Þegar breska herstjórnin lét flytja Einar Olgeirsson ritstjóra Þjóðviljans, 4. þingmann Reykvíkinga, til Englands, tók varamaður hans, Jóhannes úr Kötlum, sæti á þingi. Í umræðum um þegnskylduvinnu var Jóhannes meðal andmælenda, og kom fyrir í máli hans orðið taxtakaup. Kvað þá Bjarni Ásgeirsson til hans vísu:
Teygað hefir þorstlát þjóð 
af þínu boðnar-staupi. 
Ortir þú samt öll þín ljóð 
undir taxtakaupi.  
Jóhannes svaraði þá með eftirfarandi vísu:
Taxtakaupið tíðum brást 
tregu ljóðsins barni, 
en ef það skyldi eitt sinn fást, 
yrði ég þægur Bjarni. 
(Heimild: Þingvísur 1872-1942, útg. 1943; Jóhannes úr Kötlum safnaði)
