Sigurður A. Magnússon

Sigurður A. Magnússon hefur skrifað fjölda bóka á íslensku og ensku, þar á meðal skáldsögur, ljóð, leikrit, ferðasögur, endurminningabækur, greinasöfn og bækur um íslenska hestinn. Fyrsta bók hans var ferðasagan Grískir reisudagar sem kom út 1953. Sigurður hefur unnið að kynningu íslenskra bókmennta erlendis og meðal annars ritstýrt sýnisbókum og þýtt ljóð íslenskra skálda. Hann hefur einnig þýtt mikið úr dönsku, ensku, grísku og þýsku, þar á meðal verk eftir H.C. Andersen, Bertolt Brecht, Gíorgos Seferis, Pandelis Prevalakis, Walt Whitman, James Joyce, Nagíb Mahfúz, Kazuo Ishiguro, John Fowles og Ernest Hemingway.

© Ljósmynd/Hörður Sveinsson – Allur réttur áskilinn.

„Ástæða þess að ég valdi Stjörnufák er ofureinföld; Einsog fram kemur í tveimur fyrstu bindum uppvaxtarsögunnar 1979 og 1981, voru hestar föður míns meginorsök þess, að fátæktarbasl bernskuáranna varð mér þolanlegt. Hestarnir brugðu ljóma á tilveruna og voru mér huggun þegar syrti í álinn, enda tengdist ég nokkrum þeirra sterkari tilfinningaböndum en mínum eigin systkinum. Hinsvegar var einn skuggi bernskuáranna sérlega nístandi og helltist aftur yfir mig þegar ég las Stjörnufák á fullorðinsárum. Faðir minn var einkar glöggur á tennur hesta, átti auðvelt með að lesa aldur þeirra með því að skoða uppí þá. Garðar Gíslason stórkaupmaður hafði milligöngu um að selja hesta í kolanámur í Skotlandi og víðar. Hann treysti ekki Hannesi dýralækni til að skera úr um aldur hesta, sem flytja átti úr landi, og fékk föður minn til þess verkefnis, þó það væri honum óljúft, en hann fékk vel greitt fyrir það. Þeir Garðar þekktust frá gamalli tíð. Ég fékk bara einusinni að fara með pabba niðrað höfn, þegar verið var að hífa hrossin um borð, og varð þá fyrir áfalli sem lengi sagði til sín. Síðan las ég Stjörnufák, og vakti sá lestur bæði mína gömlu hrossaást og þann djúpa sársauka sem gagntók mig þegar ég fylgdist með stóðinu, sem dæmt var hæft til útflutnings og þrælkunar í erlendum námum. Fá ljóð, sem ég hef lesið, hafa haft jafndjúp og varanleg áhrif á mig og þetta snilldarljóð Jóhannesar.“

Stjörnufákur

Vornótt eina, er heiðblær hristi
himindögg af bjarkarkvisti,
og á fölva fjallatinda
færðist bjarmi af morgunsól,
langt í dalsins friði frammi
fæddist hann – í grænum hvammi.
Þar við upptök austurlinda
átti hann sitt fyrsta ból.

Og í logni ljósrar nætur
lítill hestur brölti á fætur,
– enn eitt lífsins undur skeði
inn við hjarta þessa lands.
Hróðugt gnegg þá heyrðist gjalla
hátt á milli blárra fjalla.
Hóf þar flug hin frjálsa gleði
fífilbleikrar móður hans.

Létt og mjúkt hann laut að henni,
ljósrauður, með stjörnu í enni,
ungrar þrár og saklauss blóðs.
Þyrstur í sopa volgann var hann,
– votan munn að spena bar hann.
Fjallahryssan kvika og keika
kumraði slitur vögguljóðs.

Síðan út í sumardaginn,
sólskinið og vestanblæinn,
gekk hann sæll með sinni móður,
– sýndi snemma hreinan gang.
Enginn vissi folald fegra,
fóthvatara og yndislegra,
held´r en þá hann hýr og góður
hljóp í dalsins mjúka fang.

