Um skáldið
Jóhannes

Ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldar á Íslandi yrði það nærri því óhjákvæmilega Jóhannes úr Kötlum. Hann lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum og um engan samtímamann hans í skáldahópi verður sagt með jafnmiklum sanni að hann hafi fundið til í stormum sinnar tíðar. Enginn fylgir heldur eins nákvæmlega þróun ljóðlistarinnar á öldinni. Hann hóf feril sinn sem nýrómantískt skáld á þriðja áratugnum, innblásinn af löngun til að efla hag landsins og ást þegnanna á því. Hann var líka einlægur trúmaður og þó að hann yrði síðar gagnrýninn á guð almáttugan hélt hann alla tíð vinskap sínum við Jesú Krist, eins og launkímni ljóðaflokkurinn Mannssonurinn (1966) er dæmi um. Á kreppuárum fjórða áratugarins var hann í broddi fylkingar róttækra skálda, knúinn áfram af löngun til að efla sjálfstraust alþýðunnar og örva hana til að berjast fyrir bættum kjörum.

Í umróti og tilvistarkreppu stríðsára og eftirstríðsára fór hann að þýða erlend skáld sem ortu myrk ljóð undir frjálsum háttum og gera eigin tilraunir með slíkt, endurnýjaði kveðskap sinn af frumleika og listfengi. Á sjötta áratugnum varð hann öflugur vörslumaður þjóðlegra gilda í baráttu gegn hersetu Bandaríkjamanna á Íslandi. Loks náði hann í nýja alþjóðlega róttæka bylgju á sjöunda áratugnum, og þegar hann lést, á áttræðisaldri, fannst róttæku ungu fólki sem mótmælti stríðsrekstri heimsvaldasinna í Víetnam og víðar í þriðja heiminum hann yngstur og bestur allra skálda.

Jóhannes fæddist 1899 á bænum Goddastöðum í Dölum, en fluttist þaðan með fjölskyldu sinni um hálfs árs gamall að Ljárskógaseli í sömu sveit, þar sem hann ólst upp í ,,afskekktu heiðarkoti þar sem bókakostur var nú af æði skornum skammti,“ eins og hann segir í samtali við Matthías Johannessen skáld og ritstjóra í Sjónvarpinu árið 1969. Foreldrar hans börðust í bökkum en sonurinn komst samt til mennta. Hann tók kennarapróf 1921 og stundaði kennslu fram á fjórða áratuginn. Eftir það vann hann fyrir sér með ritstjórn og ritstörfum. Hann gaf út 20 frumsamdar ljóðabækur fyrir börn og fullorðna, eina bók með þýddum ljóðum, fimm skáldsögur og eitt smásagnasafn auk fjölda greina. Hann lést 1972.

Í samtalinu við Matthías heldur Jóhannes áfram með svarið við spurningunni um skáldskaparáhrif í æsku með þessum orðum: „… hins vegar voru tvær mjög ljóðelskar konur á heimilinu, móðir mín og sambýliskona okkar, og það var fyrst og fremst af þeirra vörum sem ég drakk í mig þessa óviðráðanlegu skáldskaparástríðu sem hefur loðað við mig síðan.” Fyrsta ljóðabók Jóhannesar, Bí bí og blaka (1926), var líka óður til uppruna hans og þessara fyrstu skáldskaparáhrifa. Til dæmis segir hann í ljóðinu „Heima“ (með bragarhætti og orðavali sem minnir sterkt á annan Dalamann, Stefán frá Hvítadal):

Sól á himni og í hjarta.
Dýrðleg hásumarblíða.
Ég finn svæfandi sælu
inn í sál mína líða.
Hversu margs er að minnast,
— engu má ég nú gleyma.
Hér er fullkomin fegurð.
Og nú fer mig að dreyma.

Svo fer hann í huganum um æskustöðvarnar, þar sem hann þekkir hverja þúfu, lítur í kringum sig og minnist indælla bernskustunda í hjásetunni og aðdáunar sinnar á undrum náttúrunnar. Þetta er honum heilagur staður.
Jóhannes hélt áfram með gömlu barnagæluna í titlum næstu fullorðinsbóka sinna, og önnur hét Álftirnar kvaka (1929). Aðal fyrstu ljóðabóka Jóhannesar er hagmælska hans. Kvæðin renna fram undir fjölbreyttum háttum (hann orti meira að segja „Háttalykil“ eins og Snorri Sturluson), náttúrulýsingar, söguleg kvæði, ljóð um þekktar persónur í fortíð og samtíma, ástarljóð. Kvæðin eru mettuð af fegurðarþrá og samúð með lítilmagnanum, en lesandi verður ekki verulega var við manninn á bak við kvæðin; þarna er ekki seilst í eigin reynsluheim á frumlegan hátt eða birtur brýnn boðskapur, en þetta átti eftir að breytast.

