Gústaf Óskarsson
Gústaf Óskarsson kennari og rithöfundur fæddist á Ísafirði árið 1933. Frumsamdar bækur, útgefnar: Gestir á óskastjörnu, saga; Leiftur 1968. Nýi kennarinn, saga; Vestfirska forlagið 2003.
„Fyrstu kynni mín af skáldinu Jóhannesi úr Kötlum voru þau að ég eignaðist tvær bækur þegar ég var átta eða níu ára gamall. Þetta voru bækurnar Jólin koma og Bakkabræður.
Í seinni bókinni batt skáldið sögur um umrædda bræður í vísur á þann aðgengilega hátt sem honum var sérstaklega lagið. Síðan þá hefur mér alla tíð þótt vænt um skáldið, þó að ég hafi lesið ljóð annarra skálda mér til ánægju. Byltingarskáldið höfðaði ekki sérstaklega til mín. En fyrir mörgum árum las ég kvæðið sem Jóhannes orti um föður sinn. Þetta kvæði greip mig strax sterkum tökum. Þó að það virðist vera fremur hranalegt í upphafi þá finnur maður þegar líður á lesturinn að það er fyrst og fremst væntumþykja og mannleg hlýja sem er burðarásinn í þessu kvæði.“
Karl faðir minn
I
Hann pabbi er skrýtinn og sköllóttur karl,
sem á skinnhúfu og tekur í nefið.
Og bleksterkt kaffi og brennivín
er það besta, sem honum er gefið.
Hann þvær sér ekki oft — og aldrei vel,
og er líka sjaldan á fundum.
Það er eins og hann geti ekki að því gert,
hvað óhreint hans skegg er stundum.
Hann snýtti sér síðast á gólfið í gær,
— það var góður og hentugur staður, —
og hnerraði og bað guð að hjálpa sér,
eins og hákristinn dánumaður.
En annars minnist hann aldrei á guð
og er alveg hættur að „lesa“.
— Og Pétur biskup, þann kunna klerk,
hann kallar nú bara Pésa.
Hann lítur nú aldrei í aðra bók
en ærtalið, bögglað og rotið.
Þá setur hann gleraugun gömlu á sitt nef,
og grínir með andakt á krotið.
Hann brýtur ei heilann um gátur né geim,
en gengur að mokstri eða slætti.
— Hann er einfaldur bóndi, sem bítur á jaxl,
og baslar af öllum mætti.
Þó talar hann stundum við sjálfan sig,
eins og sál hans sé af sér gengin,
og hristir þá undrandi höfuðið,
en hversvegna — skilur enginn.
II
Á sumrin er heiðin svo veglynd og væn,
en á vetrum fer lundin að grána. —
Þar tórði þó pabbi í rúm tuttugu ár,
á teignum — þar sunnan við ána.
Með kerlingu sína og krakkana tvo
hann kom þar að galtómu hreysi,
sex ær og tvo hesta og eina kú,
og áhalda- og bjargarleysi.
Hann reisti nú bú á þeim blásna mel,
og byggðinni lá við að hlæja.
— Svo leyndist í þögn það sem lítið var,
því langt var til næstu bæja.
Menn vissu því fátt um það steinharða stríð,
sem hann stóð í, þar langt frammi á heiði.
Það var kannski helst þegar endrum og eins
eitthvað óvanalegt var á seyði.
Því stundum var forsjónar höndin svo hörð,
að hún hrakti hann niður í dalinn.
Og fólkinu birtist hinn kynlegi karl,
sem á klaka og svita var alinn.
En karlinn var ekki að kvarta, — hann hló
og kallaði alla frændur.
— Það var kannski ljótt að leyfa sér það
við lesna og efnaða bændur.
En hann leyfði sér meira — og það var nú það,
að hann þúaði blessaðan prestinn,
og kaupmanninn líka — hann kunni ekki neitt,
sem hjá kónginum prýðir gestinn …
Nú, — árin þau liðu við harðrétti og hjakk,
— það hrukku upp af rollur á vorin.
