Njörður P. Njarðvík

Njörður P. Njarðvík er prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Skáld, rithöfundur, þýðandi og höfundur kennslubóka. Hann hefur skrifað fjölda rita og greina um bókmenntir og önnur efni.

„Það er í raun fjarskalega erfitt að eiga að velja eitt ljóð eftir Jóhannes, ekki síst ef maður þykist kunna sæmilega skil á ljóðagerð hans. Það má hiklaust segja að í ljóðum hans speglist öll þróun íslenskrar ljóðlistar á 20. öld, frá nýrómantík um pólitíska róttækni til formbreytinga módernisma og áfram – aldrei stöðnun og hreint ótrúleg þróun sem stundum má líkja við hamskipti. Ég hef lesið ljóð Jóhannesar frá unglingsárum og fæ aldrei leið á þeim. Öðru nær, alltaf skal ég finna eitthvað nýtt og óvænt. Að lokum ákvað ég að velja ljóðið Ferðavísur, af því að það er í senn skýrt dæmi um göldrótta myndvísi og myndugleg áminning til villuráfandi þjóðar – mitt í allsnægtunum. Hvort tveggja finnst mér einkenna ljóð hans.“

Ferðavísur

Þungt er að bera um fjallveg
fullan mal af haustkvíða
þegar dagurinn geispar golunni
í gúlp hinnar blökku nætur
og svikulir steinar skríða
undan skeikulum fótum manns.

Það setur að mér hroll
er helsingjarnir koma yfir mig
með nepjusúg í flugnum
– fara hátt og mikinn –
glam þeirra er kaldhamrað bergmál
af buldri grasafólks
sem enn er að villast í þokunni
á þessari afskekktu heiði.