Þriðja ljóðabók Jóhannesar, Jólin koma (1932), hefur orðið hans vinsælasta bók og er sú sem heldur nafni hans lifandi kynslóð eftir kynslóð. Þar vinnur hann úr þjóðsögum um Grýlu og hennar hyski, jólasveinana hrekkjóttu og jólaköttinn illvíga, sem höfðu lifað í ýmsum myndum með þjóðinni öldum saman en voru að hverfa í birtunni frá rafmagnsljósunum. Nú er það sú mynd sem Jóhannes gaf þessum vættum sem lifir og tekst á við erlendar jólavættir eins og hinn rauðklædda, hvítskeggjaða og gjafmilda Santa Kláus. Engin síðari barnaljóðabóka Jóhannesar hefur notið annarra eins vinsælda og Jólin koma, en þær hafa allar hrifið lesendur og verið gefnar út oftar en einu sinni, Ömmusögur (1933), Bakkabræður (1941), Ljóðið um Labbakút (1946) og Vísur Ingu Dóru (1959). Hann varð líka öðrum skáldum hvatning til að yrkja handa börnum, til dæmis rithöfundunum og kennurunum Stefáni Jónssyni og Margréti Jónsdóttur.


Þegar Jóhannes gaf út Ég læt sem ég sofi, sama ár og Jólin koma, var heimskreppa skollin á eins og lesandi verður var við strax í titilljóðinu. Í stað mildi og ástar ýlfra nú afturgöngur í hverri gætt og bryndrekar bruna um sjóinn, og í stað klökkrar meðaumkunar með þeim sem eiga bágt er komin tvíræðni. Öll er bókin fremur myrk og íronísk, lítið um ljóðrænar hvíldir á milli, og alla tíð síðan átti gamansemi og jafnvel kaldhæðni betur við Jóhannes en tilfinningasemi, þótt engum dyljist ólgandi tilfinningarnar undir niðri.
„Karl faðir minn“ er þekktasta kvæði bókarinnar, löng lýsing á gömlum bónda sem vel gæti verið Jónas Jóhannesson faðir skáldsins, að minnsta kosti hefur Jóhannes gefið það í skyn: ,,Það kvæði er nú að mestu leyti reist á staðreyndum enda þótt það um leið feli í sér almenn sannindi um lífskjör kotbóndans á þeirri tíð. En í rauninni er það öðrum þræði harkaleg uppreisn gegn þeirri sveitarómantík sem hafði einkennt tvær fyrstu bækur mínar. Í rauninni er þetta eitt raunsæjasta kvæði sem ég hef ort og vitanlega vakti bersögli þess töluverðan úlfaþyt. Meðal annars var haft á orði að þarna væri um föðurníð að ræða, en þó að faðir minn blessaður væri nú ekki mikið upp á bókaramennt þá var það samt svo að hann tók kvæðinu af þessum eðlislæga skilningi sem óbrotnu alþýðufólki er oft svo eiginlegur.”
Þó að Ég læt sem ég sofi sé harkalegri bók en þær sem á undan fóru má aldrei gleyma því að bjartsýni og ást á mönnum og náttúru var Jóhannesi eðlislæg og alltaf barðist hann fyrir bættum kjörum og hamingju alþýðu manna. Og hann stenst ekki reiðari en þegar hann horfir upp á börn þjást, eins og sjá má í „Syni götunnar“ og kvæðinu um Jón Sigurðsson sem var fæddur sautjánda september og átti, ólíkt sínum fræga nafna, enga þjóð, bara hund. Börnin eru framtíðin, eins og hann orðar svo skýrt í kvæðinu „Ég hylli“:

Ég hylli hiklausa sporið.
Ég hylli æskuna og vorið,
— því þar er öll von minnar þjökuðu jarðar
og þar er öll framtíð míns lands,
ástin, trúin, eldurinn, krafturinn
og — andi sannleikans.

