósjálfbjarga í lausu lofti milli steins og sleggju:

Því miður er mér satt að segja heldur dimmt fyrir augum, hvort heldur sem ég lít til okkar eigin þjóðar ellegar umheimsins. Þegar þær fáu hræður sem búa í þessu landi verða orðnar, hvað eigum við að segja, einhvers konar hersetin stóriðjupeð, þá mega þær sannarlega gæta sín betur hér eftir en hingað til.

Jóhannes úr Kötlum er Dalamaður í húð og hár. Fæddur rétt fyrir síðustu aldamót og hefur komið mikið við sögu íslenskra bókmennta síðastliðna fjóra áratugi. M.a. hefur hann sent frá sér 15 frumsamdar ljóðabækur af ýmsu tagi. Hann hefur ekki alltaf verið jafn mildur í máli og í þeim ljóðum sem flutt verða hér í kvöld, því að lengi hefur verið litið á hann sem einhvern blóðrauðasta bolsann í bókmenntum þessa tímabils. Því hefur þótt við hæfi að yngri skáldbróðir hans, eins og Jóhannes hefur komizt að orði, og pólitískur andstæðingur eða öngþveitismaður, eins og Þórbergur mundi sagt hafa, heimsækti hann hér að heimili hans að Kleppsvegi 44 og yrti hann orðum.

Fyrsta spurningin sem ég vildi spyrja þig, Jóhannes, er þessi: Bar mikið á ljóðlistaráhuga í heimahögum þínum?

„Ég er alinn upp í afskekktu heiðarkoti þar sem bókakostur var nú af æði skornum skammti en hins vegar voru tvær mjög ljóðelskar konur á heimilinu, móðir mín og sambýliskona okkar, og það var fyrst og fremst af þeirra vörum sem ég drakk í mig þessa óviðráðanlegu skáldskaparástríðu sem hefur loðað við mig síðan.”

„Ég minnist hins skemmtileg kvæðis þíns, Karl faðir minn, raunsönn lýsing á æskuumhverfi þínu, kjörum fólksins þar og því sem þú sást í æsku. Hver urðu viðbrögð föður þíns við ljóðum þínum?”

„Það kvæði er nú að mestu leyti reist á staðreyndum enda þótt það um leið feli í sér almenn sannindi um lífskjör kotbóndans á þeirri tíð. En í rauninni er það öðrum þræði harkaleg uppreisn gegn þeirri sveitarómantík sem hafði einkennt tvær fyrstu bækur mínar. Í rauninni er þetta eitt raunsæjasta kvæði sem ég hef ort og vitanlega vakti bersögli þess töluverðan úlfaþyt. M.a. var haft á orði að þarna væri um föðurníð að ræða en þó að faðir minn blessaður væri nú ekki mikið upp á bókaramennt þá var það samt svo að hann tók kvæðinu af þessum eðlislæga skilningi sem óbrotnu alþýðufólki er oft svo eiginlegur.”

Í fyrstu bókum þínum ber mikið á trúhneigð, Jóhannes, var það heimafenginn arfur?

„Vissulega var móðir mín mikil trúkona en auk þess hélt ég áfram að samlagast vissum kristilegum þenkimáta í kynnum mínum af ungmennafélagshreyfingunni og svo síðar við veru mína í Kennaraskólanum undir handarjaðri sr. Magnúsar Helgasonar. Annars hefur mér alltaf fundizt vera mjótt á milli trúhneigðar og skáldhneigðar enda þótt trú eins geti komið fram í mismunandi myndum.”

Já, víst hefur það sannazt á þér því seinna gerðist þú trúarskáld með annan boðskap. Hverjum tókst að spilla þér þannig, þessum saklausa sveitapilti?

„Ja, það raunverulega spillingarafl var náttúrulega sjálft auðvaldsskipulagið, heimskreppa þess og fasismi. En sá einstaklingur sem í þann tíð af allra mestum fídónskrafti prédikaði fyrir mér kommúnisma var enginn annar en sjálft átrúnaðargoð þitt, Steinn Steinar. Hann hafði verið nemandi minn fyrir vestan og orðið mér mjög kær og handgenginn. Svo þegar ég fluttist hingað til bæjarins var hann kominn þangað á undan mér og þá þegar orðinn eldheitur byltingarsinni. Og nú var það hann sem fór að kenna mér.”

