Bragi Ólafsson

Bragi Ólafsson fæddist hóf höfundarferil sinn með útgáfu ljóðabókarinnar Dragsúgs árið 1986. Á þeim tíma var hann kunnur tónlistarmaður og spilaði m.a. með hljómsveitinni Sykurmolunum sem var stofnuð þetta sama ár. Fyrsta skáldsaga Braga, Hvíldardagar, kom út 1999. Hún vakti verulega athygli og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá tilnefningu hlutu líka skáldsögunar Gæludýrin (2001), Sendiherrann (2006) og Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson (2010). Bragi hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2004 fyrir skáldsöguna Samkvæmisleikir. Leikrit Braga fyrir útvarp og svið hafa líka notið mikilla vinsælda, einkum Belgíska Kongó (2004) og Hænuungarnir (2010). Bragi var tilnefndur til Grímuverðlaunanna sem leikskáld ársins fyrir það verk. Skáldsögum Braga hefur verið tekið vel erlendis, einkum hafa Gæludýrin og Sendiherrann gert víðreist og verið vel fagnað.

© Ljósmynd/Eyþór Árnason – Allur réttur áskilinn.

„Ég hafði valið Ferðavísur en sá svo að þær höfðu orðið fyrir valinu hjá Nirði P. Njarðvík. Það ljóð, jafn dimmt og kalt sem það er, finnst mér eitt af þeim fallegri sem ég hef lesið eftir Jóhannes, ekki síst hrynjandin í því.
En í staðinn vel ég ljóð sem er ekki síðra: Andlát úr bókinni Tregaslagur. Taktur ljóðsins hentar efni þess sérlega vel; það er mikil kyrrð yfir því en síðustu tvær línur tveggja fyrstu erindanna eru á einhvern furðulegan hátt svo hversdagslegar og dularfullar í senn, sem á líklega ekki illa við þegar fjallað er um dauðann. Ljóðmálið er ef til vill ekki mjög frumlegt, en eins og eitt rússneskt skáld sagði í kveðjuorðum sínum, þá er dauðinn það ekki heldur. Andlát er virkilega fallegt og kraftmikið ljóð.“

Andlát

Ládauð móða
leggst að augans
lygna vatni
– það er sagt
að sumum batni.

Ofar skýjum
opnast vegur
allra vega:
andar þú
mín elskulega?

Hún er liðin:
hljóðar öldur
haminn lauga
– dularfullt
er dáið auga.