Jónína Óskarsdóttir
Jónína er bókavörður í Ársafni Borgarbókasafns.
„Jesús Maríuson er ljóð sem ég hef alltaf haldið mikið uppá. Það höfðaði sterkt til mín þegar ég var um tvítugt, á þeim árum þegar fáir vildu kannast við trúarþörfina, og nú þrjátíu árum síðar er tilfinningin enn á sínum stað. Mér þykir þetta svo gott ljóð og þá á ég við að í því er einhvernveginn svo mikil trúarvissa sem umvefur hjartað. Þetta ljóð gefur efnishyggju og hroka langt nef og það sem mér þótti best; var að vita af sósíalista sem orti svona.“
Jesús Maríuson
Jesús sonur Maríu er bezti bróðir minn:
hann býr í hjarta mínu
— þar kveikir hann í rökkrinu rauða margt eitt sinn
á reykelsinu sínu.
Og jafnan þegar allir hafa yfirgefið mig
og enginn vill mig hugga
þá birtist hann sem stjarna í austri og sýnir sig
á sálar minnar glugga.
Og þó hef ég ei beitt slíkum brögðum nokkurn mann:
ég hef brennt á vör hans kossinn
og hrækt síðan á nekt hans og nítt og slegið hann
og neglt hann upp á krossinn.
En hvað svo sem ég geri er hann mín eina hlíf
er hrynur neðsta þrepið
því hvað oft sem hann deyr þá er eftir eitthvert líf
sem enginn getur drepið.
Og Jesús sonur Maríu mætir oss eitt kvöld
sem mannlegleikans kraftur:
æ vertu ekki að grafa ‘onum gröf mín blinda öld
— hann gengur sífellt aftur.