Þorgrímur Gestsson

Þorgrímur Gestsson er blaðamaður og rithöfundur og hefur starfað sjálfstætt undanfarin 15 ár. Hann hefur á þeim tíma sent frá sér nokkrar bækur sagnfræðilegs eðlis. Í bókinni Ferð um fornar sögur (2003) blandar hann saman sagnfræði og blaðamennsku og segir frá för sinni um fornsagnaslóðir Noregs. Hann vinnur nú að sambærilegri bók um Orkneyjar og Hjaltland.

„Ljóð Jóhannesar úr Kötlum eru órjúfanlegur hluti af uppvexti mínum. Einna minnisstæðast er þó Sóleyjarkvæði, ekki síst vegna þeirra þriggja hljómplatna með flutningi þess ljóðs, sem gefnar hafa verið út. Því hljómaði þetta ljóð oft í flutningi góðs listafólks á þeim tíma þegar ég reyndi að átta mig á hinum pólitíska veruleika samtímans. Ég vel annan hluta Sóleyjarkvæðis, ekki síst vegna þess að mér finnst skáldið tala þar til samtíma okkar sem nú lifum, ekki síður en síns eigin.“

Sóleyjarkvæði

2

Elskhuginn blundar alla stund,
en fölnar fljóð
– íturri voru forðum
hans ævintýrin góð:
eitt sinn hljóp sá riddarinn prúði
yfir rínarflóð.

Eitt sinn reið hann hvítum jó
um víða völlu,
sveiflaði gambanteini,
snart kristalsbjöllu
– hringdi þá hvelfing skær
og himinninn svaraði öllu.

Lífið hló við dauðanum,
dauðinn við lífinu hló,
allt sem dó það lifnaði aftur
um leið og það dó
– svo fagur
var slagurinn sem hann sló.

Söng hann til frelsis sína þjóð
og djarft var sporið,
af vindum loftsins var hans ljóð
og vængjum fuglsins borið,
það kom – það kom
eins og vorið.

Fló þá úr vestri finngálkn eitt,
fauk úr nösum glóð,
digran bar í kló
dala falan sjóð
– þoldi ekki að heyra yfir hafið
þau sólarljóð.

Sáldraði yfir tóra þóra
silfurpeningum fínum,
gaut að riddarans borg
glórum sínum:
látið þennan þagna
– þetta er guðlast í eyrum mínum.

Eigi vildu þeir tórar þórar
brúðgumann slá í hel
– ungir höfðu þeir leikið sér við hann
að legg og skel,
enda aðgátin hollust
ef allt átti að fara vel.

Þó himinsins dýra málmi
þeir hlytu að fagna,
gengu þeir sig til einnar nornar,
skelkaðir sannast sagna,
og báðu hana að leggja sér lið
og láta söngvarann þagna.

Lobba hló og hljóp til borgar
hélugrá,
læddist inn fyrir sparlök blá
loðnum skónum á
og stakk honum svefnþorn
– hann stundi og féll í dá.

Reimt var í svörtum skógi
er rann hún til baka
– súgaði í eyrum svikaranna:
sú mun vaka
er yður kemur á klaka,
á kaldan klaka.