Pétur Gunnarsson

Pétur Gunnarsson rithöfundur fæddist 15. júní 1947 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 hélt hann utan til náms í Frakklandi og lauk Meistaraprófi í heimspeki (maitrise) frá Université d’Aix-Marseille árið 1975. Pétur hefur tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum, hann samdi t.d. leikritið Grænjaxlar árið 1977 fyrir Þjóðleikhúsið í samvinnu leikara og Spilverks þjóðanna. Hann samdi texta á breiðskífunni Lög unga fólksins sem út kom 1977 og barnaleikritið Krókmakarabærinn sama ár í samvinnu við Leiklistarskóla Íslands. Pétur hefur jafnframt unnið margvíslegt efni fyrir útvarp og sjónvarp. Hann skrifaði t.a.m. handrit að leikinni heimildamynd um Halldór Laxness 1988.


Ég finn ég verðHér sit ég enn í sömu vanans skorðum
hve sárt og djúpt sem tímans þyrnar stinga
og leita skjóls í löngu dauðum orðum
– ó lífsins kjarni: nær á ég að springa?

Ó nær á ég að sundrast þrjózkur þungur
í þjóðar minnar brjósti fullu af kvíða
og stökkva síðan endurfæddur ungur
úr eldinum og láta höggið ríða?

Ég þoli ei lengur heljarmannsins hola
og heimska vald sem aðeins kann að deyða:
ég verð að brjóta það í þúsund mola
– ó það er höggið sem ég verð að greiða.

Ef vítislogar hinna gullnu hringa
sem heiminn spenna skulu eitt sinn dvína
ég finn ég verð – ég finn ég verð að springa
og fæða af nýju alla veröld mína.
Njörður P. Njarðvík

Njörður P. Njarðvík er prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Skáld, rithöfundur, þýðandi og höfundur kennslubóka. Hann hefur skrifað fjölda rita og greina um bókmenntir og önnur efni.


„Það er í raun fjarskalega erfitt að eiga að velja eitt ljóð eftir Jóhannes, ekki síst ef maður þykist kunna sæmilega skil á ljóðagerð hans. Það má hiklaust segja að í ljóðum hans speglist öll þróun íslenskrar ljóðlistar á 20. öld, frá nýrómantík um pólitíska róttækni til formbreytinga módernisma og áfram – aldrei stöðnun og hreint ótrúleg þróun sem stundum má líkja við hamskipti. Ég hef lesið ljóð Jóhannesar frá unglingsárum og fæ aldrei leið á þeim. Öðru nær, alltaf skal ég finna eitthvað nýtt og óvænt. Að lokum ákvað ég að velja ljóðið Ferðavísur, af því að það er í senn skýrt dæmi um göldrótta myndvísi og myndugleg áminning til villuráfandi þjóðar – mitt í allsnægtunum. Hvort tveggja finnst mér einkenna ljóð hans.“


FerðavísurÞungt er að bera um fjallveg
fullan mal af haustkvíða
þegar dagurinn geispar golunni
í gúlp hinnar blökku nætur
og svikulir steinar skríða
undan skeikulum fótum manns.

Það setur að mér hroll
er helsingjarnir koma yfir mig
með nepjusúg í flugnum
– fara hátt og mikinn –
glam þeirra er kaldhamrað bergmál
af buldri grasafólks
sem enn er að villast í þokunni
á þessari afskekktu heiði.
Matthías Johannessen

Matthías Johannessen (f. 3. janúar 1930) er ljóðskáld og rithöfundur. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu meðfram háskólanámi og síðar ritstjóri þess á árunum 1959–2000. Fyrsta ljóðabók Matthíasar Borgin hló kom út árið 1958 og vakti töluverða athygli. Síðan hefur hann gefið út tugi ljóðabóka, auk fræðibóka, skáldsagna, smásagnasafna, leikrita og viðtalsbóka.


