Frásögn Jóns Sigurðssonar, sem nú er ráðherra, en þeir Jóhannes unnu á sama tíma í húsi Máls og menningar að Laugavegi 18.
,,Starfsmenn Máls og menningar, forlagsins og verslunarinnar, mynduðu þéttan hóp og var liðsandi mjög góður. Margir aðrir starfsmenn í húsinu voru kunningjar til langs tíma og talsverð samskipti milli hæða. Jóhannes var hvers manns hugljúfi í allri viðkynningu. Dagfar hans var rólegt, vinsamlegt og hlýtt. Hann var ræðinn og fyndinn og ævinlega til í gamanmál. Hann var afskaplega vel látinn og vinsæll. Hann hafði auðvitað haft tengsl við Mál og menningu og starfsmenn fyrirtækisins um langt árabil og var tekinn sem einn úr hópnum og leit þannig á sig sjálfur, að ég held.
Jóhannes átti sem kunnugt er ótrúlega létt um að yrkja og kasta fram stöku. Kom það oft fyrir. Fræg var vísa hans um eina konuna í hópnum:
Yndisleg er Ester
einkum þegar hún sest er,
fallegt á henni flest er
en framhliðin þó best er.“
(Heimild: Tímarit Máls og menningar, 4. hefti 1999)
Eftirfarandi vísur fékk ég hjá Önnu Einarsdóttur fv. verslunarstjóra í Bókabúð Máls og menningar:
Starfsfólk í Bókabúð Máls og menningar að Laugavegi 18 var á kaffistofunni ásamt Jóhannesi, sem vann þá hjá Endurskoðunarskrifstofu Björns Svanbergssonar í sama húsi. Þá varð þessi vísa til hjá Jóhannesi:
Óla frúrnar hér tipla tvær
tilkippilegar eru þær.
Önnur í dag við hlið mér hlær,
hin var að blikka mig í gær.
Óla frúrnar voru Ester Benediktsdóttir sem vann í mörg ár í bókabúð MM, hennar maður var Ólafur Þórarinsson, látinn og Æsa Jóhannesdóttir kona Ólafs Þórðarsonar sem lengi var í bókabúð M.M. Æsa vann um tíma í ritfangadeild M.M.
Anna sagði ennfremur: ,,Jóhannes kom alltaf niður til okkar á kaffistofu M.M. í kaffitímanum, mig minnir að Björn Svanbergsson hafi komið líka og jafnvel Björn meðeigandi hans. Þarna var oft glatt á hjalla og skemmtilegar umræður, nefni nöfn eins og Sigfús Daðason, Einar Andrésson, Kristinn E. Andrésson, Magnús Torfi Ólafsson og Jónsteinn Haraldsson sem þá var verslunarstjóri, svo litu oft við aðrir sem störfuðu í húsinu.“
Við svipað tækifæri var Einar Andrésson umboðsmaður Máls og menningar að stríða Önnu dóttur sinni og Fríðu dóttur hennar út af kjól sem Anna var að sauma á hana, 2ja til 3ja ára gamla. Þá varð Einari að orði:
Það er mikil sorgarsaga
sem er ekki hægt að laga.
þinn er kjóll með ljótum kraga
og kippist allur upp á maga.
Jóhannes sat þar hjá þeim og mælti þá fram vísu fyrir hönd dótturdótturinnar, en sú vísa hefur nú fallið í gleymsku um sinn. En seinna áritaði Jóhannes bókina ,,Jólin koma” fyrir Fríðu með eftirfarandi vísu:
Falleg verður, Fríða mín,
fima litla höndin þín,
þegar þú grípur gullin fín
og gleðst við þau um jólin
og þú færð að fara í nýja kjólinn.
Brúðarsæng ég blessa þína,