Hann finnur líka sárt til með yfirgefnum konum og öðrum sem framtíðin hefur svikið eins og kvæðið „Yfirgefin“ og fleiri sýna.
Í Ég læt sem ég sofi er langt „Opið bréf“ til guðs almáttugs þar sem skáldið krefur hann svara um hvaðeina sem miður fer í eðli mannsins og umhverfi. Má nærri geta að þetta kvæði hefur þótt óverjandi guðlast af öllum þorra manna. En þessi guð sem á sök á svo mörgu sem miður fer hefur líka gefið skáldinu tilfinningarnar, skynsemina – og skáldskapargáfuna; ekki er að undra þótt kvæðið hafi opinn og margræðan endi.


Með róttækni og sívaxandi skilningi á kjörum mannanna og orsökum þeirra komu efi og vanmáttur inn í ljóð Jóhannesar. Í titilljóði næstu bókar, Samt mun ég vaka (1935), þráir hann svo innilega að „rétta fram þjálfaðan arm til átaks / í alheimsbaráttu öreigalýðsins / fyrir réttlæti, sannleika, – sósíalisma“, en finnur sárt til þess hvað byltingarvopn hans er „skeikult og bitlaust“:

Ég vildi svo guðsfeginn verða að liði,
en fortíðin kemur með krossinn í hendi
og brýtur á svipstundu odd minn og eggjar.

„Ég hef ekkert að gefa þér, öreigi, bróðir,“ segir hann svo, „ – ekkert nema ljóð mitt, ekkert nema blóð mitt.“ Sjálfur er hann öreigi eins og „bróðir“ hans, ekki kominn af vöskum víkingum heldur herteknum þrælum, eins og hann segir í „Vér öreigar“, fyrsta kvæðinu sem hann birti undir frjálsum hætti, rímlaust og með óreglulegri stuðlasetningu. Mörgum þótti einkennilegur sá siður Jóhannesar að nota hátíðlega fleirtölu persónufornafna, vér og þér í stað við og þið, ekki síst þegar hann ávarpar eða yrkir um alþýðufólk. Steinn Steinarr deilir óbeint á Jóhannes fyrir þetta í fyrsta ljóði sinnar fyrstu bókar, „Öreiga-æsku“, þar sem hann þérar viðmælendur sína í fyrsta erindinu en þúar þá með áherslu í öðru erindi: „Ég heilsa þér, öreiga-æska …“. En oft má skynja að Jóhannes er að afhelga hátíðleikann, gera markvisst gys að virðulegu orðfærinu, til dæmis þegar hann segir í „Vér öreigar“: „því kaldari og dimmari / urðu kjallaraholurnar, / þar sem vér börðumst við rotturnar / og rakann.“ Það er afar vel til fundið að þéra fólk sem berst við rottur.

Eitt yndislegasta kvæðið í Samt mun ég vaka er „Ung stúlka“, þar sem skáldið lýsir fundi sínum og ungrar verkakonu með drengjakoll og sólbrúna vanga, sem stöðvar hjólið sitt hjá honum til að fá eld í sígarettuna sína. Tveimur árum áður kom út vinsælasta bók Tómasar Guðmundssonar, smellurinn Fagra veröld, þar sem ort er fagurlega um Austurstrætisdætur. Eflaust hefur Jóhannes haft þær í huga þegar hann orti „Unga stúlku“ og skemmt sér við að klæða sína dömu í blá vinnuföt í staðinn fyrir hvíta kjóla stúlknanna í kvæðum Tómasar. Hún angar líka af saltfiski og svita, sem líklega er ólíkt Ástum og Tótum Tómasar, og ekki er heldur líklegt að þær reyki!

