Vigdís Grímsdóttir

Vigdís Grímsdóttir lauk kennaraprófi 1973, BA prófi í íslensku og bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands 1978 og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands 1982. Hún stundaði kandidatsnám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands 1984 – 1985. Vigdís starfaði sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari í Reykjavík og Hafnarfirði til 1990 en hefur síðan nær eingöngu fengist við ritstörf. Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Tíu myndir úr lífi þínu kom út árið 1983 og síðan hefur hún sent frá sér ljóðabækur, annað smásagnasafn og skáldsögur, þar af eina barnabók. Vigdís hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál.

„Ljóðið um son götunnar er og verður nöturlegt ferðalag um mannlífið á meðan ójöfnuður er val valdhafa og ótrúlegustu hörmungar eru staðreyndir á götuhornum. Hinn myndvísi heimur skáldsins er gaddasvipa á okkur nútímamenn hvar í veröldinni sem við höfum hreiðrað um okkur og svipan grimma og kalda lætur okkur vart liggja ósærð: sá má að minnsta kosti kallast meira en lítið kaldhamraður sem ekki vaknar upp við vondan draum þegar hann kynnist syni götunnar, sér misskiptingu auðsins í sínu demóníska veldi og íhugar þá mannfyrirlitningu sem fylgir hinu súrrealíska ranglæti heimsins. Því hvað er ranglætið annað en siðir hins ráðsetta og ríka og endalaus flótti hans?

Af einstakri myndvísi og óvægnu miskunnarleysi dregur Jóhannes úr Kötlum upp lífsmynd götusonarins sem á enga frændur og enga vini og ekkert föðurland. Og við sem horfum á þessa mynd og gefum okkur tíma, tími er allt sem þarf, til að virða hana fyrir okkur, við hljótum að staldra við: við hinkrum vegna þess að saga þessa ellefu ára stráks sem húkir í horninu dimma er ekki aðeins áskorun til okkar í “góðu sófunum undir öruggu ljósunum” um að gera grundvallarbreytingar á mannlífstorginu, heldur kallar hún á ábyrgð okkar, hvetur okkur til að vakna til hinnar raunverulegu veraldar og vekja hina sífellt sofandi letimenn. Laun heimsins eru alls ekki óréttlæti. Við erum laun heimsins og augu okkar eiga að brenna einsog blikandi neistar.“

Sonur götunnar

Um götuna fikar sig fölur snáði,
– en frost er úti og snjór. –
Húfan er gömul og garmarnir rifnir
og götóttir sokkar og skór. –
Hann skimar um strætin, hikandi og hljóður,
og höktir í næsta skjól.
– Hann á engan föður og enga móður,
og engan guð eða jól.

Hann hniprar sig saman í horni dimmu,
með hörku steinsins í svip.
Og náttrökkrið felur við barminn blakka
hinn barnunga viðsjálfsgrip. –
Hér hýrist hann nótt eftir nótt – og breiðir
á nekt sína skuggans húm.
– Hann á enga systur og engan bróður,
og ekkert ljós eða rúm.

En augu hans brenna, eins og blikandi neistar
frá báli, sem slokknað er. –
Þau smjúga eins og örvar í strætastrauminn,
sem stympast, – kemur og fer.
Svo stingur hann sér og gerir gælur
við götunnar harða sand.
– Hann á enga frændur og enga vini
og ekkert föðurland.

Götunnar sonur er ellefu ára,
og enginn veit um hans kyn, –
Örlögin sköpuðu ´ann eitthvert kvöldið
við ástríðulogans skin.
– Hvort pabbinn var morðingi og mamman þjófur,
sem mættust um stundarbil,
veit enginn maður; – en allt er blessað,
sem almættið stofnar til.

Hans daglega pund er að draga fram lífið
um daunill og forug torg,
og berjast af grimd, eins og skynlaus skepna,
við skítinn í stórri borg. –
Hans hugsun er frost og hungur og þorsti,
en hvorki gleði né sorg.
– Í stað þess að laugast í sól og sumri
hann svelgir eimloftsins korg.

Í borginni sefur hvert barn í náðum,
sem borið er samlífs til,
við mjúka svæfla og mjúkar sængur
og móðurhyggjunnar yl. –
Þau dreymir um engla og dýrar krásir,
og dásemdir hljóms og óðs,
meðan hann, þessi sonur syndar og nektar,
sýgur hvern fingur til blóðs.

Hann getur ei sofnað, – því sár er kuldinn,
en sulturinn verri þó.
Þeir naga, þeir tæta hans sál í sundur
og svifta hann allri ró. –
Í hugsunarleysi höndin kreppist
að hjartanu blá og rauð,
eins og höndin vilji við hjartað segja:
Æ, hver vill gefa okkur brauð?

Hver hreyfing hans er sem gráðug glíma
við guð þann er líf hans skóp,
– hvert augnatillit sem stálbeitt stunga,
hver stuna sem neyðaróp. –
Hann á engan tilgang og enga framtíð,
því öll hans barátta er tál.
Það vefur sig upp, eins og eiturnaðra,
sem átti að verða sál.

Hans lögmál er hatur til alls sem andar,
því allt er það fjandlið hans. –
Hann lokkar og svíkur, hann lýgur og stelur,
með lævísi dýrs og manns. –
Hann þekkir ei siði hins ráðsetta og ríka,
– hans reynsla er eintómt skarn.
Hann sparkar í heiminn með þrjósku þrælsins,
og þó er hann – saklaust barn.

Í horninu dimma hann húkir löngum,
sem horbein úr spiltri þjóð. –
Og hljóðlega seytlar úr sognum fingrum
hið svívirta fórnarblóð.
– Hann er nú rúmlega ellefu ára,
og ósköp stuttur og mjór.
En þjóðin mun læra að þekkja hann betur,
þegar hann verður stór.