Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson er rithöfundur, sagnfræðingur, íslenskufræðingur og rekstrarhagfræðingur svo eitthvað sé talið upp. Hann er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og einnig gegndi hann embætti bankastjóra í Seðlabanka Íslands frá 2003–2006.

© Ljósmynd/ÞÖK – Allur réttur áskilinn.


„Auðvitað vel ég mörg ljóð og innbyrðis ólík þegar ég fer að reyna að velja úr kvæðum Jóhannesar úr Kötlum. Þar er svo margt hlýtt og innilegt og mannlegt og mannúðlegt sem höfðar til mín og kveikir alls konar gamlar kenndir og hugsanir sem eru þá ennþá til einhvers staðar djúpt í hugskotinu. En ég veit að ég verð að skera úr og taka eitt fram yfir önnur í þetta sinn. Og þá vel ég „Þegar landið fær mál“ úr bókinni Hart er í heimi. Þetta er eitt allra fyrsta kvæði Jóhannesar sem kveikti alveg í mér, barnungum að aldri, og áhrifin hafa aldrei horfið og vakna alltaf eins upp hverju sinni þegar ég hugsa til þess eða les það yfir.“


Þegar landið fær málOg ég sat uppi í hlíð og ég sá út á haf,
og mín sál var á krossgötum stödd.
Fyrir framan mig lá allt, sem lífið mér gaf,
og mitt land varð ein hvíslandi rödd,
og það spurði mig lágt: Heyrðu, sonur minn sæll!
Ertu samur í ósk þinni og dáð?
Ertu herra þíns lífs eða hégómans þræll?
Ertu hetja af sannleikans náð?

Þannig spurði mitt land – og það lék eins og bros
um þess ljóðrænu sóleyjarvör.
En ég grúfði mig inn í þess glitofna flos,
og þar grét ég mín erfiðu svör,
– þau hin erfiðu svör um mín svik við þann draum,
sem er samrunninn fegurð míns lands,
þau hin erfiðu svör um hinn sefjandi glaum,
er stakk svefnþorni hugsjónir manns.

Hvað er lítilsiglt rím, þegar landið fær mál
og um líf manns í alvöru spyr,
þegar aldanna kvein fer um kúgaða sál,
og hún krýpur við sannleikans dyr?
Og ég minnist þess dags, er ég byggði þá borg,
sem lá brotin og jöfnuð við fold.
Hversu ekkinn var sár, er mín orðvana sorg
rann sem iðrun í feðranna mold. . .

Hvert var erindi mitt til þín, auðuga jörð?
Var ég annað en blakandi strá?
Hví var heimtað af mér, að ég héldi þar vörð,
sem vor hugsjón í vöggunni lá?
Voru allir á burt? Var ég einn – eða hvað?
Hví var öllu beint rakleitt til mín?
. . . Og Ísland það hófst yfir stund, yfir stað,
og það stækkaði í volduga sýn.

Og það talaði á ný: Æ, þú, barn mitt, átt bágt!
Hví er brjóst þitt svo angrað og þungt?
Og hví hrundi þín borg og hví lauzt þú svo lágt
með þitt lífsblóm, svo fagurt og ungt?
Ég sem trúði á þig, ég sem treysti á þig,
að þú tækir þér plóginn í hönd,
að þú skapaðir mig, að þú skynjaðir mig
fegra og skáldlegra en öll önnur lönd.

Því ég, land þitt, er skaut alls þess lífs, er þig ól,
sérhvert ljóð þitt er hluti af mér,
og hver geisli, er skín, þegar sumrar af sól,
hann er sendur til fagnaðar þér;
allt hið titrandi lauf, allt hið gróandi gras,
öll hin glampandi silfruðu mið,
hvert það ilmandi blóm, er þinn barnsfingur las,
– allt er bundið þinn hjartastreng við.

Ég er voldugt og ríkt og minn faðmur er frjáls,
ég hef fóstrað þig innst við mitt brjóst,
og því hélt ég, að þér, sem fannst hita míns báls,
væri helgasta takmarkið ljóst,
– þetta takmark, sem hátt yfir heiðjökla ber
og er hafið frá dufti til manns,
þetta takmark: að sjá, hver þinn sannleikur er,
og að sigra með fulltingi hans!

Æ, hví sérðu ei, mitt barn, það hið sígilda pund,
er ég sál þinni í vögguna gaf:
þennan öfluga foss, þessa ilmandi grund,
þetta auðuga, ljósbláa haf?
Eru ei gæði mín nóg, ef þér gifta er léð
til að greina þau, skipta þeim rétt?
Víst er saklaust mitt blóð, og þó sit ég hér með
þessa synd: hina kúguðu stétt.

