Hallberg Hallmundsson

Hallberg Hallmundsson var bókmenntamaður, þýðandi og frömuður í þýðingum milli íslensku og ensku. Hallberg starfaði í New York í rúma tvo áratugi við ritstjórn alfræðibóka og ritaði jafnframt og bjó til prentunar hundruð greina, bæði nafngreindra og ónafngreindra, fyrir önnur alfræðirit. Þá var hann lokaritstjóri í hálfu starfi við vikuritið Business Week frá 1984 til 2002. Árið 2002 flutti Hallberg aftur til Íslands og skrifaði umsagnir um íslenskar bækur fyrir World Literature Today og var einn af ráðgjöfum þess um val bóka til umsagnar. Hallberg stundaði jafnframt þýðingarstörf, bæði af og á íslensku, allt frá því hann flutti utan. Hann lést árið 2011.

„Jóhannes orti svo mikið af góðum ljóðum, og ég held upp á svo mörg þeirra, að það er erfitt að velja eitthvert eitt úr. En mér hefur alltaf fundist eitt af eldri ljóðum hans höfða til mín á sérlega sterkan hátt, þótt það sé engan veginn meðal hins besta sem hann sendi frá sér. Það er þó ágætlega ort. Þetta er ljóð úr þriðju bókinni hans, Ég læt sem ég sofi, sem ég keypti í fornbókabúð einhvern tíma á unglingsárum mínum. Nei, það er ekki ,,Karl faðir minn” þótt það sé líka í einfaldleik sínum (og jafnvel lengd) í miklu uppáhaldi hjá mér, heldur ,,Sköpunarsaga”. Ég held mér hafi til að byrja með fundist það, svo ,,sniðugt” að það sat í mér löngu eftir að ég hafði gleymt flestu öðru í bókinni. Ég kunni vel að meta bæði viðhorfið og húmorinn: Hvort tveggja var eins og talað út úr mínu hjarta. Og svo er raunar enn.“

Sköpunarsaga

Vor skynsemi þroskast, vor skilningur vex.
Guð skapaði heiminn á dögunum sex
og hvíldist hinn sjöunda, sveittur og þreyttur,
– var sagt þegar við vorum krakkar.
Nú sjá menn að himinsins herra er breyttur
eða hugmyndir Gyðinga skakkar.

Því egg koma í hreiður og hrogn koma í tjörn
og hross eiga folöld og manneskjur börn.
Og hvernig sem klerkar í móinn sinn malda,
á mislita sauði guðs hjarðar
vill frjósemin skella sem skipandi alda
frá skapara himins og jarðar.

Vor heimur er fagur og fjörugt vort líf.
Í fylgsninu mætast þau, halur og víf.
Og töfrarnir byrja, – þau titra af gleði
og teyga að sér ljósið og vorið.
– Og þó er sem eitthvað í þankanum kveði,
að þetta sé glötunarsporið.

En náttúran spyr ekki um glötun né gagn,
– hún gefur þeim aðeins sitt sköpunarmagn.
Og armur að armi og barmur að barmi
í brennandi ástríðu seiðast.
Og göróttar leifar frá guðsóttans harmi
í glóandi deiglunni eyðast.

En njósnarans auga sá fylgsnið og fann,
að fjandinn var hlaupinn í konu og mann.
Og hneykslið varð uppvíst. – Menn sáu þau syndug
í soðpottinn eilífa hrapa.
Það er sjálfsagt að játa, að sagan er kyndug:
– þeir sáu ekki, að guð var að skapa.