Silja Aðalsteinsdóttir
Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur, þýðandi og bókmenntafræðingur er þekkt nafn í íslenskum bókmenntaheimi. Síðustu árin hefur Silja starfað sem ritstjóri hjá Forlaginu.
„Eitt eftirlætisljóð eftir Jóhannes úr Kötlum, það er erfitt. Fyrsta sem mér datt í hug var Sóleyjarkvæði, en það flokkast ekki undir “eitt ljóð”. Eftir margra daga árangurslausa yfirlegu yfir „fullorðinsbókunum“ kom ég að níunda bindi ritsafnsins – sem ég sá sjálf um útgáfu á fyrir 23 árum, 1984. Þá hugsaði ég með mér: Auðvitað! Það eru ekki síst yndisleg barnaljóð Jóhannesar sem halda nafni hans lifandi með nýjum og nýjum kynslóðum; ég, gamli barnabókaspesíalistinn vel vitaskuld eitt ljóð handa börnum.
En ekki reyndist það sérstaklega auðvelt heldur. Mörgum uppáhöldum fletti ég framhjá af því mér fannst þau helst til löng í þetta hólf á netinu, til dæmis „Krummasögu“ og „Sögu af Suðurnesjum“, en vísurnar um Ingu Dóru og fífilinn voru alveg passlegar.
Ég komst að því við útgáfuna á níunda bindinu að Jóhannes fór mjög snemma að þjálfa sig í yrkingum – enda varð hann ungur mesti forkur að ríma, eins og hann orðaði það. Ellefu ára gamall orti hann þessa vísu:
Gott er fram til fjalla,
friður, spekt og ró,
en hátt á hamraskalla
þau hulin eru snjó,
á köldum vetrartíma
þá klakinn býr í mold,
og hestar inni híma
á henni Ísafold.
Meðan við höldum jól á þessu landi verður Jóhannes hluti af lífi okkar. Og þeir sem læra jólasveinavísurnar og vísurnar um Grýlu og jólaköttinn á unga aldri munu aldrei vanrækja íslenskan menningararf.
Þá er það Inga Dóra og fífillinn. Af vísunum um þau má margan lærdóm draga. Til dæmis þann að ekki er alltaf að marka þá sem segjast vera reiðubúnir að deyja fyrir mann. Líka þann lærdóm að lofa ekki of miklu. Sá sem loforðið fær gæti tekið mann á orðinu!“
Vísurnar um fífilinn
Inga Dóra fífil fann í túni
fallegur hann var sá gulli búni
litli kvennaljóminn
litli brekkusóminn
sæl eru blómin sæl eru dalablómin.
Og á koll hans lófann blítt hún lagði
lítill fífill brosti þá og sagði:
fegri ert þú en Freyja
fyrir þig ó meyja
vil ég deyja vil ég glaður deyja.
Innan stundar fann hann fingur hvíta
færast niður legginn sinn og slíta
ó þú Inga Dóra
ó þú veröld stóra
ég vil tóra ég vil heldur tóra.