Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson er jarðeðlisfræðingur að mennt og hefur stundað ritstörf allt frá árinu 1980. Ari hefur ritað fjölmargar bækur um vísindi, íslenska náttúru og útivist og hlotið ýmsar viðurkenningar og tilnefningar fyrir. Hann hefur í gegnum tíðina starfað að dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp sem tengjast óbilandi áhuga hans á að kynna fyrir almenningi vísindi og hina einstæðu náttúru landsins. Ari hefur einnig sent frá sér ljóðasöfn og skáldsögur.

„Ég hitti Jóhannes nokkrum sinnum sem barn og unglingur, m.a. í Þórsmörk, en hann var vinur föður míns. Þótt eitt og annað skildi skoðanir áttu þeir ýmislegt sameiginlegt, m.a. hug til náttúrunnar, og báðir þurftu að berjast nokkuð fyrir listrænni stöðu sinni. Seinna átti ég fáeinar stundir með Jóhannesi þegar ég tók þátt í að helga skáldinu stóra samkomu á vegum Menntaskólans í Reykjavík og málaði þá m.a. stórar myndir við nokkur ljóð úr bókinni Tregaslagur. Þetta voru minnistæð kynni. Ég met mörg ljóða hans mikils og tel að þau muni verða lengi lesin.“

Fiðrildi

Úr augum þér fiðrildi fljúga
á flauilsvængjunum blám
með þrá þinnar söngvasálar
í silkifálmurum smám.

Þau tylla sér eins og tónar
á titrandi hjartablóm mín
og fljúga svo óðara aftur
með ástina heim til sín.