Matthías Johannessen

Matthías Johannessen (f. 3. janúar 1930) er ljóðskáld og rithöfundur. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu meðfram háskólanámi og síðar ritstjóri þess á árunum 1959–2000. Fyrsta ljóðabók Matthíasar Borgin hló kom út árið 1958 og vakti töluverða athygli. Síðan hefur hann gefið út tugi ljóðabóka, auk fræðibóka, skáldsagna, smásagnasafna, leikrita og viðtalsbóka.

„Þegar ég var ungur vöktu athygli mína atómljóð í Tímariti Máls og menningar eftir Anonymus, en eitt þeirra, sem var sett upp eins og formleysa, var þrælbundið þegar að var gáð. Þá sást að hefðbundið góðskáld var þarna á ferð og síðar kom í ljós að það var enginn annar en Jóhannes úr Kötlum. Mig langar að minna á þetta ljóð vegna virðingar við skáldið og þróun ljóðlistar.“

Eitt órímað ljóð

ég Liljuriddarinn
rakti við stjörnuskin
hinn rökkvaða skóg
með hjartað í bláum loga og
sofandi jörðin hrökk upp við dimman dyn og
dauðinn þaut
í himinsins spennta boga

allt líf var skuggi
úr moldinni myrkrið smó og
máninn huldist skýi sem slokknað auga og
tíminn villtist og
vindurinn beit og
sló
er vofurnar báru gullið í sína hauga

svo þung var öldin
að allan skilning mig þraut og
uglur vældu og
loftið titraði
af rógi ég lagði
höndina á himinbogann og
skaut og
hæfði fegursta dýrið
í Goðaskógi

í saklausri angist drúpti
drottningin Hind
er dreyrinn seytlaði úr brjósti
konungsins Hjartar í nótt
var eðli mitt nakið og
sál mín blind í nótt
urðu hvítu liljurnar mínar
svartar

Birtist í Tímariti Máls og menningar 1948

Ýskelfir

Ég liljuriddarinn rakti við stjörnuskin
hinn rökkvaða skóg með hjartað í bláum loga
og sofandi jörðin hrökk upp við dimman dyn
og dauðinn þaut í himinsins spennta boga.

Allt líf var skuggi: úr moldinni myrkrið fló
og máninn huldist skýi sem slokknað auga
og tíminn villtist og vindurinn beit og sló
er vofurnar báru gullið í sína hauga.

Svo þung var öldin að allan skilning mig þraut
og uglur vældu og loftið titraði af rógi:
ég lagði höndina á himinbogann og skaut
og hæfði fegursta dýrið í Goðaskógi.

Í saklausri angist drúpti drottningin Hind
er dreyrinn seytlaði úr brjósti konungsins Hjartar:
í nótt var eðli mitt nakið og sál mín blind
– í nótt urðu hvítu liljurnar mínar svartar.

Birtist í Sjödægru 1955