Um þessar mundir var orðið óhugnanlegt um að litast í Evrópu; á Spáni var háskaleg spenna sem sprakk út í blóðugri borgarastyrjöld árið eftir, og í Þýskalandi var Adolf Hitler kominn til valda. Allir hugsandi menn fundu og sáu að framundan var ekki sá friður sem þeir höfðu vonast eftir að lokinni heimsstyrjöldinni 1914-18, mannskæðustu styrjöld sem mannkynið hafði háð. Þennan ótta má greinilega sjá í bókinni, til dæmis í kvæðinu „Frelsi“ sem var flaggskip fyrsta heftis ársritsins Rauðir pennar sama árið og Samt mun ég vaka kom út. „Frelsi“ kallast á við ljóð Jónasar Hallgrímssonar „Ísland“ í fyrsta hefti tímaritsins Fjölnis nákvæmlega hundrað árum áður (1835), en Jóhannes lítur fortíðina öðrum augum en Jónas. Hann tekur sér ekki stað meðal frjálsræðishetjanna góðu heldur fátæklinga landsins „sem bruddu hvannir, sulgu djúpan harm“, kramdir undir böli kóngs og klerka. Samt mun ég vaka varð róttækasta bók Jóhannesar þótt aldrei léti hann af gagnrýni sinni á kúgun auðvalds, kirkju og annarra yfirvalda.


Eysteinn Þorvaldsson segir í erindi sem hann hélt á aldarafmæli Jóhannesar, að ljóðum hans megi með nokkurri einföldun skipta í tvo flokka. „Annarsvegar eru það þjóðfélagsleg baráttukvæði og ádeiluljóð, sem framanaf voru stundum stóryrt og beinskeytt. Og hinsvegar ljóðræn náttúru- og tilfinningaljóð, en þann streng sló hann alla tíð en þó einkum í fyrstu og síðustu bókum sínum þótt með ólíkum hætti væri.“ Reyndar raða andstæðurnar sér í langa röð þegar Jóhannes er annars vegar, sorg og hamingja, myrkur og birta, stríð og friður, einlægni og tvíræðni, alvara og gaman. Hann er skáld margra radda. Þær voru yfirgnæfandi ádeilukenndar bækurnar Hrímhvíta móðir (1937), þar sem ort er um „söguhetjur Íslands“, og Hart er í heimi (1939), en á móti þeim koma hin undurblíðu Eilífðar smáblóm (1940) þar sem jafnvel ádeilukvæðin láta lítið yfir sér. Kannski eru þau ekki síst áhrifamikil fyrir það, sjá til dæmis „Hjá dvergasmiðnum“ hér í úrvalinu. Ljóðið „Bæn“ sem bókin hefst á, endar á þessum bljúgu hendingum:

Náttúra, vagga alls og einnig gröf:
yngdu mig, vertu sálar minnar hlíf,
gefðu mér aftur gleði mína og söng,
gefðu mér aftur trúna á þetta líf!

Róttækni Jóhannesar og barátta fyrir sósíalisma þróaðist yfir í baráttu fyrir frjálsu og óháðu Íslandi á stríðsárunum, eins og hjá fleiri skáldum. Hann hafði aldrei látið af þeirri þjóðernishyggju sem hann ólst upp við, og erlend herseta í landinu var honum sár þyrnir í auga. Mesta afrek hans í baráttunni fyrir herlausu Íslandi er hið mikla söguljóð Sóleyjarkvæði (1952) en fyrstu aðför að því efni má sjá í kvæðinu „Brúðurin blárra fjalla“ í Sól tér sortna (1945).

Sóleyjarkvæði er perlan í ljóðagerð Jóhannesar. Þar leiðir hann saman gamlan arf þjóðsagna og þjóðkvæða annars vegar og hins vegar grimman pólitískan veruleika samtímans: gerir sagnaarfinn að lifandi samtíma og dýpkar samtímann með því að spegla hann í sagnaarfinum. Hvergi er Jóhannes öruggari í formi og byggingu; enginn kafli í ljóðaflokknum er teygður eða stífður, og vísanir í stökur, þulur og þjóðkvæði eru hnitmiðaðar. Í stíl þjóðkvæða notar hann stuðla og rím frjálslega sem gefur flokknum einstaklega áreynslulaust yfirbragð.

