Pétur Gunnarsson

Pétur Gunnarsson rithöfundur fæddist 15. júní 1947 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 hélt hann utan til náms í Frakklandi og lauk Meistaraprófi í heimspeki (maitrise) frá Université d’Aix-Marseille árið 1975. Pétur hefur tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum, hann samdi t.d. leikritið Grænjaxlar árið 1977 fyrir Þjóðleikhúsið í samvinnu leikara og Spilverks þjóðanna. Hann samdi texta á breiðskífunni Lög unga fólksins sem út kom 1977 og barnaleikritið Krókmakarabærinn sama ár í samvinnu við Leiklistarskóla Íslands. Pétur hefur jafnframt unnið margvíslegt efni fyrir útvarp og sjónvarp. Hann skrifaði t.a.m. handrit að leikinni heimildamynd um Halldór Laxness 1988.

Ég finn ég verð

Hér sit ég enn í sömu vanans skorðum
hve sárt og djúpt sem tímans þyrnar stinga
og leita skjóls í löngu dauðum orðum
– ó lífsins kjarni: nær á ég að springa?

Ó nær á ég að sundrast þrjózkur þungur
í þjóðar minnar brjósti fullu af kvíða
og stökkva síðan endurfæddur ungur
úr eldinum og láta höggið ríða?

Ég þoli ei lengur heljarmannsins hola
og heimska vald sem aðeins kann að deyða:
ég verð að brjóta það í þúsund mola
– ó það er höggið sem ég verð að greiða.

Ef vítislogar hinna gullnu hringa
sem heiminn spenna skulu eitt sinn dvína
ég finn ég verð – ég finn ég verð að springa
og fæða af nýju alla veröld mína.