Jón Kalman Stefánsson

Jón Kalman Stefánsson hóf feril sinn sem ljóðskáld en fyrsta prósaverk hans var smásagnasafnið Skurðir í rigningu (1996). Skáldsögur Jóns Kalmans hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir „Sumarljós og svo kemur nóttin“ árið 2005. Bækur hans hafa einnig hlotið góðar viðtökur erlendis, meðal annars í Þýskalandi. Jón Kalman hefur þrisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir Sumarið bak við brekkuna, Ýmislegt um risafurur og tímann og Sumarljós og svo kemur nóttin.

„Góð skáld yrkja um steinana, „Þú/ sem gerðir mér steinana/ byggilega.“ orti Hannes Pétursson til Rilke, og bandaríska skáldið Charles Simic talar um stjörnukortið á innveggjum þeirra. Ég ætlaði að vísu að velja annað ljóð, Jarðerni, sem lifir innra með mér eins og muldur, eins og sálmur, eins og huggun. En kvæðið um steinana er gott, Jóhannes hafði auga fyrir hinu hversdagslega, sá skáldskapinn þar, og það er mikilsvert, dýrmætt. Og það er kyrrð í þessu kvæði, líka bros, en fyrst og fremst kyrrð og þessvegna gott að lesa það, fara með það í hljóði og upphátt, það róar; ég stefni því gegn andstuttum samtímanum, þessum þjáða streitusjúklingi.“

Steinar

Steinarnir berast hreyfingarlausir
með hringsnúningi jarðarinnar:
þeir eru ekki tímabundnir
þeir mega vera að því að hvíla sig
og tala saman

því steinarnir tala
– þeir tala um eilífðarveðrið
og unnustur sínar daggirnar
og svo vandlega hugsa þeir mál sitt
að það tekur þá þúsundir ára
að segja eitt einasta orð.