Þeim fjölgaði samt, svona smátt og smátt,
— hann smalaði og taldi ekki sporin.
Hann þóttist nú fjáður, hann faðir minn,
þegar fimmtíu runnu út í hagann;
því það er svo himneskt að hugsa til þess,
að hafa þó eitthvað í magann.
III
Um morguninn léttur til loftsins hann var
á laugardag fyrir páska.
Við strákarnir köfuðum kaldan snjó
og köstuðum honum í gáska.
Hann pabbi var kominn í kaupstaðarferð,
með klárinn sinn skjótta í taumi.
— En við sáum kaffið og kökurnar
í kitlandi páskadraumi.
Þær mamma og systir mín bökuðu brauð,
— það brunnu við snúðarnir heitir,
ef þær ætluðu að hugsa um þá endurlausn,
sem upprisa frelsarans veitir.
Og allt var svo skínandi skemmtilegt,
það skríkti í spörvunum kviku.
— En rétt eftir hádegið hvessa tók
af hækkandi norðanbliku.
Systir mín kom þá og sagði okkur best
að sækja nú féð í skyndi. —
Við hlupum af stað, eins og hnoðrar tveir,
og hoppuðum undan vindi.
Svo leitum við lengi, en finnum fátt,
því foksnjórinn útsýn hylur.
Og þegar við náum með hópinn heim,
er hálfdimmt — og kominn bylur.
Þá lagði hún systir mín sjálf af stað
út í sortann — í karlmannsbrókum.
Því hríðarnar skeyta ekki um hæversku þá,
sem er heiðruð í tískubókum.
Mér er ungfrúin skyld, — en ég efast um það,
að íslenska konu ég finni,
sem legði út í hæpnari hildarleik
en hún gerði — í þetta sinni.
Mamma var orðfá, en eirðarlaus;
— nú átti hún barn sitt og maka
í greipum hins ógnandi öræfavalds,
sem oft gefur lítið til baka.
Ég fullvissa okkur, sem hötum allt hjal,
og hæðumst að bæninni núna,
að mamma mín hefði orðið hamstola þá,
ef hún hefði ekki bjargast við trúna …
Og systir kom aftur, — en sauðalaus
og svelluð af frostinu og snænum.
Af einskærri hamingju hlógum við öll,
— en það hrikti og marraði í bænum.
Að pabbi á hálsana hefði ekki lagt,
en haldið við bæina og ylinn,
það þótti nú augljóst — og einnig hitt,
að ærnar, þær stæðu af sér bylinn.
Við háttuðum lúin og lögðumst til svefns,
— en ljós var þó haft úti í glugga.
Því þrátt fyrir vonina óðum við öll
í efasemdanna skugga.
IV
Páskasólin var komin á kreik,
en komst ekki inn til manna,
því allt var í kafi og ekkert sást
fyrir ósköpum storms og fanna.
Við lásum að vísu lesturinn,
en lítið var á því að græða,
því aumingja pabbi var ókominn,
og allt var hér stríð og mæða.
Ég reyndi að sækja mér sáluhjálp
í sögunnar helstu kosti.
— En upprisa fannst mér svo ótrúleg
í öðru eins heljarfrosti.
Við strákarnir vorum svo stilltir þann dag,
og störðum á klukkuna í móðu.
Mér svelgdist á kaffinu — og kökurnar
eins og kekkir í hálsinum stóðu.
Sá páskadagur var prísund ein,
— ég sá polla af Jesú blóði.
Og þegar hann loksins var liðinn hjá,
ég lofaði guð í hljóði.
V
Á annan í páskum var hreinviðri hart,
en hríðinni að fullu slotað. —
Með fingrinum hafði ég hest og mann
á héluna gráu krotað.
Svo blés ég og púaði — og gerði loks gat,
og góndi út í mjöllina og bláinn.
— Þá kemur þar einhver að óvörum mér,
og ætlar að líta inn um skjáinn.
