Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson er prófessor í íslensku og rithöfundur. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 2003. Frá því í júlí 2011 hefur hann gegnt stöðu prófessors við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ármann hefur sent frá sér tvær skáldsögur, Vonarstræti og Glæsi. Vorið 2011 kom út í ritröðinni Íslenzk fornrit hjá Hinu íslenska fornritafélagi konungasagnaritið Morkinskinna í tveimur bindum en Ármann sá um útgáfuna ásamt Þórði Inga Guðjónssyni.


„Ljóðið sem ég valdi er úr Sjödægru (1955). Ég hika ekki við að kalla hana eina af fimm merkilegustu ljóðabókum 20. aldarinnar og þar eru mörg mögnuð ljóð sem væri freistandi að velja og ræða aðeins um (Ýskelfir, Rímþjóð, Næturróður, Hellisbúi, Heimur í smíðum, Eitt stakt hagl, Miðnætti í Keníu). Ljóðið sem ég valdi er kannski ekki eitt af mögnuðustu ljóðum bókarinnar en það hefur hins vegar lengi orkað sterkt á mig og ég valdi það eitt sinn fyrir löngu til að lýsa hlutskipti hugsjónamannsins eftir hin miklu vonbrigði 20. aldarinnar, einfaldlega vegna þess að ég gat ekki orðað hlutina betur sjálfur. Ég veit ekki hvað skáldið sjálft ætlaði ljóðinu að merkja en hitt veit ég að hann varð einna fyrstur til að gera upp við Stalín, heiðarlega og hispurslaust og án þess að hafna þeim sjónarmiðum og tilfinningum sem lágu á bak við hans eigin róttækni, hvert sem hún leiddi hann. Ljóðið heitir Fjöll. Það má líka lesa sem mjög fallega mynd um fjarskann og þau áhrif sem hugmyndin um eitthvað stórkostlegra en mann sjálfan getur haft.“


Fjöll



Mín fjöll eru blá
mín fjöll eru hvít
lífsins fjöll
við dauðans haf.

Mín fjöll
eru sannleikans fjöll
blátt grjót
hvítur snjór.

Mín fjöll standa
þegar lygin hrynur
mín bláu fjöll
mín hvítu fjöll.




Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson er jarðeðlisfræðingur að mennt og hefur stundað ritstörf allt frá árinu 1980. Ari hefur ritað fjölmargar bækur um vísindi, íslenska náttúru og útivist og hlotið ýmsar viðurkenningar og tilnefningar fyrir. Hann hefur í gegnum tíðina starfað að dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp sem tengjast óbilandi áhuga hans á að kynna fyrir almenningi vísindi og hina einstæðu náttúru landsins. Ari hefur einnig sent frá sér ljóðasöfn og skáldsögur.


„Ég hitti Jóhannes nokkrum sinnum sem barn og unglingur, m.a. í Þórsmörk, en hann var vinur föður míns. Þótt eitt og annað skildi skoðanir áttu þeir ýmislegt sameiginlegt, m.a. hug til náttúrunnar, og báðir þurftu að berjast nokkuð fyrir listrænni stöðu sinni. Seinna átti ég fáeinar stundir með Jóhannesi þegar ég tók þátt í að helga skáldinu stóra samkomu á vegum Menntaskólans í Reykjavík og málaði þá m.a. stórar myndir við nokkur ljóð úr bókinni Tregaslagur. Þetta voru minnistæð kynni. Ég met mörg ljóða hans mikils og tel að þau muni verða lengi lesin.“


Fiðrildi



Úr augum þér fiðrildi fljúga
á flauilsvængjunum blám
með þrá þinnar söngvasálar
í silkifálmurum smám.

Þau tylla sér eins og tónar
á titrandi hjartablóm mín
og fljúga svo óðara aftur
með ástina heim til sín.




Anna Einarsdóttir

Anna Einarsdóttir er fyrrverandi verslunarstjóri í Bókabúð Máls og menningar. Framkvæmdastjóri í bókaverslun Snæbjarnar Jónssonar 1986–1989. Í stjórn Máls og menningar frá 1974. Í stjórn Íslensk-sænska félagsins 1984–1990. Í varastjórn Reykjavíkurdeildar Norræna félagsins 1987–1989 og aðalstjórn frá 1989. Í varastjórn Norræna hússins 1991–1993. Viðurkenningar: Riddarakross Hvítu rósar Finnlands 1989. Sænska Nordstjärneorden 1995. Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 1998.


Anna Einarsdóttir var lengi að að velta fyrir sér hvaða ljóð hún ætti að velja; „uppáhaldsljóðin eru svo mörg“ segir hún.
En… „Vorið góða“ Það seytlar inn í hjarta mitt.
„Þjóðvör“ Er haustið varpar húmi…
„Er hnígur sól“ og „Jesús Maríuson“.
Ætli það séu ekki uppáhaldsljóðin mín!


Vorið góða



Það seytlar inn í hjarta mitt
sem sólskin fagurhvítt,
sem vöggukvæði erlunnar,
svo undur fínt og blítt,
sem blæilmur frá víðirunni,
– vorið grænt og hlýtt.

Ég breiði út faðminn – heiðbjört tíbrá
hnígur mér í fang.
En báran kyssir unnarstein
og ígulker og þang.
Nú hlæja loksins augu mín,
– nú hægist mér um gang.

Því fagurt er það, landið mitt,
og fagur er minn sjór.
Og aftur kemur yndi það,
sem einu sinni fór.
Og bráðum verð ég fallegur
og bráðum verð ég stór…