Vilborg Dagbjartsdóttir
Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur er þekktust fyrir ljóð sín en eftir hana liggur einnig fjöldi rita fyrir börn, bæði frumsamdar sögur og þýðingar og auk þess námsefni.
„Þetta er kannski ekki eftirlætisljóð mitt eftir Jóhannes úr Kötlum en mér er það kært af sérstökum ástæðum. Það er dálítil saga á bak við það sem enginn man lengur nema ég. Einhverju sinni sem oftar leit ég við á kaffistofu starfsfólks Máls og menningar. Ég hitti vel á. Jóhannes úr Kötlum var að fá sér kaffi. Við tókum tal saman. Ég sagði honum frá því að einhverju sinni kom pabbi af vertíð og hafði ekki fengið nema 75 aura í kaup. Á leiðinni heim keypti hann fimmaurakúlur handa okkur litlu krökkunum fyrir aurana. Mamma stóð við eldavélina og var að baka lummur í tilefni dagsins. Hún horfði á pabba tína gottið upp úr brúnum bréfpoka og útdeila því: „Er það ekki eins og að storka örlögunum, Dagbjartur, að kaupa sælgæti fyrir allt kaupið sitt?” Þá hló pabbi og svaraði: „En Ína mín, ég skulda ekki neitt, sumir áttu ekki fyrir fæðinu sínu.” Svo hneigði hann sig fyrir henni og bauð henni í vals. Þá var nú aldeilis glatt á Hjalla! Jóhannes hafði gaman af sögunni og spurði mig um hagi fólksins á Eyrinni í kreppunni. Sannarlega varð ég undrandi og glöð þegar ég las ljóðið í næstu bók hans, Nýjum og niðum.“
Sjötíu og fimm aurar
Tólf barna faðir í mannheimum
kemur heim úr veri
með sjötíu og fimm aura í vasanum.
Sex eru dáin úr tæringu
– hann kaupir brjóstsykur fyrir auranna
og skiptir honum milli hinna sex
sem eftir eru.
Seg mér dóttir Dagbjarts:
var það ekki þá
sem faðir þinn sigraði heiminn?