Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson er rithöfundur, sagnfræðingur, íslenskufræðingur og rekstrarhagfræðingur svo eitthvað sé talið upp. Hann er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og einnig gegndi hann embætti bankastjóra í Seðlabanka Íslands frá 2003–2006.

© Ljósmynd/ÞÖK – Allur réttur áskilinn.

„Auðvitað vel ég mörg ljóð og innbyrðis ólík þegar ég fer að reyna að velja úr kvæðum Jóhannesar úr Kötlum. Þar er svo margt hlýtt og innilegt og mannlegt og mannúðlegt sem höfðar til mín og kveikir alls konar gamlar kenndir og hugsanir sem eru þá ennþá til einhvers staðar djúpt í hugskotinu. En ég veit að ég verð að skera úr og taka eitt fram yfir önnur í þetta sinn. Og þá vel ég „Þegar landið fær mál“ úr bókinni Hart er í heimi. Þetta er eitt allra fyrsta kvæði Jóhannesar sem kveikti alveg í mér, barnungum að aldri, og áhrifin hafa aldrei horfið og vakna alltaf eins upp hverju sinni þegar ég hugsa til þess eða les það yfir.“

Þegar landið fær mál

Og ég sat uppi í hlíð og ég sá út á haf,
og mín sál var á krossgötum stödd.
Fyrir framan mig lá allt, sem lífið mér gaf,
og mitt land varð ein hvíslandi rödd,
og það spurði mig lágt: Heyrðu, sonur minn sæll!
Ertu samur í ósk þinni og dáð?
Ertu herra þíns lífs eða hégómans þræll?
Ertu hetja af sannleikans náð?

Þannig spurði mitt land – og það lék eins og bros
um þess ljóðrænu sóleyjarvör.
En ég grúfði mig inn í þess glitofna flos,
og þar grét ég mín erfiðu svör,
– þau hin erfiðu svör um mín svik við þann draum,
sem er samrunninn fegurð míns lands,
þau hin erfiðu svör um hinn sefjandi glaum,
er stakk svefnþorni hugsjónir manns.

Hvað er lítilsiglt rím, þegar landið fær mál
og um líf manns í alvöru spyr,
þegar aldanna kvein fer um kúgaða sál,
og hún krýpur við sannleikans dyr?
Og ég minnist þess dags, er ég byggði þá borg,
sem lá brotin og jöfnuð við fold.
Hversu ekkinn var sár, er mín orðvana sorg
rann sem iðrun í feðranna mold. . .

Hvert var erindi mitt til þín, auðuga jörð?
Var ég annað en blakandi strá?
Hví var heimtað af mér, að ég héldi þar vörð,
sem vor hugsjón í vöggunni lá?
Voru allir á burt? Var ég einn – eða hvað?
Hví var öllu beint rakleitt til mín?
. . . Og Ísland það hófst yfir stund, yfir stað,
og það stækkaði í volduga sýn.

Og það talaði á ný: Æ, þú, barn mitt, átt bágt!
Hví er brjóst þitt svo angrað og þungt?
Og hví hrundi þín borg og hví lauzt þú svo lágt
með þitt lífsblóm, svo fagurt og ungt?
Ég sem trúði á þig, ég sem treysti á þig,
að þú tækir þér plóginn í hönd,
að þú skapaðir mig, að þú skynjaðir mig
fegra og skáldlegra en öll önnur lönd.

Því ég, land þitt, er skaut alls þess lífs, er þig ól,
sérhvert ljóð þitt er hluti af mér,
og hver geisli, er skín, þegar sumrar af sól,
hann er sendur til fagnaðar þér;
allt hið titrandi lauf, allt hið gróandi gras,
öll hin glampandi silfruðu mið,
hvert það ilmandi blóm, er þinn barnsfingur las,
– allt er bundið þinn hjartastreng við.

Ég er voldugt og ríkt og minn faðmur er frjáls,
ég hef fóstrað þig innst við mitt brjóst,
og því hélt ég, að þér, sem fannst hita míns báls,
væri helgasta takmarkið ljóst,
– þetta takmark, sem hátt yfir heiðjökla ber
og er hafið frá dufti til manns,
þetta takmark: að sjá, hver þinn sannleikur er,
og að sigra með fulltingi hans!

Æ, hví sérðu ei, mitt barn, það hið sígilda pund,
er ég sál þinni í vögguna gaf:
þennan öfluga foss, þessa ilmandi grund,
þetta auðuga, ljósbláa haf?
Eru ei gæði mín nóg, ef þér gifta er léð
til að greina þau, skipta þeim rétt?
Víst er saklaust mitt blóð, og þó sit ég hér með
þessa synd: hina kúguðu stétt.

Hvað er sólskinið mitt, hvað er söngfuglinn minn,
hvað er sumarsins fegursta skart,
hvað er vatnanna glit, hvað er víðigræn kinn,
hvað er vornótt með glóhárið bjart,
hvað er ómgöfug lind, hvað er upphafið fjall,
hvað er angan mín, tíbrá og þeyr,
ef í gegnum það allt heyrist örmagna kall
þess, sem út af í skugganum deyr?

Hvílíkt heimskunnar vald, þegar vinnufús þjóð
kringum verkefni iðjulaus snýst,
meðan skorturinn vex eins og friðvana flóð,
og hans feigð inn í sálirnar brýzt!
Hvílíkt heimskunnar vald ræður vilja þess manns,
sem knýr veikari bróður á hjarn,
og sem gína vill einn yfir auði síns lands,
– hann er ekki minn sonur, mitt barn!

Sá, sem koma skal næst, verður þú, einmitt þú,
– það ert þú , sem ég fel nú minn hag,
því hin langþráða stund hefur nú, einmitt nú,
óðum nálgazt og kemur í dag.
Stundin kemur í dag og til drengskapar knýr,
þar til djörfungin sigrar þitt hik.
Þú ert maður of stór, þú ert maður of dýr,
til að minnka við afslátt og svik!

Þannig mælti mitt land. – Og ég reis upp úr rúst
þeirrar ráðlausu borgar, er féll.
Og hin dagelska sól skein á dauðblakka þúst
og brá dýrðlegum roða yfir fell.
Og ég gekk upp á hæðina hljóður og sæll,
– mér var horfin öll iðrun og sorg,
og sem herra míns lífs, en ei hégómans þræll,
lagði ég hornstein að annarri borg.

Og nú flyt ég til þín þessi alvöruorð,
sem mitt ættarland hvíslaði að mér.
Ekki einungis mig bindur ósk þess við borð,
– lífið allt krefst hins sama af þér.
Hvað er ég? Hvað ert þú? Hvað er hún? Hvað er hann?
Sama hönd, sama önd, sama blóð!
– Að slá skjaldborg um réttlætið, maður við mann,
það er menningin, íslenzka þjóð!