Ljóðaflokkurinn segir þjóðarsögu samtímans eins og hún blasti við Jóhannesi en á táknrænan hátt. Sóley sólufegri (Ísland í líki ungrar konu) verður fyrir þeirri sorg að elskhugi hennar, frelsissöngvarinn, sofnar og verður ekki vakinn hvernig sem hún reynir. Lesandinn veit það sem Sóley veit ekki, nefnilega hvað veldur svefninum, því hann fylgist með því þegar finngálknið úr vestri (Bandaríkjastjórn) mútar gömlum leikbræðrum elskhugans (herstöðvasinnuðum Íslendingum) til að stinga hann svefnþorni. Sú eina sem getur vakið elskhugann er Þjóðunn Þjóðansdóttir (íslensk alþýða) en hún hefur engan áhuga á frelsissöng lengur, sæl með nýfenginn auð sinn. Sóley fer bónarveg að hverjum fulltrúa íslenskrar alþýðu af öðrum, án árangurs. Hinn bjartsýni Jóhannes þorir ekki lengur að trúa á sitt fólk. Kvæðið endar í spurn:

Hermdu mér Þjóðunn Þjóðansdóttir,
vísust af völum:
ætlarðu að lifa alla tíð
ambátt í feigðarsölum
á blóðkrónum einum
og betlidölum?Er ekki nær að ganga
í ósýnilegan rann,
bera fagnandi þann
sem brúðurin heitast ann
út í vorið á veginum
og vekja hann?

Kaflarnir 25 í flokknum eru ortir undir sex línu bragarhætti en með óreglulegri línulengd. Bragurinn er alltaf lipur hvort sem efnið er ljóðrænt og einlægt eða meinlegt, hæðnislegt og harkalegt. Mildin og harkan skiptast á og fer myndmál og málfar eftir efninu. Í köflunum um ástarraunir Sóleyjar erum við í ævintýraheimi þar sem riddari ríður hvítum jó og lætur slá rauðan hring úr gulli handa sinni frú, þar sem gullinaldini, silfrinaldini og laukar spretta og kónguló vefur ósýnilega voð úr ást til að breiða yfir riddarann sofandi. Í pólitískum köflum er myndmálið tröllslegt og klúrt, þar gýtur finngálkn glórum sínum, hrörlegt skar hrýtur af bleikum urðarmána og krumminn á skjánum ruggar smaladrengnum í ró með fölskum loforðum. Pétur Pálsson tónskáld gerði lög við nokkra hluta kvæðabálksins sem var sunginn og lesinn inn á vinsæla hljómplötu.

Skoðanir á Sóleyjarkvæði skiptust eftir pólitískum línum á árum kalda stríðsins þegar þjóðin var klofin í fylkingar eftir afstöðu til veru Bandaríkjahers í landinu. Gagnrýnandi tímaritsins Helgafells, sem kallaði sig Crassus, var til dæmis afar óánægður með þjóðkvæðastílinn á kvæðinu, fannst hann of ljóðrænn og fallegur fyrir þetta efni: „Það er tilgangslaust að reyna að moka flór með silfurskeið. Það skemmir bara skeiðina og flórinn er jafn óræstaður eftir sem áður.“ Nú eru deiluefni þess tíma löngu útkljáð og lesendur geta notið ljóðaflokksins á hans eigin forsendum.

Í Sóleyjarkvæði fór Jóhannes frjálslega með hefðbundinn brag í anda danskvæða og annarra þjóðkvæða. En þegar flokkurinn kom út höfðu allt frá 1945 birst ljóð í tímaritum, ýmist frumsamin eða þýdd en öll undir frjálsu formi, kennd við Anonymus (latína: sá sem hefur ekkert nafn). 1948 kom út eftir þennan huldumann heil bók þýðinga undir heitinu Annarlegar tungur. Sjö árum seinna kom í ljós að bak við dulnefnið leyndist enginn annar en Jóhannes úr Kötlum, sjálft þjóðskáldið sem hafði deilt fyrstu verðlaunum með Huldu fyrir lýðveldishátíðarljóð sitt, Íslendingaljóð 17. júní 1944. Hann endurbirti í ljóðabókinni Sjödægru (1955) frumsamin kvæði Anonymusar og hafði ort mörg í viðbót þar sem hann beitti frjálsum háttum og nýstárlegu myndmáli í takt við ungu skáldin sem komið höfðu fram næstu ár á undan og fengu stimpilinn „atómskáld“. Við endurnýjun ljóðmáls síns nýttist honum vel vinnan við þýðingarnar í Annarlegum tungum.

