Gyrðir Elíasson
Gyrðir Elíasson er rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkennningar, þar á meðal bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir bók sína, Milli trjánna. Hann er austfirðingur að uppruna en ólst upp á Sauðárkróki. Faðir hans, Elías B. Halldórsson, var myndlistarmaður, og einnig báðir bræður hans, Sigurlaugur Elíasson og Nökkvi Elíasson. Gyrðir gaf út fyrstu ljóðabók sína, Svarthvít axlabönd, árið 1983 og fyrsta skáldsagan, Gangandi íkorni, kom út 1987. Gyrðir þykir góður stílisti og eru bækur hans mjög ljóðrænar. Útgáfa ljóðaþýðinganna „Flautuleikur álengdar“, sem út komu árið 2008 hjá Uppheimum, markaði tuttugu og fimm ára rithöfundarafmæli hans.
© Ljósmynd/Johannes Jansson/Norden Org/Licensed under Creative Commons Attribution 2.5 Denmark.
„Sjödægra hefur lengi verið ein af eftirlætisljóðabókum mínum, og eftirfarandi ljóð úr henni á eins við í dag, og jafnvel enn frekar en þegar það var ort. Ákall þess um að ganga vel um þá jörð sem okkur var gefin og berast ekki á banaspjót hefur aldrei verið tímabærara. Það er erfitt að yrkja ljóð af þessu tagi því slíkt getur hæglega fallið um sjálft sig. En hér helst hinn brýni boðskapur kvæðisins fullkomlega í hendur við tilfinningu og innlifun í áhrifamikilli framsetningu þar sem þuluformið er notað með nýstárlegum hætti.“
Þula frá Týli
Horfumst í augu
fögnum morgunhvítri sólinni
laugum iljar okkar í dögginni
biðjum um frið
leggjum grasið undir vanga okkar
vermum frækornið í lófa okkar
stígum varlega á moldina
biðjum um frið
borum fingrinum í sandinn
sendum vísuna út í vindinn
speglum okkur í hylnum
biðjum um frið
reikum um fjárgöturnar
teljum stjörnurnar
hlustum á silfurbjöllurnar
biðjum um frið
göngum að leiði móður okkar
göngum að leiði föður okkar
minnumst hins liðna
biðjum um frið
tökum í hönd systur okkar
tökum í hönd bróður okkar
lyftum því sem er
biðjum um frið
lítum í vöggu dóttur okkar
lítum í vöggu sonar okkar
elskum hið ókomna
biðjum um frið
horfumst í augu
horfumst í augu gegnum fjarlægðirnar
horfumst í augu gegnum aldirnar
biðjum um frið.