Hvað er sólskinið mitt, hvað er söngfuglinn minn,
hvað er sumarsins fegursta skart,
hvað er vatnanna glit, hvað er víðigræn kinn,
hvað er vornótt með glóhárið bjart,
hvað er ómgöfug lind, hvað er upphafið fjall,
hvað er angan mín, tíbrá og þeyr,
ef í gegnum það allt heyrist örmagna kall
þess, sem út af í skugganum deyr?

Hvílíkt heimskunnar vald, þegar vinnufús þjóð
kringum verkefni iðjulaus snýst,
meðan skorturinn vex eins og friðvana flóð,
og hans feigð inn í sálirnar brýzt!
Hvílíkt heimskunnar vald ræður vilja þess manns,
sem knýr veikari bróður á hjarn,
og sem gína vill einn yfir auði síns lands,
– hann er ekki minn sonur, mitt barn!

Sá, sem koma skal næst, verður þú, einmitt þú,
– það ert þú , sem ég fel nú minn hag,
því hin langþráða stund hefur nú, einmitt nú,
óðum nálgazt og kemur í dag.
Stundin kemur í dag og til drengskapar knýr,
þar til djörfungin sigrar þitt hik.
Þú ert maður of stór, þú ert maður of dýr,
til að minnka við afslátt og svik!

Þannig mælti mitt land. – Og ég reis upp úr rúst
þeirrar ráðlausu borgar, er féll.
Og hin dagelska sól skein á dauðblakka þúst
og brá dýrðlegum roða yfir fell.
Og ég gekk upp á hæðina hljóður og sæll,
– mér var horfin öll iðrun og sorg,
og sem herra míns lífs, en ei hégómans þræll,
lagði ég hornstein að annarri borg.

Og nú flyt ég til þín þessi alvöruorð,
sem mitt ættarland hvíslaði að mér.
Ekki einungis mig bindur ósk þess við borð,
– lífið allt krefst hins sama af þér.
Hvað er ég? Hvað ert þú? Hvað er hún? Hvað er hann?
Sama hönd, sama önd, sama blóð!
– Að slá skjaldborg um réttlætið, maður við mann,
það er menningin, íslenzka þjóð!
Jón Kalman Stefánsson

Jón Kalman Stefánsson hóf feril sinn sem ljóðskáld en fyrsta prósaverk hans var smásagnasafnið Skurðir í rigningu (1996). Skáldsögur Jóns Kalmans hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir „Sumarljós og svo kemur nóttin“ árið 2005. Bækur hans hafa einnig hlotið góðar viðtökur erlendis, meðal annars í Þýskalandi. Jón Kalman hefur þrisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir Sumarið bak við brekkuna, Ýmislegt um risafurur og tímann og Sumarljós og svo kemur nóttin.


„Góð skáld yrkja um steinana, „Þú/ sem gerðir mér steinana/ byggilega.“ orti Hannes Pétursson til Rilke, og bandaríska skáldið Charles Simic talar um stjörnukortið á innveggjum þeirra. Ég ætlaði að vísu að velja annað ljóð, Jarðerni, sem lifir innra með mér eins og muldur, eins og sálmur, eins og huggun. En kvæðið um steinana er gott, Jóhannes hafði auga fyrir hinu hversdagslega, sá skáldskapinn þar, og það er mikilsvert, dýrmætt. Og það er kyrrð í þessu kvæði, líka bros, en fyrst og fremst kyrrð og þessvegna gott að lesa það, fara með það í hljóði og upphátt, það róar; ég stefni því gegn andstuttum samtímanum, þessum þjáða streitusjúklingi.“


SteinarSteinarnir berast hreyfingarlausir
með hringsnúningi jarðarinnar:
þeir eru ekki tímabundnir
þeir mega vera að því að hvíla sig
og tala saman

því steinarnir tala
– þeir tala um eilífðarveðrið
og unnustur sínar daggirnar
og svo vandlega hugsa þeir mál sitt
að það tekur þá þúsundir ára
að segja eitt einasta orð.
Jóhannes Bjarni Sigtryggsson

Jóhannes Bjarni Sigtryggsson er afabarn Jóhannesar úr Kötlum. Hann er íslenskufræðingur og vinnur á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.