Já, nú minnist ég afmælisgreinar Jóhannes, sem Steinn Steinar skrifaði um þig fimmtugan. Hann sagðist hafa pínt inná þig kommúnisma og orðrétt segir hann að hann hafi verið þessum fyrsta og einasta læriföður sínum baldinn nokkuð. Er frásögn hans af viðskiptum ykkar sannleikanum samkvæmt?

„Ja, sú grein er náttúrulega skrifuð af þeim skemmtilega tvískinnungi alvöru og skáldaleyfis sem var Steini alla jafnan svo tiltækur. En sannleikurinn er nú sá að þó að á milli okkar Steins lægi alla tíð römm taug, þá vorum við í raun og veru mjög ólíkir að eðlisfari. Það var aftur á móti margt líkara með Steini og Stefáni heitnum frá Hvítadal, sem var okkur samtíða þarna í suðurbænum. Og ég hygg að þaðan hafi hann einmitt haft fordæmið að þessari hárbeittu og sefjandi samtalslist sem hann iðkaði jafnan síðan allt fram í andlátið.”

Já, ég kynntist henni og svo hélduð þið áfram að berja rauðu bumburnar?

„Jú, jú víst var svo um skeið. Að vísu fór nú Steinn bráðlega að hneigjast svona til heimspekilegrar efahyggju og almennrar heimsádeilu. Trú hans á byltinguna endaði nú með því, eins og þú kannski manst, að hann jós bölmóði sínum yfir Kreml og allt það hafurtask en ég hélt áfram að þruma minn heittrúaða boðskap í anda verkalýðsbaráttu og fólksins.”

Og hefur þér aldrei fundizt þú hafa hlaupið á þig þegar þú á þessu tímabili ortir svo frumleg ljóð í andanum sem “Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú” og lofkvæðið um Stalín.

„Ja, vegna nafnsins á fyrra kvæðinu sem þú nefndir hafa nú kannski sumir haldið – og þá sérstaklega þeir sem aldrei lásu kvæðið – að ég væri þar að biðja blessaða Rússana að koma og taka okkur, en ég held nú endilega að mér sé óhætt að fullyrða það að rússnesk herseta hefði orðið engu sársaukaminni fleinn í mínu holdi en sú ameríska. Hins vegar var það sannfæring mín að sameignarskipulag væri framtíðarlausnin og mér fannst hreint engin goðgá að spurja eins og gert er í kvæðinu, hvenær kemur þú lífsviljans land með ljóma strætanna, hljómfall vélanna, blóm og söng, hvenær kemurðu með kraft lífsins, eld áhugans, innileik bróðurþelsins. Hvenær! Hvenær!
Og svo er það þá lofsöngurinn um Stalín. Í því kvæði er náttúrulega fyrst og fremst um að ræða einskonar persónugerving minnar eigin óskhyggju í ljósi þeirrar goðsagnar sem hafði myndazt í kringum þennan son skógarans. Svona fannst mér þá endilega að hinn mikli sigurvegari í stríðinu gegn nazismanum ætti að vera. Og síðari uppljóstranir í sambandi við framferði þessa stálmanns þarna frá Grúsíu segja svo sem hvorki til né frá um listgildi þessarar myndar, út af fyrir sig. Þetta veit ég að þú, sálmaskáld á atómöld, skilur allra manna bezt. Annars finnst mér nú að þið morgunblaðsmenn mættuð vera mér öllum öðrum þakklátari fyrir þessi tvö kvæði svo oft og lengi sem þið hafið notazt við þau eins og nokkurs konar kórónu á kommúnistagrýluna.”

Ja, við höfum nú ekki búið til þá grýlu, Jóhannes, og þarf ég ekki annað en að vitna í orð Krúsjefs sjálfs til þess að minna þig á að hann staðfesti alla morgunblaðslygina. En gaman þykir mér að minna þig einnig á það að þú hefur nú sjálfur ort ljóð um þessa grýlu og lýst henni betur en allir aðrir: Grýla hét tröllkerling, leið og ljót, með ferlega hönd og haltan fót. En hvernig stendur svo á þeirri hógværð og hlédrægni sem einkenna flest kvæðin þín í Eilífðar smáblómum.

