Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir er rithöfundur, blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi.

„Mér þykir ekki erfitt að velja eitt ljóð Jóhannesar úr mörgum ægiflottum. Ástæðan er sú að fyrst þegar ég las Kalt stríð þá vakti það einhvern magnaðan byltingaranda í brjósti mér. „Þetta mórauða skólp sem hnígur þyngslalega um æðar vorar”…„Ó, hvað þetta er dæmalaust lýsandi fyrir doðann sem einkennir okkur flest”, hugsaði ég þá og ég er enn að melta þetta æðisgengna ljóð. Alltaf þegar ég les það, þá finnst mér ferlega gaman að vera sósíalisti, en nútíminn hefur einhvern veginn komið því þannig fyrir að sósíalistar hljóti að vera liðleskjur og lúserar. Sumsé: Þegar mér líður eins og enginn geti skilið mig, þá er ég guðslifandifegin að geta hallað höfði mínu að þessu ljóði.“

Kalt stríð

Þetta er ekki blóð.

Þetta er ekki sú sanna uppspretta hjartans
þetta er ekki straumfall ástarinnar
þetta er ekki lækurinn
ekki áin
ekki fljótið
ekki hafsjórinn
sem litar líf vort rautt.

Þetta mórauða skólp sem hnígur þyngslalega um æðar vorar
það er ekki mannsblóð
ekki hinn skapandi lífsflaumur kynslóðanna
heldur tóbak og kaffi og brennivín.

Þurfum vér þá svipuhögg í andlitið
þarf að brenna land vort
svívirða konur vorar
henda börn vor á byssustingjum
til þess að blóð vort verði rautt og heitt
til þess að blóð vort verði lifandi
til þess að blóð vort verði ósvikið mannsblóð?

Verður blóð vort þá fyrst rautt og heitt og lifandi
þegar vér liggjum helsærðir í valnum
og það fossar niður í rúst vorrar glötuðu ættjarðar?