Ungur tók hann afarspretti,
upp í háa loft þá skvetti
sínum skæða afturenda,
– árás hver var leiftursnögg.
Hátt hann sló og hvergi smeykur,
– harla djarfur var sá leikur,
er í galsa lét hann lenda
á ljóssins geislum bylmingshögg.

Augun mildu minntu á vorið,
mjúkum dansi líktist sporið,
– það var eitthvað í hans fasi
ilmi blómsins runnið frá.
Sérhvert óspillt auga festi
ást á þessum litla hesti,
þegar hann svaf í grænu grasi
grandlaus sinni móður hjá.

Gott var lífið: ljúfir dagar,
lækjarniður, sumarhagar.
Stjörnufákur ör og ungur
óx og gladdist skefjalaust.
Fór um kosti þó að þrengjast,
þegar nætur tóku að lengjast,
himinn blár varð brúnaþungur,
bliknuð stráin, – komið haust.

Hrörnun jarðar hafði að spotti
hálfur máni og kaldan glotti.
Brá þá mildu angri í auga
ærslabelgsins frá í vor.
Bar úr fjarska fnæs og stunur
furðu blandinn dauðagrunur.
Hélufexta hófadrauga
húmið rak um kleif og skor.

Vetur gekk í garð með ergi,
grimmdarkulda og snjóafergi.
Ófær gerðist áð´r en varði
útigangsins dapra slóð.
Hurfu í fylgsni hvíta valsins
hinstu mosatætlur dalsins.
Undir háu heiðarbarði
hímdi klungrað fjallastóð.

Yfir gengu gusur tíðar
glórulausrar norðanhríðar.
Orpnir klakar ennistoppar
eyrnasnepla lömdust við.
Fjarri veröld húss og heyja
hungurgangan varð að þreyja.
Litlir og stórir loðnir kroppar
látlaust skulfu hlið við hlið.

Eins og hnoðri, óttasleginn,
öllu skjóli hjartans feginn,
stóð und bringu stoltrar móður
stjörnufákur, – vorsins son.
Þannig var þá þessi heimur:
þjáninganna og dauðans geimur,
þar sem stormsins andi óður
ögraði sífellt hverri von.

Tíminn leið – og harðar, harðar
hungrið svarf að skepnum jarðar.
Fjallahryssan fífilbleika
flýði loks sitt kæra barn.
Hreggið saup hún særð og lotin:
senn var lindin hvíta þrotin.
Tærð og sjúk hún tók að reika
til og frá um dalsins hjarn.

Hnoðrin elti, uns hann náði
uppsprettunni sem hann þráði,
greip um júgrið taki trylltu,
teygaði sæta mjólkurveig.
Gjöful móðir gat ei meira,
– glefsaði snöggt í sonareyra
og með hneggi æðisvilltu
örend nið´r í snjóinn hneig.

Einn hann stóð í auðnarríki
yfir hinu bleika líki,
hríðarbarinn, harmi lostinn,
hjartað í einu fraus og brann.
Var sem biði ´ann fyllri fregna
– furðu honum þótti gegna,
hversu ástaraugun brostin
innilega mændu á hann.

Loksins, þegar leið að kveldi,
lýsti kófið bjarmi af eldi:
blóðrauð sól, er seig til viðar,
seildist gegnum skýjarof.
Iðan hvarf, því óðum hægði,
út við sjónhring mökkinn lægði.
Færðist andi aftanfriðar
yfir voldugt mjallarhof.

Gullinofnir geislaþræðir
gliti slógu á fjöll og hæðir.
Loðin þúst og löngu freðin
ljómaði í skini kveldroðans.
Yfir sinni sælu móður
sonurinn ungi vakti hljóður.
Draup á hvítan dánarbeðinn
dögg frá votu auga hans.