Þessi „forkur að ríma“, eins og Jóhannes hafði sagt um sjálfan sig, sýndi í Sjödægru að enn átti hann furðuauðvelt með að laga sig að nýjum hugmyndum og aðferðum. ,,Í sem fæstum orðum get ég sagt að ég þóttist finna að mitt hefðbundna form væri að hafna í stöðnun og að ljóðagerð mín þarfnaðist aukins svigrúms og endurnýjunar,“ segir Jóhannes í áðurnefndu samtali við Matthías Johannessen. „Dulnefnið tók ég ekki upp af varúðarástæðum heldur til þess að leita meira hlutleysis, hlutlausra viðbragða við þessum tilraunum mínum á meðan ég væri að átta mig á árangri þeirra og gildi.” Sjödægra hefur löngum þótt ein vandaðasta og athyglisverðasta – ef ekki einfaldlega allra besta – ljóðabók Jóhannesar og sú sem oftast er um hönd höfð fyrir utan barnakvæði hans og Sóleyjarkvæði.


Þróun í ljóðmáli og bragarháttum breytir þó ekki því að Jóhannes hélt áfram að vera rammpólitískt, friðarsinnað og þjóðernissinnað skáld. Það er myrk heimsslitastemning í mörgum kvæðum Sjödægru og angist og kvíði fyrir framtíð Íslands. Reyndar voru atómskáldin ekki síður þjóðernissinnuð en Jóhannes, einnig þar átti hann samleið með ungu skáldakynslóðinni. Það er merkileg þversögn fólgin í því að einmitt þessi pólitísku skáld skyldu bylta aldagömlu ljóðformi og sýnir hve brýn endurnýjunin var orðin. Hvergi er þróun ljóðformsins sýnd og skýrð eins hnitmiðað og í kvæðinu „Rímþjóð“ í Sjödægru, íslenskri ljóðbókmenntasögu í hnotskurn.
Jóhannes úr Kötlum naut óvenjulegra vinsælda meðal þjóðarinnar, en vissulega fór mat manna á ljóðagerð hans lengi eftir pólitískum línum eins og ekki þarf að koma á óvart með svo róttækt skáld. Hann hlaut virðulegar opinberar viðurkenningar en framan af fyrir kvæði sem hann sendi í samkeppni undir dulnefni. Um þrítugt hlaut hann önnur verðlaun fyrir „Hátíðarljóð 1930“ í tilefni af Alþingishátíðinni það ár; fyrstu verðlaunum deildu þeir með sér Einar Benediktsson og Davíð Stefánsson. Þetta er hátíðlegt kvæði í átta hlutum undir jafnmörgum bragarháttum og hefst á þessu erindi sem gæti verið eftir séra Matthías Jochumsson:

Ó, Guð! Þú sem ríkir í himnunum háu,
sem huggar þá föllnu, sem lyftir þeim smáu!
Ó, Guð! Þú, sem ljómar í sindrandi sólum
og sigur þinn birtir í mannanna jólum!
Vér krjúpum nú hér
og þökkum þér,
hin þunglyndu moldarbörn.
Í lifandi óði,
með logandi blóði,
vér lofum þig, — náð þína, hjálp og vörn.

1944 fékk Jóhannes fyrstu verðlaun fyrir lýðveldishátíðarljóð sitt eins og áður gat. Kvæði hans, „Land míns föður, landið mitt“, hefur síðan verið meðal vinsælustu ættjarðarljóða okkar. Undir lokin var hann ekki lengur umdeildur. Hann hlaut Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun gagnrýnenda dagblaðanna, fyrir síðustu ljóðabók sína, Ný og nið (1970), og sú bók var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Ljóð þessarar síðustu bókar Jóhannesar sýna engin merki um háan aldur höfundar síns. Til dæmis um ferska heimssýn hans má benda á ljóðaflokkinn „Óðinn um oss og börn vor“, sem kallast á við hina fornu „Völuspá“ með grimmri lýsingu sinni á framferði mannanna og bjartri von um að jörð muni enn rísa úr ægi og ný kynslóð finni gullnar töflur í grasi:

Og þarna er hún að koma þarna er hún að rísa
Einmitt nú og hér er hún að brjótast
Út úr þokum og segulstormum óskapnaðarins
Finnur sjálfa sig í tóminu
Samtengir angistina kvöl hins stríðandi lýðs
Lyftir ódauðlegum manninum upp úr viðbjóðnum
Endurfæðist gerir kraftaverk
Breytir helsprengju í lífskjarna
Gefur framtíðinni nýtt mál nýja menningu
Trúir vonar elskar