„Eitt kliðmýksta kvæði afa míns er Ljóðabréf til lítillar stúlku úr ljóðabókinni Sól tér sortna. Kvæðið er braghent og einhver undarlegur léttleiki og fegurð yfir því.“


Ljóðabréf til lítillar stúlkuGaman er að ganga á fund við gleði þína
og láta hana á sálu sína
sumarlangan daginn skína.

Þú ert aðeins ofurlítil yngismeyja,
– en þeir, sem tímann hjá þér heyja,
hugsa ekki til að deyja.

Það er líkt og ljósið streymi úr lófa fínum,
þegar þú hvítum höndum þínum
hjúfrar upp að vanga mínum.

Og þá glingrið grípur þú úr gullastokkum
björt og sæl, í bláum sokkum,
bragar af þínum silkilokkum.

Þegar ég horfi í þessi augu þýð og fögur,
finnst mér eins og láð og lögur
leysist upp í kvæði og sögur.

Upp á hól þú hleypur þar og hoppar niður:
kringum þig er frelsi og friður,
fuglar, blóm og lækjarniður.

Þar er allt, sem illska minnar aldar smáði,
allt, sem skáldsins andi dáði,
allt, sem móðurhjartað þráði.

Ríktu þar á rauðum kjól, mín rós og lilja,
þar til allar þjóðir vilja
þína veröld sjá og skilja.
Hjörtur Pálsson

Hjörtur Pálsson hefur sent frá sér fimm ljóðabækur, þá síðustu árið 1998 (Úr Þegjandadal). Auk þess hafa ljóð eftir hann birst í tímaritum. Hann hefur þýtt á fjórða tug bóka í bundnu og óbundnu máli, skáldverk, ferðabækur, barnabækur og önnur rit úr ensku, þýsku og Norðurlandamálum, þ.á m. færeysku og finnsku. Flestar þýðingarnar hafa verið prentaðar á bók, en hinar birst í blöðum og útvarpi eða verið leiknar á sviði. Auk þess er Hjörtur höfundur margra útvarpsþátta og hefur birt greinar og þýðingar í blöðum og tímaritum. Þá hefur Hjörtur séð um útgáfur fjölda bóka og búið þær til prentunar. Ljóð og önnur skrif eftir Hjört hafa birst í ýmsum safnritum, bæði hér á landi og erlendis.


„Sá á kvölina sem á völina, því að Jóhannes úr Kötlum var ekki eins kvæðis skáld. Eftir dálitlar vangaveltur ætlaði ég að velja „Ýskelfi“ sem vekur mér enn sama fegurðarhroll og fermingarárið mitt þegar Sjödægra kom út og víðar lendur bókmenntanna voru að opnast forvitnum hug og ungum augum. Nú sé ég að annar hefur orðið á undan mér og þriðji veljandinn nefnir ljóðið einnig og teflir fram „Fjöllum“ sem ég staldraði líka við. Margt kom til greina, en hreinleiki hugans og einlægni hjartans leyna sér ekki í skáldskap Jóhannesar og léðu honum mannlegan svip og mikinn þokka frá æskudögum til síðustu ljóða. Kvæði hans eru mörg tilbrigði um sama stef og sprottin af ást hans á jörðinni og samúð með mannanna börnum um víða veröld. Í „Heimþrá“ er tryggðin við átthagana og upprunann allsráðandi og óþreyjan listilega ofin í braginn. Í þeirri fjórðu af „Fimm hugvekjum úr Dölum“ má glöggt skynja ást skáldsins á landi og þjóð í mannlífsmyndum úr æskuhéraðinu sem Jóhannes unir sér við í hörðum heimi og gæðir lífi með mannskilningi sínum og notalegri kímni. Loks varð fyrir valinu ljóð úr Tregaslag sem læsir í eitt listfengi og einfaldleik, en er þó ef til vill ekki allt þar sem það er séð í djúpri alvöru sinni.“


JarðerniAf þér er ég kominn undursamlega jörð:

eins og ljós skína augu mín á blóm þín
eins og snjór lykja hendur mínar um grjót þitt
eins og blær leikur andardráttur minn um gras þitt
eins og fiskur syndi ég í vatni þínu
eins og fugl syng ég í skógi þínum
eins og lamb sef ég í þínum mó.

Að þér mun ég verða undursamlega jörð:

eins og sveipur mun ég hverfast í stormi þínum
eins og dropi mun ég falla í regni þínu
eins og næfur mun ég loga í eldi þínum
eins og duft mun ég sáldrast í þína mold.

Og við munum upp rísa undursamlega jörð.