Erlingur Sigurðarson

Erlingur Sigurðarson er einn helsti fræðimaður þjóðarinnar í rannsóknum á Davíð Stefánssyni, skáldi frá Fagraskógi, og er fyrrverandi forstöðumaður Sigurhæða og Davíðshúss á Akureyri.


„Mér verður fyrst hugsað til þess sem minnst er að fyrirferð en e.t.v. efnisríkast alls sem Jóhannes lét eftir sig og birtist í Nýjum og niðum, (en um þá bók skrifaði ég BA-ritgerð mína í íslenskum bókmenntum fyrir rúmum aldarþriðjungi):

Eitt er það ljóð
sem orðvana
vekur af dái
dumba þjóð:
blóð!

Það verður þó ekki val mitt, heldur annað orðfleira um sama efni, en sefjandi kliður þess og einlæg frásögn renna saman í áhrifaríka heild. Þessu kvæði hefur verið undarlega lítið haldið á lofti gegnum tíðina, hefur e.t.v. goldið nábýlisins við Dagskipan Stalíns sem stendur næst á eftir því í „Sól tér sortna”. Þetta er kvæðið Skæruliðar sem í yfirlætisleysi sínu kennir manninum öðru fremur að:

…landið er lifandi í kringum hann.


SkæruliðarHvert land á sér furðuleg fylgsni
í fjöllum og skógum,
– þar leynist þess eilífa líf
Og oft er þar eingöngu bjargast
við óbreyttan vasahníf.

Þegar vörnin er þrotin á vegum,
og vonin í borgum
er grafin í ösku og grjót,
þá hnípir eitt titrandi hjarta
í helli við jökulrót.

Og bak við hinn bjargfasta steindrang
á berangri hvítum,
sem snuggir í snæfokið grátt,
þar stara tvö stingandi augu
sem stjörnur um kalda nátt.

Og hvarvetna um hvilftir og gljúfur
fer hvimandi svipur
hins ókunna, allslausa manns,
og fálmar með blóðugum fingrum
um fallna stofna síns lands.

Og landið ei dulráðum linnir:
hér leiðir það saman
þá alla, sem lagst hafa út.
Og einn hefur öxi eða hamar
og annar poka eða klút.

Og daga og nætur í dreifðum
og dauðbleikum hópum
er læðst gegnum rjóður og runn:
langsoltnar, leitandi verur
með lokaðan, herptan munn.

Og öll þessi hljóðnæmu eyru
í ofvæni hlusta
á böðlanna forhertu för.
Og bráðlega að brjóstinu á einum
er beint hinni fyrstu ör.

Og einn eftir annan þeir falla,
og annarleg skelfing
hins glataða gegnum þá fer:
hver stjórnar þeim ókunnu öflum,
sem alstaðar leynast hér?

Og þegar hinn síðasti þreifar
um þunneggjar blaðsins,
sem inn millum rifja hans rann,
þá skilur hann loksins, að landið
er lifandi í kringum hann.

Og nú sér hann yfir sér augu,
sem opna með varúð
hið svimandi hyldýpi sitt.
Og hvíslað er: Hér er mín vagga,
– en hvert var erindi þitt?

Og hann, sem til þess fór að heiman
að herja og ræna
það allt, sem hér elskar og þreyr,
hann hniprar sig saman á hjarni
hins hertekna lands – og deyr.

En hópurinn veifar nú hljóður
þeim hérbeittu vopnum,
sem áttu að afmá hans líf.
– Og nú er sá byssusting búinn,
sem bjargaðist áður við hníf.

Og áfram í afdrepi hverju
hinn ókunni vakir
og strýkur hið glampandi stál.
– Og landið er land af hans holdi
og hann er sál af þess sál.
Einar Már Guðmundsson

Einar Már nam bókmenntir og sagnfræði við Háskóla Íslands og lauk B.A.-prófi 1979. Hann stundaði framhaldsnám í bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla en hann bjó í Kaupmannahöfn í sex ár. Fyrstu bækur hans voru ljóðabækurnar Sendisveinninn er einmana og Er nokkur í Kórónafötum hér inni? árið 1980, en hann er þó þekktari sem skáldsagnahöfundur. Handritið að fyrstu skáldsagu hans, Riddarar hringstigans, hlaut fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni sem Almenna bókafélagið efndi til árið 1982 í tilefni 25 ára afmælis síns og var bókin gefin út sama ár. Þekktasta bók hans er skáldsagan Englar alheimsins, sem komið hefur út á ýmsum tungumálum. Kvikmynd gerð eftir sögunni var frumsýnd árið 2000 og skrifaði Einar handritið að henni. Hann skrifaði einnig ásamt Friðrik Þór Friðrikssyni handrit að myndunum Börn náttúrunnar og Bíódagar. Einar Már var áberandi í umræðunni í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og í búsáhaldabyltingunni, skrifaði fjölda greina í blöð og hélt ræður á útifundum. Tvær síðustu bækur hans, Hvíta bókin og Bankastræti núll, tengjast þessu og þar er fjallað mjög um þjóðfélagsmál, útrás og ýmsar brotalamir í samfélaginu.