Hann ókunna húfu á höfðinu bar,
— það hlaut mig í fyrstunni að blekkja.
Í skrámum og plástrum var andlit hans allt,
svo örðugt var svipinn að þekkja.
Það var pabbi. — Og uppi var fótur og fit
í fátæka kotinu inni.
Hann var kominn þar lifandi og kyssti okkur öll,
og kastaði úlpunni sinni.
Við störðum og spurðum hann spjörunum úr,
en sparsamur var hann á fréttir.
— Þeim leiðist allt mas, sem í langvinnt stríð
upp á líf eða dauða eru settir.
En smám saman kom upp úr kafinu þó,
að karlfuglinn ætlað sér hafði
að komast á laugardagskvöldið heim,
— en kafandi ófærðin tafði.
Svo skall á þá hríðin, — hann villtist og varð
þá varning sinn eftir að skilja,
því fönnin var sumstaðar freklega í kvið,
og framundan — endalaus þilja.
Þeir köfuðu, köfuðu myrkur og mjöll,
— á magnþrungna iðuna glóði.
Þeir hröpuðu í gljúfur — og hesturinn fann,
að húsbóndinn veltist í blóði.
Þá guggnaði Skjóni, — en áfram hélt einn
hinn örþreytti kotungur fjalla.
Hann þraukaði, kjagaði, þrammaði, skreið
og þreifaði — nóttina alla.
Loks náði hann sjónum og síðan að bæ,
— út í sortann var húfan þá fokin,
og höfuðið hruflað og bólgið og bert,
og blóðhlaupin augnalokin …
Og nú var hann kominn í kotið sitt heim,
með klárinn sinn aftur í taumi,
og hélt, að hann mætti nú hvíla sig vel,
og hrista af sér lúann í draumi.
En þá kemur fregnin svo hikandi og hæg:
— að helminginn vanti af ánum.
Þá sló hann við pontunni og hljóp o´n í hús,
með harðsperru og kalinn á tánum.
VI
Með prik sitt í hendi hélt pabbi af stað,
og passaði að kalla á hundinn.
Það andaði á sunnan, svo vorlegra var
í veðri — og dýrmæt hver stundin.
Hann leitaði lengi um hæðir og hvöpp,
og horfði o´n í stormbarinn snjóinn.
Svo rak hann sig loksins á slitrótta slóð,
og slóðin lá beint út í — sjóinn.
Hann stóð þarna á ströndinni og horfði´út á haf,
svo hrukkóttur, sveittur og lúinn,
því þar lá nú grafið hans þögula strit,
— „og þar með var draumurinn búinn“.
VII
Það fréttist um sveitina bæ frá bæ,
og barst út með símalínum,
að karlinn á heiðinni hefði eitthvað misst
af horuðu rollunum sínum.
Og fjölmargir aumkuðu ógæfu hans,
þó ýmislegt saman þeir teldu,
sem hugsandi fólki gat hæglega sýnt,
að hér var ekki allt með felldu.
Að ota nú skepnunum út í þann snjó,
með aðgæslu svikulla krakka,
æ, hvernig gat annað eins heppnast þann dag
— og hann þarna sjálfur að flakka!
En þá spurði grandlaust og guðhrætt fólk
á göfugum sveitarfundi,
hvort það væri ekki gustuk að gef´onum ær,
fyrst hann glataði sínu pundi.
Menn brutu heilann um hjálpræði og náð
og hjöluðu í kærleika um þetta.
En samt urðu þeir ekki sáttir á eitt,
— það var seinlegt að finna það rétta.
Það bjargaði pabba, að prestssonur einn,
sem prangaði á döðlum og fíkjum,
og vissi, að menn geta minna en guð,
— var á móti öllum gjöfum og sníkjum.
Hann sagði, að það væri hreinasta happ,
sem að höndum þess manns hefði borið,
því — ef rollurnar hefðu ekki í hafinu lent,
þá hefðu þær sálast um vorið.
