Skafti Þ. Halldórsson

Skafti Þ. Halldórsson hefur um árabil verið bókmenntagagnrýnandi hjá Morgunblaðinu.

„Kvæðið Hellisbúi er búið mörgum þeim eigindum skáldskapar sem einkenndu Jóhannes úr Kötlum. Það er í raun augnabliksmynd í anda nútímaljóðs. Höfundurinn skilur okkur eftir með mynd til að túlka. Engar útskýringar eða málalengingar. En ljóðmyndin vísar í ótal áttir. Hún er eins konar nýgerving eða táknsaga byggð á þjóðlegum grunni. Ljóðsjálfið dregur upp mynd af sér sem hellisbúa og skógarmanni á Sjödægru. Það gustar um hellinn en einungis logar á fífustöng. Ískaldir dropar úr klakaspjótum falla á hann, koma honum í koll, „-allt kemur mér í koll”. Skoða má kvæðið sem vísun í goðsöguna um örlög goðsagnapersónunnar Loka en dropar úr eiturormi féllu á enni hans. En í þessu tilviki eru droparnir kaldir og vísa á þann hátt einnig í Kalda stríðið. En skógarmaðurinn er aukinheldur útlagi í tilvistarlegum skilningi. Kvæðið er því óvenjusterk myndbygging reist á þjóðlegum minnum og Edduminnum. En það túlkar einnig á áhrifamikinn hátt tilvistarangist manna á tímum Kalda stríðsins og atómógnar þess þar sem lífið virtist hanga á bláþræði: „líf mitt blaktir / á einni mjórri fífustöng.“

Hellisbúi

Innst í mínum helli
logar á fífustöng –
súgurinn leikur á stráfiðlu
við opna gátt.

Í steinrjáfrinu hanga
ljósbrotin klakaspjót:
hníga á odda fram
ískaldir dropar

falla falla
niður niður
koma mér í koll
– allt kemur mér í koll.

Ég er skógarmaðurinn
á Sjödægru:
líf mitt blaktir
á einni mjórri fífustöng