„Áður en ég svara því þá langar mig til þess að lýsa því yfir hvað vænt mér þykir um það að þú skulir ennþá kunna grýlukvæði mitt sem ég veit að þú hefur lært þegar þú varst svo lítið og gott barn að grýla gamla lagðist í bólið og dó. En svo ég víki nú aftur að spurningu þinni um Eilífðar smáblóm, þá er það nú svo að samhliða baráttukvæðunum í öllum mínum bókum hafði verið að finna ljóð um landið og náttúru þess og fólk. En orsökin til þess að þarna kom heil bók um einföldustu lífsgildi okkar þúsund ára sveitamennsku var m.a. sú að ég hafði um þær mundir, á upphafsárum seinni heimsstyrjaldarinnar, dvalizt tvö sumur uppá öræfum og þá komizt eins og í nánari snertingu við sjálfan mig og uppruna minn en oftast endranær.”

Á menntaskólaárum mínum tóku að birtast ljóð eftir Anonimus sem vöktu athygli. Þegar það kom í ljós að þú værir höfundur þeirra veltu menn því fyrir sér og ekki sízt við sem þá vorum ung að þessi mikli rímari fór að yrkja svo lausbeislað form. Tókstu þetta dulnefni til að móðga ekki neinn af þínum gömlu aðdáendum?

„Í sem fæstum orðum get ég sagt að ég þóttist finna að mitt hefðbundna form væri að hafna í stöðnun og að ljóðagerð mín þarfnaðist aukins svigrúms og endurnýjunar. Dulnefnið tók ég ekki upp af varúðarástæðum heldur til þess að leita meira hlutleysis, hlutlausra viðbragða við þessum tilraunum mínum á meðan ég væri að átta mig á árangri þeirra og gildi.”

Og 1962 komu svo Óljóð þar sem þú hættir þér enn lengra í upplausn formsins og raunar innihaldsins líka og sumir höfðu á orði að nú lægju loksins á borðinu sannanir fyrir því að þú værir orðinn geggjaður.

„Já, vissulega gat virzt svo að gömlum kennara og háttalykilsmanni væri ekki aldæla að koma þarna með heila bók þar sem hvorki fyrirfannst upphafsstafur né lestrarmerki, að maður tali ekki um sjálft orðbragðið þar sem t.d. þessar ljóðlínur eru: {dbcomma}Hvað segir mogginn hvað segir pravda / mogginn það þýðir morgunblaðið / eigum vér þá að segja upp morgunblaðinu / pravda það þýðir sannleikurinn / eigum vér þá að hætta að leita sannleikans.”
En hvað sem skáldskapargildi þessarar bókar annars líður, þá er það eitt víst að í henni er að finna einhver óvægilegustu reikningsskil mín við samtíðina og vel að merkja ekki sízt við einmitt kommúnismann. Það hélt maður nú satt að segja að ráðsettir góðborgarar mundu síðast af öllu flokka undir geggjun.”

Nei, en svo við höldum áfram Jóhannes, vil ég minna þig á að tveimur árum seinna birtist svo bókin Tregaslagur, sem lesið verður úr hér á eftir, þar sem þú velur þér aftur hógværari eða hóglátari tjáningu og ferð að föndra við ný afbrigði af rími. Hvað olli því afturhvarfi?

„Það er nú kannski rétt að benda á það að á milli þeirra bóka sem hér eru kynntar í kvöld liggur hvorki meira né minna en aldarfjórðungsskeið. En eins og bækurnar Hart er í heimi og Eilífðar smáblóm urðu til svo að segja samtímis, svo ólíkar sem þær annars að ýmsu leyti eru, þá er þetta eins um Óljóð og Tregaslag. Í báðum tilfellunum eru þær síðarnefndu einskonar persónubundin frávik frá þessu sífellda samfélagslega umróti sem hafði sótt svo fast á mig. Sem sagt baráttuhlé. Hitt er svo aftur rétt að nýju rímafbrigðin í síðasta hluta Tregaslags, þetta sem ég kalla “Stef úr glataðri bók”, er að nokkru leyti afturhvarf en þó um leið tilraunir til sem allra mestrar einföldunar á strangri ljóðrænni háttbindingu.”

