Erlingur Sigurðarson

Erlingur Sigurðarson er einn helsti fræðimaður þjóðarinnar í rannsóknum á Davíð Stefánssyni, skáldi frá Fagraskógi, og er fyrrverandi forstöðumaður Sigurhæða og Davíðshúss á Akureyri.

„Mér verður fyrst hugsað til þess sem minnst er að fyrirferð en e.t.v. efnisríkast alls sem Jóhannes lét eftir sig og birtist í Nýjum og niðum, (en um þá bók skrifaði ég BA-ritgerð mína í íslenskum bókmenntum fyrir rúmum aldarþriðjungi):

Eitt er það ljóð
sem orðvana
vekur af dái
dumba þjóð:
blóð!

Það verður þó ekki val mitt, heldur annað orðfleira um sama efni, en sefjandi kliður þess og einlæg frásögn renna saman í áhrifaríka heild. Þessu kvæði hefur verið undarlega lítið haldið á lofti gegnum tíðina, hefur e.t.v. goldið nábýlisins við Dagskipan Stalíns sem stendur næst á eftir því í „Sól tér sortna”. Þetta er kvæðið Skæruliðar sem í yfirlætisleysi sínu kennir manninum öðru fremur að:

…landið er lifandi í kringum hann.

Skæruliðar

Hvert land á sér furðuleg fylgsni
í fjöllum og skógum,
– þar leynist þess eilífa líf
Og oft er þar eingöngu bjargast
við óbreyttan vasahníf.

Þegar vörnin er þrotin á vegum,
og vonin í borgum
er grafin í ösku og grjót,
þá hnípir eitt titrandi hjarta
í helli við jökulrót.

Og bak við hinn bjargfasta steindrang
á berangri hvítum,
sem snuggir í snæfokið grátt,
þar stara tvö stingandi augu
sem stjörnur um kalda nátt.

Og hvarvetna um hvilftir og gljúfur
fer hvimandi svipur
hins ókunna, allslausa manns,
og fálmar með blóðugum fingrum
um fallna stofna síns lands.

Og landið ei dulráðum linnir:
hér leiðir það saman
þá alla, sem lagst hafa út.
Og einn hefur öxi eða hamar
og annar poka eða klút.

Og daga og nætur í dreifðum
og dauðbleikum hópum
er læðst gegnum rjóður og runn:
langsoltnar, leitandi verur
með lokaðan, herptan munn.

Og öll þessi hljóðnæmu eyru
í ofvæni hlusta
á böðlanna forhertu för.
Og bráðlega að brjóstinu á einum
er beint hinni fyrstu ör.

Og einn eftir annan þeir falla,
og annarleg skelfing
hins glataða gegnum þá fer:
hver stjórnar þeim ókunnu öflum,
sem alstaðar leynast hér?

Og þegar hinn síðasti þreifar
um þunneggjar blaðsins,
sem inn millum rifja hans rann,
þá skilur hann loksins, að landið
er lifandi í kringum hann.

Og nú sér hann yfir sér augu,
sem opna með varúð
hið svimandi hyldýpi sitt.
Og hvíslað er: Hér er mín vagga,
– en hvert var erindi þitt?

Og hann, sem til þess fór að heiman
að herja og ræna
það allt, sem hér elskar og þreyr,
hann hniprar sig saman á hjarni
hins hertekna lands – og deyr.

En hópurinn veifar nú hljóður
þeim hérbeittu vopnum,
sem áttu að afmá hans líf.
– Og nú er sá byssusting búinn,
sem bjargaðist áður við hníf.

Og áfram í afdrepi hverju
hinn ókunni vakir
og strýkur hið glampandi stál.
– Og landið er land af hans holdi
og hann er sál af þess sál.