Skipti um áttir skömmu síðar,
skulfu í lofti hlákur þíðar,
leystu úr banni landsins gæði,
– léttist stjörnufáksins spor.
Rölti ´ann burt frá bleiku líki:
blátt var ennþá lífsins ríki.
Drepið gat ei dauðinn skæði
drauminn mikla um sól og vor.

Örðug reynsla útigangsins,
auðn og myrkur heiðavangsins
hans í köggla hörku og seiglu
hafði laumað – smátt og smátt.
Æ hann stóðst hvert áhlaup betur,
– eftir þennan fyrsta vetur
kom sem málmur dýr úr deiglu,
djörfum toppi lyfti hátt.

Árin hurfu á aldavegi,
– og á björtum sumardegi
eitt sinn stóð á Stóraskeiði
stoltur foli, vetra sex.
Nið´r um bóga faxið flóði,
fjörsins tinna í augum glóði,
þegar sjónin hófst mót heiði
himinblámans yndislegs.

Hæst hann bar á hrossaþingi,
harðast tróð á möl og lyngi,
skjótast þaut um stokka og steina
stórhöfðingi fjallaranns.
Var sem ör í ljósum loga
lyfti sér af spenntum boga,
þegar stefndi í orku eina
æskuþrunginn vilji hans.

Þarna stóð hann, stæltur hlynur,
styggra tryppa besti vinur.
Sumaryndi á ýmsar lundir
um hans veru lék og skein.
Fór þó eins og óljós tregi
enn um þessa fornu vegi:
Heiðarbarmi einu undir
örlaði á hvít og skinin bein.

Hann þá allt í einu sperrti
eyru næm og hnakkann kerrti:
svipusmellir, hundgá, hlátur,
hófadynur – færðist nær.
Inn í veröld útlaganna
æddi flokkur byggðarmanna,
– gustmikill og kampakátur
kanna hugðist slóðir þær.

Steig þá fast í hófinn harða
hlaupagikkur allra jarða,
– var sem eldur yfir flæddi,
er af stað hans flokkur rann.
Sá ei gerist sjálfrátt fangi,
sem varð til á útigangi.
Stjörnufákur fremstur æddi,
– frelsið söng í kringum hann.

Sviknum brann í brjósti hatur:
Bauðst oss kannski skjól og matur,
þegar voði frosts og fanna
fór um héruð þessa lands?
Hverju var í veganesti
vikið að brottu reknum hesti?
Hvenær hefur miskunn manna
munað eftir þörfum hans?

Yfir dali, ár og hlíðar,
apalhraun og grundir fríðar,
leitarmenn með ópum eltu
öræfanna villtu börn.
Loksins þau á löngum flótta
lömuðust af þreytu og ótta,
heyrðu varla, er garmar geltu,
– gáfu loks upp alla vörn.

Heim í rétt þeir flokkinn flæmdu,
– flöskum lyftu, bauka tæmdu,
síðan með sín bönd og beisli
býsna hreifir læddust inn.
Hér þó lenti í handaskoli:
hóf sig óðar rauður foli
yfir þá sem þrumugeisli,
– það var stjörnufákurinn.

Hitta vildi ´ann hreykna skálka:
höggið lenti á vinstri kjálka
bónda eins – og blóðið spýttist,
bölvaði sá og gerðist fúll.
Aðrir snöggvast undan hrukku,
en að vörmu spori stukku
á þann rauða, – að höfði hnýttist
helsið sára: kaðalmúll.

Lognbrá kveldsins, ljóma stöfuð,
lagðist mjúkt um glófext höfuð.
Friðarskin um fjöll og hálsa
faðmaði blítt hinn unga þræl.
Augu dökk í djúpum kvíða
drukku móðu blárra hlíða,
og þau sögðu: Fagra, frjálsa
fjalladrottning, – vertu sæl!

