Um Lýðveldis-
hátíðina 1944

Minningar Svans Jóhannessonar

Vorið var komið og mikill hugur í fólki. Ný framtíð blasti við þjóðinni og kreppan að baki. Ég var 14 ára gamall og hafði fylgst vel með undirbúningnum að þjóðaratkvæðagreiðslunni um hvort við ættum að stofna lýðveldi eða vera áfram undir kónginum. Mér fannst að nú væri tími til kominn að við stjórnuðum okkur sjálf. Það var mjög spennandi þegar farið var að telja atkvæðin því allir voru að keppast við að ná 100% kjörsókn. Pabbi var sérstaklega ánægður með þátttöku Dalamanna, en þeir náðu fjórða sæti yfir allt landið (99,88 %).

Ég vissi ekkert um að pabbi hafði tekið þátt í keppninni um besta þjóðhátíðarljóðið fyrr en nokkru fyrir kjördag. Ég var að koma heim úr unglingaskólanum í Hveragerði með einkunnirnar mínar og hafði náð að vera efstur í bekknum. Þá sagði mamma mér að pabbi hefði fengið verðlaun fyrir ljóðið sitt Land míns föður. Það var nú aldeilis gleði þennan dag. Umslagið utan um ljóðið hans var merkt stöfunum I.D. en það voru upphafsstafir Ingu Dóru systur minnar, sem var á fjórða ári og hét eftir báðum ömmum sínum.

Það leið ekki langur tími fram að hátíðarhöldunum og Hvergerðingar fóru að undirbúa þátttöku sína. Ég hafði fermst vorið áður og fengið eitthvað af peningum í fermingargjöf og var búinn að kaupa mér svefnpoka og tjald. Guðmar Stefánsson sérleyfishafi á milli Hveragerðis og Reykjavíkur tók að sér að flytja fólkið til Þingvalla og svo heim aftur.

Hann var með hálfkassabíl eins og var algengt á þessum árum. Við Ingólfur Pálsson vinur minn ákváðum að fara til Þingvalla kvöldið fyrir 17. júní til þess að missa nú ekki af neinu. Pabbi og mamma ætluðu svo að koma daginn eftir með Ingu Dóru og fá að hafa bækistöð í tjaldinu hjá okkur. Þegar við nálguðumst Þingvelli var komið dumbungsveður, eilítið farið að bregða birtu og við flýttum okkur að tjalda og koma okkur fyrir. Fólk dreif að úr öllum áttum og alls staðar var fólk að reyna að finna góðan tjaldstað.

Við hljótum að hafa verið orðnir þreyttir þegar við lögðumst til svefns því ég man ekki eftir neinu sérstöku frá nóttinni. Ég vaknaði ekki einu sinni við rigninguna sem hlýtur að hafa verið mikil þessa sögulegu nótt. Það var ekki fyrr en í morgunsárið að við fórum að heyra einhver köll úti og ég gægðist út undan tjaldskörinni. Vatn var farið að flæða í kringum okkur. Ég sá mann dreginn út úr tjaldi sínu í blautum svefnpokanum. Það var ekki allt með felldu. Stór lækur rann í lægðunum á tjaldsvæðinu og sums staðar inn í tjöldin.

Nú þýddi ekki annað en hafa hraðar hendur og við drifum okkur í fötin, tókum tjaldið upp og bárum það lengra inn á Vellina. Við sáum fjölda manns í svipuðum aðstæðum. Rigningin jókst mikið svo við tjölduðum austan megin við veginn þar sem landið var aðeins hærra. Nú kemur aðeins gloppa í það sem ég man. Ég fór að taka á móti pabba og mömmu lengst niður frá, rétt hjá Valhöll þar sem bílarnir komu að svæðinu, en Ingólfur hlýtur að hafa skilið við mig um það leyti.

Tjaldið var ekki það stórt að það rúmaði marga. Við fjölskyldan héldum svo til þarna allan daginn, en úti rigndi alltaf öðru hvoru. Þegar kom að því að pabbi átti að lesa upp kvæðið sitt bað hann mig um að fylgja sér, en mamma varð eftir með systur mína. Við feðgarnir gengum í rólegheitum í átt að hátíðarsvæðinu og rigningunni slotaði aðeins þegar nær dró. Við biðum svo þarna í brekkunni þar til röðin var komin að honum. Hann gekk í áttina að pallinum og ég ætlaði að bíða hans í mannþrönginni þangað til hann kæmi aftur.
Ég heyrði að faðir minn hóf upp raust sína og hann kallaði orðin út í loftið frekar en að lesa þau upp:

Land míns föður, landið mitt,
laugað bláum straumi:
eilíft vakir auglit þitt
ofar tímans glaumi.
Þetta auglit elskum vér,
— ævi vor á jörðu hér
brot af þínu bergi er,
blik af þínum draumi.

Á þessari stundu varð magnþrungin og eftirminnileg stemning. Það var eins og öll þessi víðfeðma náttúra hefði áhrif á hann. Nú var hann búinn að flytja öll sex erindin og ég beið eftir honum. Ég litaðist um í mannhafinu, en kom hvergi auga á hann. Ég beið áfram en ákvað svo að fara í tjaldið til mömmu og systur minnar. Þegar þangað kom var enginn þar. Ég leitaði þeirra í nágrenninu en fann þær ekki í öllum þessum mannfjölda. Þá fór ég alla leið niður eftir þar sem bílarnir voru en þær voru ekki heldur þar. Það var því ekki um annað að gera en ganga alla leið inn að tjaldinu aftur, taka það niður og búast til heimferðar. Loksins kom bíllinn hans Guðmars eftir langa bið og ég fékk far heim. Ég var alveg búinn að fá nóg af þessum fyrsta degi lýðveldisins. Þær voru komnar heim á undan mér mæðgurnar, guði sé lof. Ég sofnaði vært, en vaknaði um miðja nótt þegar pabbi skilaði sér heim, örþreyttur eftir langan dag, en góðan.

Svanur Jóhannesson

Svanur Jóhannesson er sonur Jóhannesar úr Kötlum og hefur í áratugi séð um útgáfu bóka hans og að auki safnað og flokkað efni eftir föður sinn sem aldrei hefur verið gefið út á prenti eða komið fyrir almenningssjónir áður. Í samstarfi við Landsbókasafnið hefur Svanur flokkað og skilað inn til safnsins gögnum og skjölum Jóhannesar og byggt þannig upp áhugaverðan gagnagrunn um skáldið á Landsbókasafninu.

Svanur Jóhannesson á þeim tíma þegar frásögnin gerist.

Svanur Jóhannesson. Myndin er tekin árinu áður en frásögnin gerist eða þegar hann var fermdur.

| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2024