Menn þögnuðu — og sáu, að þetta var satt,
því það var víst algengt til fjalla,
að heylítið yrði, þó vetraði vel,
— og þá vonlaust með hjálpfýsi alla.
Og guðsbörnin samþykktu að gefa ekki neitt
og glöddust af hjarta þar inni.
— Þá var pabbi að eltast við allt það, sem hann
átti eftir af hjörðinni sinni.
VIII
Það tekur í næmustu taugarnar manns
að tefla við fátækt og háska.
— Og oftar komst pabbi í ósvikna raun
en á aðfararnótt fyrir páska.
Að telja það allt, sem varð hlutskipti hans
í hríðum og nístandi frosti,
— það hrykki víst langt til í heila bók,
eða hálfa, að minnsta kosti.
En útlagans saga er svo einhliða og snauð,
og ævinnar þættir svo líkir,
að þeim finnst það allt saman ómerkilegt,
sem eru af skáldsögum ríkir.
Hvern langar að vita hvað örbirgðin er
á íslensku harðindavori,
þegar hafísinn liggur að höfnum lands
og hundarnir lifa á gori?
Hvern langar að vita hvað vonleysið er,
þegar vetrar og fýkur í skjólin,
og reikningur lokast, svo ekkert fæst út,
nema ónotin — rétt fyrir jólin?
Nei, við skulum reyna að hafa ekki hátt,
því hér er víst maður á glugga.
En pabbi var vanur við lítið ljós;
hann lifði eins og burkninn — í skugga.
Ég gat þó ekki að því gert, að mér fannst,
— þó að gull væri lítið í mundum, —
að kotungsleg seiglan í kögglum hans
væri kónginum samboðin — stundum.
Ég veit, að hann var ekki eins þrifinn og þeir,
sem þurrka sér oftast um stútinn,
og snyrta sig alla og snúa sitt skegg,
og snýta sér alltaf í klútinn.
Við reynum að tolla í tískunni nú,
og tölum um karlana í gáska.
— En hvað hefði nýmóðins nákvæmnin gert,
hérna um nóttina fyrir páska?
IX
Hann pabbi er gáta, svo gömul og þung,
— jafnvel guði eru vegir hans duldir.
Hann er ennþá að basla í einlægum hug,
en á ekkert til — nema skuldir.
Frá einokun danskri hann arfinn nú fær
í ævinnar þrældómsstraffi.
Þessi vesala ögn, sem hann vinnur sér inn,
fer í vexti og tóbak og kaffi.
Þetta líf hefur veitt honum skorinn skammt,
— hans skegg er nú tekið að grána.
Ég hygg, að hann sjái ekki höllina enn,
sem er handan við sól og mána.
Því hann lítur aldrei í bók eða blað,
— það borgar ei skuldirnar háu.
Og þó er það eitthvað, sem æpir á hjálp,
í augunum silfurgráu.
X
Í lífi hvers smælingja ljósblettir sjást
og líka hjá pabba — eins og gengur.
Eitt sinn lenti hjá honum „eitt lítið blóm“,
— það var ljóshærður ársgamall drengur.
Þessi svolitli snáði var sonur minn,
— hann sótti nú löngum til afa.
Og gamli maðurinn sá ekki sól,
þegar sveinninn fór við hann að skrafa.
Í hálft annað ár þessi hamingja stóð,
— það var hátíð í kotinu ´ans pabba.
Hann mildari höndum um meisana fór
og tók mýkra á hverjum stabba.
En svo kemur oftast nær skúr eftir skin,
— þeir skildu í blíðunni um daginn,
og héldu þá samstundis sinn í hvora´átt,
— það sveif eins og skuggi yfir bæinn.
Þá guggnaði pabbi. — Hann grét eins og barn
og glókollinn faðmaði í skyndi.
— Það var eins og ævinnar örðuga raun
þá ofan um vangana hryndi.
Og táruga, óhreina andlitið hans
straukst aftur og aftur við drenginn.
Hann hlaut þar að kveðja sinn helgidóm,
en hversvegna — skilur enginn.