„Þegar ég var ungur vöktu athygli mína atómljóð í Tímariti Máls og menningar eftir Anonymus, en eitt þeirra, sem var sett upp eins og formleysa, var þrælbundið þegar að var gáð. Þá sást að hefðbundið góðskáld var þarna á ferð og síðar kom í ljós að það var enginn annar en Jóhannes úr Kötlum. Mig langar að minna á þetta ljóð vegna virðingar við skáldið og þróun ljóðlistar.“


Eitt órímað ljóðég Liljuriddarinn
rakti við stjörnuskin
hinn rökkvaða skóg
með hjartað í bláum loga og
sofandi jörðin hrökk upp við dimman dyn og
dauðinn þaut
í himinsins spennta boga

allt líf var skuggi
úr moldinni myrkrið smó og
máninn huldist skýi sem slokknað auga og
tíminn villtist og
vindurinn beit og
sló
er vofurnar báru gullið í sína hauga

svo þung var öldin
að allan skilning mig þraut og
uglur vældu og
loftið titraði
af rógi ég lagði
höndina á himinbogann og
skaut og
hæfði fegursta dýrið
í Goðaskógi

í saklausri angist drúpti
drottningin Hind
er dreyrinn seytlaði úr brjósti
konungsins Hjartar í nótt
var eðli mitt nakið og
sál mín blind í nótt
urðu hvítu liljurnar mínar
svartar

Birtist í Tímariti Máls og menningar 1948


ÝskelfirÉg liljuriddarinn rakti við stjörnuskin
hinn rökkvaða skóg með hjartað í bláum loga
og sofandi jörðin hrökk upp við dimman dyn
og dauðinn þaut í himinsins spennta boga.

Allt líf var skuggi: úr moldinni myrkrið fló
og máninn huldist skýi sem slokknað auga
og tíminn villtist og vindurinn beit og sló
er vofurnar báru gullið í sína hauga.

Svo þung var öldin að allan skilning mig þraut
og uglur vældu og loftið titraði af rógi:
ég lagði höndina á himinbogann og skaut
og hæfði fegursta dýrið í Goðaskógi.

Í saklausri angist drúpti drottningin Hind
er dreyrinn seytlaði úr brjósti konungsins Hjartar:
í nótt var eðli mitt nakið og sál mín blind
– í nótt urðu hvítu liljurnar mínar svartar.

Birtist í Sjödægru 1955
Jónína Óskarsdóttir

Jónína er bókavörður í Ársafni Borgarbókasafns.


„Jesús Maríuson er ljóð sem ég hef alltaf haldið mikið uppá. Það höfðaði sterkt til mín þegar ég var um tvítugt, á þeim árum þegar fáir vildu kannast við trúarþörfina, og nú þrjátíu árum síðar er tilfinningin enn á sínum stað. Mér þykir þetta svo gott ljóð og þá á ég við að í því er einhvernveginn svo mikil trúarvissa sem umvefur hjartað. Þetta ljóð gefur efnishyggju og hroka langt nef og það sem mér þótti best; var að vita af sósíalista sem orti svona.“


Jesús MaríusonJesús sonur Maríu er bezti bróðir minn:
hann býr í hjarta mínu
— þar kveikir hann í rökkrinu rauða margt eitt sinn
á reykelsinu sínu.

Og jafnan þegar allir hafa yfirgefið mig
og enginn vill mig hugga
þá birtist hann sem stjarna í austri og sýnir sig
á sálar minnar glugga.

Og þó hef ég ei beitt slíkum brögðum nokkurn mann:
ég hef brennt á vör hans kossinn
og hrækt síðan á nekt hans og nítt og slegið hann
og neglt hann upp á krossinn.

En hvað svo sem ég geri er hann mín eina hlíf
er hrynur neðsta þrepið
því hvað oft sem hann deyr þá er eftir eitthvert líf
sem enginn getur drepið.

Og Jesús sonur Maríu mætir oss eitt kvöld
sem mannlegleikans kraftur:
æ vertu ekki að grafa ‘onum gröf mín blinda öld
— hann gengur sífellt aftur.