Og hvað viltu svo helzt segja um íslenzka nútímaljóðlist og þá sérstaklega yngstu skáldin. Ég á ekki við að þú gefir hverjum einstökum einkunn, það er nóg af því, heldur þróunina?

„Slíkri spurningu er nú ekki hægt að gera viðhlítandi skil í stuttu máli en það eitt er víst að hlutur ljóðsins hefur gerbreytzt við þá miklu þjóðlífsbyltingu sem hér hefur átt sér stað að undanförnu. Ljóðið er ekki lengur það meginafl sem það var í þjóðernisbaráttu og alþýðumenningu þeirrar snauðu en skáldlegu bændaþjóðar sem hér sótti fram fyrir og eftir aldamótin, heldur virðist nútímaljóðið, eins og raunar aðrar listgreinir og menningarlíf okkar yfirhöfuð, stefna til sífellt innhverfari sérhæfingar. Gamli opinskái hugsjónaboðskapurinn virðist ekki lengur gjaldgengur, heldur leitar þróunin æ meir yfir í einhvers konar margræðar sálarflækjur og myndgátur, náttúrulega í samræmi við upplausn og ringulreið samfélagsandans. Það er þess vegna ekkert undarlegt þó að einföld og alþýðleg lífstjáning, sem hér er verið að kynna, láti í eyrum róttækra framúrstefnumanna eins og hvert annað innantómt hjal sem á ekkert erindi til nútímans.”

Og að lokum, Jóhannes. Nú höfum við báðir lifað vargöld. Hvernig segir þér hugur um framtíðina? Telurðu að nokkur von sé til þess að þessum illdeilum og hjaðningavígum milli einstaklinga og þjóða linni?

„Því miður er mér satt að segja heldur dimmt fyrir augum, hvort heldur sem ég lít til okkar eigin þjóðar ellegar umheimsins. Þegar þær fáu hræður sem búa í þessu landi verða orðnar, hvað eigum við að segja, einhvers konar hersetin stóriðjupeð, þá mega þær sannarlega gæta sín betur hér eftir en hingað til, ef þær ætla ekki að glata sjálfsvirðingu sinni og frumburðarrétti. Sprengiöflin í heimsmálunum yfirleitt virðast mér slík að þar megi hvenær sem vera skal búast við hverju sem verða skal nema því að einu að maður reyni að fela sig á bak við einhverja óraunhæfa bjartsýni sem gæti þá og þegar snúizt upp í örlagaríkt andvaraleysi. Það er satt að segja ekkert björgulegt að öll þessi undursamlegu tæknivísindi nútímans skuli fyrst og fremst miða við síaukið vígbúnaðarkapphlaup og síaukið geimskotakapphlaup á sama tíma sem sá mikli meirihluti mannkynsins sem berst við hungurvofuna stækkar með hverjum deginum sem líður. Kannski lýsi ég núverandi hugarástandi mínu ekki betur en með óprentuðu smáljóði sem þannig hljóðar:

Frumsmiðurinn stendur
við lúbarið grettistak,
reiðir til höggs

í lausu lofti titrum við ósjálfbjarga
milli steins og sleggju.

Matthías Johannessen

Matthías Johannessen (f. 3. janúar 1930) er ljóðskáld og rithöfundur. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu meðfram háskólanámi og síðar ritstjóri þess á árunum 1959–2000. Fyrsta ljóðabók Matthíasar Borgin hló kom út árið 1958 og vakti töluverða athygli. Síðan hefur hann gefið út tugi ljóðabóka, auk fræðibóka, skáldsagna, smásagnasafna, leikrita og viðtalsbóka.

Kristinn Ingvarsson

Kristinn Ingvarsson hefur starfað sem ljósmyndari hjá Morgunblaðinu allt frá árinu 1992. Hann er hvað þekktastur fyrir portrettmyndir sínar og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir ljósmyndir sínar gegnum árin en hróður hans nær einnig út fyrir landsteinana; National Portrait Gallery í London á sem dæmi þrjár myndir eftir Kristin.

Viðtalið birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins þann 30. október 1999 en Ríkissjónvarpið sýndi fyrst sjónvarpsupptökuna árið 1969.

| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2024