Þorsteinn frá Hamri

Þorsteinn frá Hamri (f. 1938) hefur fyrir löngu tryggt sér sess meðal fremstu ljóðskálda sem ort hafa á íslenska tungu. Allt frá því hann gaf út sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli árið 1958, aðeins tvítugur að aldri, hefur hann mótað og fágað ljóðstíl sinn, og oft er talið að honum hafi tekist sérlega vel að bræða saman hina gömlu ljóðahefð og stílbrögð nýrrar aldar, ljóðmál módernismans. Þorsteinn hefur einnig skrifað skáldsögur og sagnaþætti og eftir hann liggja margar þýðingar. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi. Þá var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1995 fyrir Það talar í trjánum og 1999 fyrir Meðan þú vaktir. Þorsteinn fékk verðlaun á degi íslenskrar tungu árið 2009.

„Eftirlætisljóð á ég mér mörg eftir Jóhannes úr Kötlum og geri ekki upp á milli þeirra, en þessa stundina er mér í minni skörulegur flutningur skáldsins sjálfs á tveimur ljóðum. Þetta var á samkomu sem efnt var til honum til heiðurs þegar hann varð sextugur. Þessi ljóð voru „Ég finn ég verð” og „Maður hver”. Þau birtust síðan bæði í Tregaslag. Ljóðinu „Maður hver”, sem hér verður fyrir valinu, er þar ásamt fleiri ágætisljóðum valinn staður í ljóðaflokknum Stef úr glataðri bók.“

Maður hver

Maður hver er mold
hljóðlega flýgur nú hrafn yfir skóga
sáran þýtur í sefi

hnígur senn vort hold
maðkarnir nálgast á báða bóga
eina vonin er efi.

Skáld er skammlíft mjög
orð þess sem gári á öreyðu þagnar
tærist og deyr af trega

leysast upp vor lög
reynt er á þol hverrar einustu agnar
ferst hið forgengilega.