Hjörtur Pálsson

Hjörtur Pálsson hefur sent frá sér fimm ljóðabækur, þá síðustu árið 1998 (Úr Þegjandadal). Auk þess hafa ljóð eftir hann birst í tímaritum. Hann hefur þýtt á fjórða tug bóka í bundnu og óbundnu máli, skáldverk, ferðabækur, barnabækur og önnur rit úr ensku, þýsku og Norðurlandamálum, þ.á m. færeysku og finnsku. Flestar þýðingarnar hafa verið prentaðar á bók, en hinar birst í blöðum og útvarpi eða verið leiknar á sviði. Auk þess er Hjörtur höfundur margra útvarpsþátta og hefur birt greinar og þýðingar í blöðum og tímaritum. Þá hefur Hjörtur séð um útgáfur fjölda bóka og búið þær til prentunar. Ljóð og önnur skrif eftir Hjört hafa birst í ýmsum safnritum, bæði hér á landi og erlendis.

„Sá á kvölina sem á völina, því að Jóhannes úr Kötlum var ekki eins kvæðis skáld. Eftir dálitlar vangaveltur ætlaði ég að velja „Ýskelfi“ sem vekur mér enn sama fegurðarhroll og fermingarárið mitt þegar Sjödægra kom út og víðar lendur bókmenntanna voru að opnast forvitnum hug og ungum augum. Nú sé ég að annar hefur orðið á undan mér og þriðji veljandinn nefnir ljóðið einnig og teflir fram „Fjöllum“ sem ég staldraði líka við. Margt kom til greina, en hreinleiki hugans og einlægni hjartans leyna sér ekki í skáldskap Jóhannesar og léðu honum mannlegan svip og mikinn þokka frá æskudögum til síðustu ljóða. Kvæði hans eru mörg tilbrigði um sama stef og sprottin af ást hans á jörðinni og samúð með mannanna börnum um víða veröld. Í „Heimþrá“ er tryggðin við átthagana og upprunann allsráðandi og óþreyjan listilega ofin í braginn. Í þeirri fjórðu af „Fimm hugvekjum úr Dölum“ má glöggt skynja ást skáldsins á landi og þjóð í mannlífsmyndum úr æskuhéraðinu sem Jóhannes unir sér við í hörðum heimi og gæðir lífi með mannskilningi sínum og notalegri kímni. Loks varð fyrir valinu ljóð úr Tregaslag sem læsir í eitt listfengi og einfaldleik, en er þó ef til vill ekki allt þar sem það er séð í djúpri alvöru sinni.“

Jarðerni

Af þér er ég kominn undursamlega jörð:

eins og ljós skína augu mín á blóm þín
eins og snjór lykja hendur mínar um grjót þitt
eins og blær leikur andardráttur minn um gras þitt
eins og fiskur syndi ég í vatni þínu
eins og fugl syng ég í skógi þínum
eins og lamb sef ég í þínum mó.

Að þér mun ég verða undursamlega jörð:

eins og sveipur mun ég hverfast í stormi þínum
eins og dropi mun ég falla í regni þínu
eins og næfur mun ég loga í eldi þínum
eins og duft mun ég sáldrast í þína mold.

Og við munum upp rísa undursamlega jörð.