Þóra Elfa Björnsson

Þóra Elfa Björnsson er framhaldsskólakennari og hefur starfað við kennslu í bókiðngreinum frá árinu 1983. Þóra hefur einnig ritað bækur um draumaráðningar, fengist við þýðingar á barna- og fullorðinsbókum og ritað ýmsar greinar, ljóð og viðtöl.

„Ljóðið Umskiptingur lýsir græðgi, ágirnd og sjálfselsku sem sést ekki fyrir en hneppir allt og alla í álög. Ljóðið er lýsing á einum manni en mér finnst hann vera persónugerfingur þess kerfis og allra þeirra innan þess sem ekki hirða um einstaklinginn eða samfélagið heldur aðeins eigin hag.“

Umskiptingur

Örðug gerist nú hugraun hans,
hæstráðandans til sjós og lands,
– ekki er honum rótt.
Hví er sál þessa mikla manns
myrk eins og vetrarnótt?

Öðruvísi það áður var
andrúmsloftið, sem ríkti þar.
– Mér það minnisstætt er,
hve hann ungur af öllum bar
öðrum á landi hér.

Öllum, sem þráðu æskumóð,
æðra takmark og hreinna blóð,
virtist sem væri hann
sendur til bjargar sinni þjóð,
– sáu þar foringjann.

Þjóðin fól honum fé og völd,
– fyrri kynslóða syndagjöld
greiddi hann leynt og ljóst.
Bjartir neistar af nýrri öld
náðu inn í sérhvert brjóst.

Réttlætinu hann ákaft ann,
– enginn mælti jafndjarft sem hann,
enginn rauðara reit.
Sannleikans eldur einatt brann
í augum, hvert sem hann leit.

Óralangt gat hann arm sinn teygt,
umsvifalaust í duftið beygt
fanntanna fjörráð myrk.
Allt, sem var rotið, falskt og feigt,
flýði hans sálarstyrk.

Þannig lengi við stjórn hann stóð,
stormana klauf og flauminn óð,
glaður og hjartahlýr.
Leiftur flugu um land og þjóð,
ljómuðu grös og dýr.

Svo var það eitt sinn síðla dags:
sjálfselskunnar og þjóðarhags
velja á milli varð.
Hvernig væri að leita lags,
– löghelga sjálfs sín arð?

Innri barátta hörð var háð:
Hví skyldi ei treysta á drottins náð,
ef hann ósanngjarn var?
Og – þegar betur að var gáð –
eitthvað honum þó bar!

Hafði ´ann ei lagt fram líf og blóð,
lyft upp úr vesöld heilli þjóð?
– Í borðið hann bleikur sló.
Á þeirri stund hans æskuglóð
út í brjóstinu dó.

Upp frá því snérist eðli hans
öndvert gegn málstað fólks og lands,
– steingervings komst á stig.
Upp frá því sál hins mikla manns
miðaði allt við sig.

Lýðinn tók hann að leika grátt,
lofaði mörgu, efndi fátt,
– skiptist á harka og hik.
Hugsjónir allar smátt og smátt
smækkuðu – og urðu svik.

Loksins umhverfðist allt hans skap,
– augun minntu á stjörnuhrap,
taugarnar fundu ei frið,
óskirnar féllu eins og krap,
alltaf niður á við.

Nú er það af, sem áður var:
enga fær hvíld um næturnar
hataður harðstjórinn,
– án þess að bíða bæturnar
berst hann við skuggann sinn.

Svipir þess, sem hann eitt sinn ann,
yfirskyggja hinn þreytta mann,
– eitra hans anda og blóð,
þar til loksins að hittir hann
hefndin frá blekktri þjóð.