Skömmu síðar hélt á hafið
hlaðið skip og mekki kafið.
Niðri í lest í dimmum drunga
drúptu íslensk markaðshross:
þögul kös, af þorsta kvalin,
þrælmennskunni á hendur falin.
Yfir stafn með þykkjuþunga
þeyttist saltur hrannarfoss.

Óttinn svam í sjúkum augum,
sjónin óð í rauðum baugum.
Eins og draumur ægilegur
öfugt mara tímans skreið.
Allt var glatað, allt var horfið,
– aðeins skipið löðri sorfið.
Ekkert viðnám, enginn vegur,
enginn vissi, hvað hans beið.

Upp úr þessu kaldakoli
kumraði stundum rauður foli
sárt og veikt, sem vildi ´ann spyrja:
Vita þeir um dalinn minn?
Var þá eins og andvarp bæri
að – og dapurt hvíslað væri:
Nú fyrst er þitt böl að byrja,
blessaður stjörnufákurinn.

Sjórinn aftur svall í eyra,
– síðan vissi ´ann ekki meira,
fyrr en óþekkt land úr legi
lyftist með sín grænu tröf.
Burt hann var frá borði leiddur,
bugaður, svangur, þyrstur, meiddur,
og á sama sólskinsdegi
síga látinn nið´r í gröf.

Glumdi í haka, gall við hamar,
– geisla sá hann aldrei framar.
Niðri í undnum iðrum jarðar
upp frá því var líf hans treint.
Vonlaust dýr, með drep í hjarta,
dró hann kolavagninn svarta
gegnum fjallsins geilar harðar,
– geigs þar kenndi snemma og seint.

Loks í tauminn tók að rykkja
treg og úfin húðarbikkja,
þegar á döpru rökkurrangli
rann í brjóstið horfinn þeyr.
Hvarf í ryk hinn rétti litur:
rauða hárið blakknað slitur,
faxið dökkleitt strý á stangli,
– stjarnan hvíta sást ei meir.

Næturferli líktist löngum
lífið í þeim námagöngum.
Inni í höllu steinsins styrkri
stigu húmsins púkar dans.
– Þó varð bjart í þessu fjalli,
þegar inn að hestsins stalli
klöngraðist einn í kolamyrkri
karlinn lotni, – vinur hans.

Yfir makka, mön og lendi
margt eitt kvöld var strokið hendi,
líkt og fingur, fjötrum háðir,
fálmuðu um launvopn hættuleg.
Tautað var í opið eyra,
enginn þetta mátti heyra:
Við erum þreyttir þrælar báðir,
– þú ert fangi, eins og ég.

Hóf þá skepnan höfuð lotið,
hristi taglið, stutt og rotið,
snoðinn færðist flipi að vanga,
– flæddi um myrkrið kraftaverk:
Hokinn karl varð hraustur strákur,
húðarbikkjan stjörnufákur.
Fram undan var leiðin langa,
– ljómaði morgunsólin sterk.

Fór á bak hinn frjálsi piltur,
– frýsaði jórinn logagylltur
og af stað með stormsins hraða
stökk í bjarta norðurátt.
Hafsins voð ´ann heitur þæfði,
höfuð rautt við skýin gnæfði.
Heyra mátti um geiminn glaða
glymja tíðan hófaslátt.

Risu úr hafi háir tindar,
hnigu mjúkir þokulindar.
Strákur hló og söng við sumri,
sólginn í hinn djarfa leik.
Langt við Íslands afrétt frammi
áð var loks í grænum hvammi.
Heilsaði þar með hlýju kumri
hryssa, ung og fífilbleik . . .

Síðla kvelds í hamri hljóðum
hrukku upp af draumi góðum
karl og bikkja. – Bliki skæðu
bjarmi sló á svarta nöf.
Jörðin tók að titra og stynja,
– tröllaborgin var að hrynja:
Loksins eftir langa mæðu
laukst nú saman þeirra gröf.