Guðmundur Páll Ólafsson
Guðmundur Páll Ólafsson fæddist árið 1941 á Húsavík. Hann stundaði háskólanám og ýmis störf í Bandaríkjunum á árunum milli 1960 og 66, lærði meðal annars köfun, myndlist og líffræði og lauk B.Sc gráðu frá Ohio State University. Frá 1966 til 68 var hann skólastjóri og kennari við Barna- og miðskóla Blönduóss þar sem hann setti á fót fyrstu tungumálastofu landsins en frá 1968-70 var hann líffræðikennari við Menntaskólann á Akureyri. Á árunum 1970-72 lærði hann ljósmyndun við Stockholms Fotografiska Skola og stundaði doktorsnám í sjávarlíffræði við Stokkhólmsháskóla á árunum 1971-74 ásamt rannsóknum á fjörulífi við Flatey á Breiðafirði. Árin 1970-71 samdi Guðmundur Páll námsefnið Líf og umhverfi, ætlað 12 ára nemendum grunnskóla, sem unnið var á vegum Menntamálaráðuneytis og er fyrsti vísirinn að seinni stórvirkjum hans, tilraun til að sameina náttúrufræði í eina heilsteypta sýn. Á árunum 1972-76 starfaði hann í Flatey á Breiðafirði þar sem hann var búsettur, var skólastjóri og kennari, stundaði náttúru- og heimildaljósmyndun og kvikmyndagerð um þúsund ára sambúð manns og náttúru í Flateyjarhreppi, Næsta áratuginn starfaði hann jöfnum höndum við köfun, hönnun bóka, trésmíðar, fiskveiðar og teikningar, meðal annars í rit Lúðvíks Kristjánssonar Íslenzkir sjávarhættir I-IV 1984-85 stundaði Guðmundur Páll svo listnám við Columbus College of Art and Design í Ohio í Bandaríkjunum, en eftir 1985 starfaði hann samfellt sem rithöfundur, náttúrufræðingur, náttúruljósmyndari, virkur náttúruverndari og fyrirlesari heima og erlendis. Guðmundur Páll lést árið 2012.
© Ljósmynd/Ingibjörg Snædal, Þjórsárjökli 2006.
Bæn (síðasta erindið)
Náttúra, vagga alls og einnig gröf
yngdu mig, vertu sálar minnar hlíf,
gefðu mér aftur gleði mína og söng,
gefðu mér aftur trúna á þetta líf.