Við fráfall sitt á sjötugasta og þriðja aldursári stóð Jóhannes á nýjum hátindi ferils síns.
Jóhannes úr Kötlum tjáði sig um listir almennt og ljóðlistina sérstaklega við mörg tilefni, í ræðum og greinum. Árið 1959 hélt hann erindið „Hörpunnar dæmi“ í Ríkisútvarpið, þaulhugsaða og frábærlega stílaða varnarræðu fyrir „nýja skáldskapinn“. Þá höfðu lengi geisað deilur milli þeirra sem vildu halda í gömul brageinkenni, rím, stuðla og reglulega hrynjandi, og hinna sem vildu losa ljóðlistina úr þessum viðjum. Kjarni máls hans er að við getum ekki gert okkur endanlega grein fyrir því hvað ljóðlist sé. Það einfaldar vissulega málið ef við hengjum okkur í áðurtalin formleg ytri einkenni, en „sannir ljóðunnendur hafa þó jafnan „fundið“ ef ekki „skilið“, að háttbindingin ein er engin fullgilding ljóðlistar,“ segir hann. Og hann leyfir sér að láta það álit í ljós að hún þurfi hvorki að vera bundin „háttum né hrynjandi ef hún þrátt fyrir það getur vakið þau sérstöku áhrif sem eru einkenni ljóðs – en svo örðugt er að skýra.“ Svo bætir hann við þessari dásamlegu fullyrðingu: „Því fullkomnara sem ljóð er, því óskiljanlegra verður það.“

Þetta var merkileg játning manns sem í þrjá áratugi hafði ort hvert baráttuljóðið öðru heitara og innblásnara, og öll voru þau eins skýr og skilmerkileg og verða mátti. En ljóðskáldin eru ekki öll steypt í sama mót, og umhverfi þeirra ekki heldur: „Sérhvert ljóðskáld hefur sitt eigið tungutak, skapar sér sitt sérstaka tæki úr máli móður sinnar sem það síðan reynir að beita til túlkunar á persónulegri upplifun sinni og innlifun – lífsreynslu sinni. Ljóðlistin, eins og raunar öll list, er sem sé mjög einstaklingsbundin, enda þótt hún jafnframt feli í sér samtjáningu heillar þjóðar eða jafnvel mannkynsins alls. Hún er einnig háð stund og stað, enda þótt lífsneistinn sem tendrar hana sé bæði sígildur og algildur.“

Jóhannes tók hlutverk sitt alvarlega sem manneskja. Hann var sannfærður sósíalisti, sannfærður um að alþýðu manna bæri arðurinn af vinnu sinni og vald yfir lífi sínu. Þessar skoðanir voru honum svo heilagar og mikilsverðar að hann hlaut að nota gáfuna sem honum var gefin til að boða þær eins og hann gerir svo glæsilega í sínum bestu baráttuljóðum. Þau ljóð eru háð stund sinni og stað, eru eins konar „tækifærisskáldskapur um samtíma menn og atburði,“ eins og hann segir um dróttkvæðin í sama erindi; og ef til vill segir útvarpsfyrirlesturinn okkur að hann hafi ekki litið á þær vel ortu barátturæður sem eiginleg ljóð. Þar vó tungan ekki salt „á egginni milli hins segjanlega og hins ósegjanlega,“ eins og í „hinu fullkomnasta ljóði“. Eiginleg ljóð í þeim skilningi eru mörg í safni Jóhannesar, eins og þetta úrval sýnir. En bæði í brýnum hvatningarljóðum og ljóðum sem segja hið ósegjanlega er skáldið að tala við lesanda sinn. Er það „ekki keppikefli hvers einasta skálds að ná sambandi við mannssálir og mannshjörtu?“ spurði Jóhannes í öðrum fyrirlestri. Það var að minnsta kosti keppikefli hans sjálfs, og því marki náði hann – og nær enn.

Silja Aðalsteinsdóttir

Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur, þýðandi og bókmenntafræðingur er þekkt nafn í íslenskum bókmenntaheimi. Síðustu árin hefur Silja starfað sem ritstjóri hjá Forlaginu.

Jóhann Páll Valdimarsson

Jóhann Páll Valdimarsson er bókaútgefandi og liðtækur ljósmyndari.

Birt áður sem formáli að Ljóðaúrvali Jóhannesar úr Kötlum sem Forlagið gaf út árið 2010.
Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2024