„Ég hef valið Þegnar þagnarinnar, úr Hrimhvíta móðir. Auðvitað kom margt annað til greina. Sóleyjarkvæði fylgdi mér lengi. Ég hlustaði á tónlistina og las ljóðið um leið. Fyrstu tvö erindin gat ég sungið fyrir börnin mín fyrir svefninn. Vegna þess að ég á fimm börn, fædd á árunum 1977 – 1990 þá söng ég þessi erindi býsna lengi. Óljóð, Sjödægra og Ný og nið, þær las ég allar sem unglingur ölvaður af pólitíkinni og hinu frjálsa formi. Um stund vöktu eldri skáldin smá mótþróa, en þannig gengur það og allt kemur til manns aftur, fegurra en fyrr.

Þá má ég ekki gleyma henni móður minni heitinni, sem kunni Jóhannes úr Kötlum út í eitt, einsog sagt er í dag, og fór mjög oft með ljóðin hans. Ég er með tvær bækur Ljóðasafn I og II sem mamma hefur greinilega eignast jólin 1949. Sama ár og hún gifti sig og bróðir minn fæddist. Inni í bókinni er “útfararblöðungur” fyrir Árna J. Árnason, húsgagnasmíðameistara, prentað í Herbertsprent.
Móðir mín hét Anna Pálmadóttir. Hún og dætur Árna og Guðrúnar voru miklar vinkonur, einkum móðir mín og Steinunn, Steinunn í Brautarholti, einsog við krakkarnir kölluðum hana. Mamma hafði líka mikið samband við Ingu og Sigurð og þeirra fjölskyldu. Heima var oft talað um Guðrúnu á Mánagötunni. Hún var móðursystir þin, ekki rétt?

Þegar ég var að ljúka við skáldsöguna Fótspor á himnum ræddum við mamma um tileinkun og mamma átti hugmyndina að Þegnum þagnarinnar. Fótspor á himnum byggir á föðurætt minni, einsog þú veist. Þú þekktir Bjössa Spánarfara og fleiri. Ljóðið um Þegna þagnar notaði ég í bók um hann og hans fólk. Þetta ljóð er mér afar mikils virði. Í Draumar á jörðu tala ég um að minna á hið gleymda og gefa þögninni mál. Þetta er sami andi. Í safninu hennar mömmu er það á bls. 79, lokaljóðið í Hrimhvíta móðir.“


Þegnar þagnarinnarHve tigin er, Saga, þín sólheiða brá,
– en sumarið óðfluga líður.
Og eitthvað, sem titrar af tregandi þrá,
í tunglskini aldanna bíður.
Er haustblærinn fellur á fjall þitt og hlíð
og flogin er lóan af heiði,
mér óma í rökkrinu angurljóð blíð
frá ókunna hermannsins leiði.

Í dag hef ég kannað hin sannfróðu svið
og séð hina stóru og fáu.
En hvar eru hinir sem lögðu þeim lið?
Hvar leynast þeir mörgu og smáu?
– Hví neitarðu, Saga, að sýna mér allt?
– Ég sakna þess barnslega og hlýja,
sem móðurlaust ók upp í síðkveldið svalt
á silfurreið mánans – til skýja.

Þá sjónir mér lokast að liðinni öld,
ég legg frá mér bókina góðu.
Nú geng ég með ljós yfir landið í kvöld
og leita að gröfunum hljóðu,
er aðeins i hillingum hjartnanna sjást
og hníga að takmarki einu:
að geyma í mold sinni alla þá ást,
sem aldrei var getið að neinu.

Og landið mér opnast sem iðandi haf
af almúga kynslóðum liðnum,
sem sagan ei offraði orði né staf
og eru því vanastar friðnum.
– Þær hópast um sál mína, hægar sem blær,
með hjúfrandi góðleika í fasi.
Hin framliðnu hjartaslög færast mér nær,
og fótatak heyrist í grasi.

Á dulmáli reynslunnar hvísla þær hlýtt
og hallast að niðja síns eyra.
Og allt þetta gamla er aftur sem nýtt
og unun að sjá það og heyra:
Hin smágervu bros yfir sonanna sæng,
hin sviflétta hending í bögu,
hin ljúfsára þrá eftir vorboðans væng,
– nær vissuð þér indælli sögu?

Og sleitulaus elja hins einfalda manns
í annríki fábreyttra daga,
hinn græðandi varmi í handtökum hans,
jafn heilnæmur afdal sem skaga,
hið þögula lífsstríð án frægðar og fjár
í forsælu réttar og laga,
hin dauðtrygga varðstaða ár eftir ár
– er ókunna hermannsins saga.

Þeir rísa hér allir í kveldhúmsins kyrrð
úr köldum og nafnlausum gröfum,
og safnast um ljós mitt sem hljóðleikans hirð,
með höndina á forsmáðum gjöfum.
Hver kynslóð gaf allt, sem hún átti, í sjóð,
og í þeirri von, að það geymdist:
sinn yl, sína harma, sitt hjarta, sitt blóð,
– en hluturinn smælingjans gleymdist.

