Eysteinn Þorvaldsson
Eysteinn Þorvaldsson hefur kynnt sér manna best módernismann í íslenskri ljóðagerð og skrifaði um það efni bókina Atómskáldin sem kom út 1980. Jafnframt hefur hann fylgst grannt með þeim ungu skáldum sem síðar komu fram á sjónarsviðið undir nýjum straumum og stefnum. Þá hefur Eysteinn átt stóran þátt í að kynna Íslendingum ýmis úrvalsverk evrópskra bókmennta með því að þýða, í samvinnu við Ástráð son sinn, verk skálda eins og Franz Kafka og Max Frisch. Drjúgur hluti af starfsævi Eysteins var helgaður bókmenntakennslu við Kennaraháskólann þar sem fræðistörfin snertu bæði sjálfan skáldskapinn og kennslu hans og kynningu. Um það efni skrifaði hann 1988 bókina Ljóðalærdómur, athugun á skólaljóðum handa skyldunámsskólum 1901–1979. Í tilefni af sjötugsafmæli Eysteins sumarið 2002 kom út bókin Ljóðaþing sem hefur að geyma greinar, ritgerðir og erindi hans um íslenska ljóðagerð á 20. öld. Eysteinn hefur gefið út mörg úrvalsrit til lestrar í skólum og telst meðal frumkvöðla á því sviði.
„Mörg af ljóðum Jóhannesar úr Kötlum hafa verið förunautar mínir allar götur frá unglingsárum. Eitt er samt það ljóð sem talar til mín oftar en önnur við margskonar aðstæður í amstri daganna og á góðum stundum. Í skýrleika sínum og einlægni hefur það tekið sér bólfestu í hjartastað. Í einfaldleika sínum verður það leiðarljós þess sem leitar að lífssannindum og hamingju. Þetta ljóð heitir líka Ljóð um hamingjuna og það fjallar um hina jarðnesku hamingju sem er sérhverjum náttúruunnanda kær. Hamingjuna er ekki hægt að kaupa í kapphlaupinu um neyslukramið; hún er ekki til sölu. En við getum öðlast hana ókeypis, t.d. í fylgd Jónasar Hallgrímssonar efst á Arnarvatnshæðum. Við verðum að finna hana sjálf. Allir óska sér hamingju en flestir leita langt yfir skammt og fá aldrei nóg í stað þess að yrkja jörðina og elska. Það er boðskapur þessa dýra ljóðs.“
Ljóð um hamingjuna
Hamingjan er ekki til sölu:
fljúgið of heim allan
gangið búð úr búð
– engin hamingja
Hamingjan er það ódýrasta sem til er:
kostar ekkert
– það dýrasta:
kostar allt.
Bíðið ekki hamingjunnar:
hún kemur ekki af sjálfu sér
– eltið hana ekki:
hún flýr.
Hamingjan er alstaðar og hvergi:
í ofurlítilli tó undir norðurásnum
á hafi úti
við þitt brjóst.
Þetta er hamingjan:
að yrkja jörðina
að yrkja ljóðið
og elska jörðina og ljóðið.