Torfi Geirmundsson
Torfi Geirmundsson er rakarinn á Hlemmi, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, ljóðaunnandi, fimm barna faðir og 8 barna afi. Torfi hefur margoft starfað sem alþjóðlegur dómari í hárskurði og dæmdi m.a. á fyrsta heimsmeistaramóti sem Ísland tók þátt í árið 1986 í Veróna á Ítalíu. Árið 1990 opnaði hann stofuna tége að Grettisgötu 9 og rak hana í tvö ár. Veturinn 1991 starfaði hann við hárgreiðslu við Þjóðleikhúsið. Opnaði síðan Nýju hárstofuna að Laugaveg 44 og var með hana í tvö ár. Á þessum árum sat hann í fjölda nefnda, var formaður fræðslunefndar í háriðnum og tók þátt í að semja drög að námsskrá fyrir meistaraskóla í hársnyrtiiðn og kenndi við meistaranámið í Iðnskólanum í Reykjavík. Árið 1995 hlaut hann viðurkenningu frá The Art & Fashion Group International World Master of the craft í New York. Torfi hefur rekið Hárhornið við Hlemm allt frá 1997 er hann keypti þá stofu af Jörundi Guðmundssyni en þar er búin að vera stofa síðan árið 1962.
„Þegar ég hlustaði á Sóleyjarkvæði í fyrsta skipti þá var ekki aftur snúið, ég varð yfir mig ástfanginn af ljóðlist. Ekki skemmdi fyrir frábær lestur Arnars Jónssonar og tónlist Péturs Pálssonar. Þessi ást við fyrstu kynni varð til þess að ég varð að eignast allt safn Jóhannesar úr Kötlum. Síðan hef ég safnað ljóðabókum og les ljóð mér til andlegrar betrunar. Sóleyjarkvæði eru mér mjög hjartfólgin og skyldulestur hjá mér á hverju ári.
Það er samt nær tíðarandanum núna að rifja upp ljóðið Staðið yfir moldum.
Það er því ljóðið sem ég tel eiga við í dag.“
Staðið yfir moldum
Ég er að koma frá jarðarför
í hinum afskekkta Kirkjugarði Hugsjónanna
þar sem leiðin eru hundaþúfur.
Það var verið að hola niður
karlaumingjanum honum Stóra Sannleik
sem hrökk upp af nýlega:
við trúarafglaparnir fylgdum
en danspresturinn í Hruna kastaði rekunum
og Smálygakórinn söng Allteinsog
– allt eins og Guð væri með í spilinu.