Ég horfi á öll þessi glóandi gull,
sem glitra í lófunum sáru,
– hve ljóðræn þau eru og leyndardómsfull,
sem leiki sér geisli á báru.
Ég undrast, hve helgasta raunin er rauð
og regnbogalitirnir skærir.
– Mér finnst sem ég skynji hér allan þann auð,
sem andann og sannleikann nærir.

Hve fagurt að dá hina máttugu menn,
sem merkið í vorblámann hófu.
En gott er það líka að líta þá enn,
sem líf upp úr moldinni grófu.
– Við steinhöggvið leiði ég styð mig og spyr,
hvort stórmennið verði ei að þola,
að grasið á þúfunum grói sem fyr,
er grásteinninn hrynur í mola.

Þá hverfur mér allt, bæði í sýn og í sögn,
og svipirnir burt frá mér líða,
og hverfa út í gleymskunnar þrotlausu þögn
sem þegnar, er réttar síns bíða.
Og máninn sér leikur í ljósblárri höll,
– en langt niðri í gröfunum ómar:
Nær kemur sú stund, þegar alþýðan öll
í aldanna sólskini ljómar?
Bragi Ólafsson

Bragi Ólafsson fæddist hóf höfundarferil sinn með útgáfu ljóðabókarinnar Dragsúgs árið 1986. Á þeim tíma var hann kunnur tónlistarmaður og spilaði m.a. með hljómsveitinni Sykurmolunum sem var stofnuð þetta sama ár. Fyrsta skáldsaga Braga, Hvíldardagar, kom út 1999. Hún vakti verulega athygli og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá tilnefningu hlutu líka skáldsögunar Gæludýrin (2001), Sendiherrann (2006) og Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson (2010). Bragi hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2004 fyrir skáldsöguna Samkvæmisleikir. Leikrit Braga fyrir útvarp og svið hafa líka notið mikilla vinsælda, einkum Belgíska Kongó (2004) og Hænuungarnir (2010). Bragi var tilnefndur til Grímuverðlaunanna sem leikskáld ársins fyrir það verk. Skáldsögum Braga hefur verið tekið vel erlendis, einkum hafa Gæludýrin og Sendiherrann gert víðreist og verið vel fagnað.

© Ljósmynd/Eyþór Árnason – Allur réttur áskilinn.


„Ég hafði valið Ferðavísur en sá svo að þær höfðu orðið fyrir valinu hjá Nirði P. Njarðvík. Það ljóð, jafn dimmt og kalt sem það er, finnst mér eitt af þeim fallegri sem ég hef lesið eftir Jóhannes, ekki síst hrynjandin í því.
En í staðinn vel ég ljóð sem er ekki síðra: Andlát úr bókinni Tregaslagur. Taktur ljóðsins hentar efni þess sérlega vel; það er mikil kyrrð yfir því en síðustu tvær línur tveggja fyrstu erindanna eru á einhvern furðulegan hátt svo hversdagslegar og dularfullar í senn, sem á líklega ekki illa við þegar fjallað er um dauðann. Ljóðmálið er ef til vill ekki mjög frumlegt, en eins og eitt rússneskt skáld sagði í kveðjuorðum sínum, þá er dauðinn það ekki heldur. Andlát er virkilega fallegt og kraftmikið ljóð.“


AndlátLádauð móða
leggst að augans
lygna vatni
– það er sagt
að sumum batni.

Ofar skýjum
opnast vegur
allra vega:
andar þú
mín elskulega?

Hún er liðin:
hljóðar öldur
haminn lauga
– dularfullt
er dáið auga.
Böðvar Guðmundsson

Böðvar Guðmundsson er rithöfundur, ljóðskáld, söngtextahöfundur, lagasmiður, gítarleikari, þýðandi, leikskáld og kennari. Eftir hann liggja ljóðabækur, leikrit og skáldsögur. Auk þess hefur Böðvar þýtt fjölda erlendra verka fyrir börn og fullorðna. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Austan Elivoga, kom út árið 1964. Böðvar hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1996 fyrir skáldsöguna Lífsins tré, sjálfstætt framhald Híbýla vindanna. Þessar bækur eru oft saman kallaðar vesturfarasögurnar. Þess má geta til gamans að Böðvar er sonur Guðmundar Böðvarssonar skálds frá Kirkjubóli í Hvítársíðu í Borgarfirði og voru þeir Jóhannes og Guðmundur góðvinir alla tíð.

© Ljósmynd/Elín Elísabet Einarsdóttir.


„Þetta er fallegasta lýsing vorkomunnar sem ég þekki og ég hef hana yfir með sjálfum mér oft á hverju einasta vori.“


Brot…Svo lifna blómin einn ljósan dag
og lóan kvakar í mónum.
Og fjallið roðnar af feginleik
og fikar sig upp úr snjónum.

Og börnin hlæja og hoppa út
með hörpudiskana sína.
– Og einn á skel yfir fjörð ég fer,
að finna vinstúlku mína…