Svanur Jóhannesson

Svanur Jóhannesson er sonur Jóhannesar úr Kötlum. Hann hefur um árabil verið í forsvari fyrir afkomendur Jóhannesar varðandi útgáfumál og auk þess safnað og skrásett flest þeirra ljóða og greina eftir föður sinn sem aldrei hafa komið á prent. Svanur hefur ásamt syni sínum staðið að baki Skáldasetri Jóhannesar úr Kötlum, allt frá árinu 1999 þegar aldarafmæli skáldsins var fagnað með ýmsum hætti.

„Þetta ljóð var ort upp í Kerlingarfjöllum sumarið 1939, en þá var faðir minn fjárvörður þar vegna mæðiveikinnar. Ég var hins vegar í sveit með móður minni að Víðidalstungu í Víðidal. Hún var þar kaupakona og ég kúasmali og símasendill. Ljóðið var mjög fallega skrifað og var innan í bréfi til mömmu. Annars er frumritið í skjalasafni föður míns í Landsbókasafni, en það má sjá hér á heimasíðunni í myndasafninu.“

Mannsins sonur

Veistu, að ég á lítinn dreng, sem labbar
langt í burtu og rekur margar kýr?
Hann er alveg eins og pabbi forðum:
elskar land og sjó og menn og dýr.

Allt er fullt af heppni í þessum heimi,
– hann er glaður eins og væru jól,
þegar hann á ferðum sínum finnur
fjólu, smára eða holtasól.

Kýrnar vefja gljúpri tungu um grasið,
– guð má vita hvað hann hugsar þá.
Ég veit bara eitt: að aldrei sá ég
augu, sem mér fannst jafn himinblá.

Augun hans við hjarta mömmu blika,
hýrleg stjarna í þeim báðum skín.
Veistu, að stundum þrái ég þessar stjörnur,
– þessar stjörnur eru gullin mín.