Vilborg Dagbjartsdóttir

Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur er þekktust fyrir ljóð sín en eftir hana liggur einnig fjöldi rita fyrir börn, bæði frumsamdar sögur og þýðingar og auk þess námsefni.


„Þetta er kannski ekki eftirlætisljóð mitt eftir Jóhannes úr Kötlum en mér er það kært af sérstökum ástæðum. Það er dálítil saga á bak við það sem enginn man lengur nema ég. Einhverju sinni sem oftar leit ég við á kaffistofu starfsfólks Máls og menningar. Ég hitti vel á. Jóhannes úr Kötlum var að fá sér kaffi. Við tókum tal saman. Ég sagði honum frá því að einhverju sinni kom pabbi af vertíð og hafði ekki fengið nema 75 aura í kaup. Á leiðinni heim keypti hann fimmaurakúlur handa okkur litlu krökkunum fyrir aurana. Mamma stóð við eldavélina og var að baka lummur í tilefni dagsins. Hún horfði á pabba tína gottið upp úr brúnum bréfpoka og útdeila því: „Er það ekki eins og að storka örlögunum, Dagbjartur, að kaupa sælgæti fyrir allt kaupið sitt?” Þá hló pabbi og svaraði: „En Ína mín, ég skulda ekki neitt, sumir áttu ekki fyrir fæðinu sínu.” Svo hneigði hann sig fyrir henni og bauð henni í vals. Þá var nú aldeilis glatt á Hjalla! Jóhannes hafði gaman af sögunni og spurði mig um hagi fólksins á Eyrinni í kreppunni. Sannarlega varð ég undrandi og glöð þegar ég las ljóðið í næstu bók hans, Nýjum og niðum.“


Sjötíu og fimm aurar



Tólf barna faðir í mannheimum
kemur heim úr veri
með sjötíu og fimm aura í vasanum.

Sex eru dáin úr tæringu
– hann kaupir brjóstsykur fyrir auranna
og skiptir honum milli hinna sex
sem eftir eru.

Seg mér dóttir Dagbjarts:
var það ekki þá
sem faðir þinn sigraði heiminn?




Vigdís Grímsdóttir

Vigdís Grímsdóttir lauk kennaraprófi 1973, BA prófi í íslensku og bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands 1978 og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands 1982. Hún stundaði kandidatsnám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands 1984 – 1985. Vigdís starfaði sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari í Reykjavík og Hafnarfirði til 1990 en hefur síðan nær eingöngu fengist við ritstörf. Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Tíu myndir úr lífi þínu kom út árið 1983 og síðan hefur hún sent frá sér ljóðabækur, annað smásagnasafn og skáldsögur, þar af eina barnabók. Vigdís hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál.


„Ljóðið um son götunnar er og verður nöturlegt ferðalag um mannlífið á meðan ójöfnuður er val valdhafa og ótrúlegustu hörmungar eru staðreyndir á götuhornum. Hinn myndvísi heimur skáldsins er gaddasvipa á okkur nútímamenn hvar í veröldinni sem við höfum hreiðrað um okkur og svipan grimma og kalda lætur okkur vart liggja ósærð: sá má að minnsta kosti kallast meira en lítið kaldhamraður sem ekki vaknar upp við vondan draum þegar hann kynnist syni götunnar, sér misskiptingu auðsins í sínu demóníska veldi og íhugar þá mannfyrirlitningu sem fylgir hinu súrrealíska ranglæti heimsins. Því hvað er ranglætið annað en siðir hins ráðsetta og ríka og endalaus flótti hans?

Af einstakri myndvísi og óvægnu miskunnarleysi dregur Jóhannes úr Kötlum upp lífsmynd götusonarins sem á enga frændur og enga vini og ekkert föðurland. Og við sem horfum á þessa mynd og gefum okkur tíma, tími er allt sem þarf, til að virða hana fyrir okkur, við hljótum að staldra við: við hinkrum vegna þess að saga þessa ellefu ára stráks sem húkir í horninu dimma er ekki aðeins áskorun til okkar í “góðu sófunum undir öruggu ljósunum” um að gera grundvallarbreytingar á mannlífstorginu, heldur kallar hún á ábyrgð okkar, hvetur okkur til að vakna til hinnar raunverulegu veraldar og vekja hina sífellt sofandi letimenn. Laun heimsins eru alls ekki óréttlæti. Við erum laun heimsins og augu okkar eiga að brenna einsog blikandi neistar.“


Sonur götunnar



Um götuna fikar sig fölur snáði,
– en frost er úti og snjór. –
Húfan er gömul og garmarnir rifnir
og götóttir sokkar og skór. –
Hann skimar um strætin, hikandi og hljóður,
og höktir í næsta skjól.
– Hann á engan föður og enga móður,
og engan guð eða jól.

Hann hniprar sig saman í horni dimmu,
með hörku steinsins í svip.
Og náttrökkrið felur við barminn blakka
hinn barnunga viðsjálfsgrip. –
Hér hýrist hann nótt eftir nótt – og breiðir
á nekt sína skuggans húm.
– Hann á enga systur og engan bróður,
og ekkert ljós eða rúm.

En augu hans brenna, eins og blikandi neistar
frá báli, sem slokknað er. –
Þau smjúga eins og örvar í strætastrauminn,
sem stympast, – kemur og fer.
Svo stingur hann sér og gerir gælur
við götunnar harða sand.
– Hann á enga frændur og enga vini
og ekkert föðurland.

Götunnar sonur er ellefu ára,
og enginn veit um hans kyn, –
Örlögin sköpuðu ´ann eitthvert kvöldið
við ástríðulogans skin.
– Hvort pabbinn var morðingi og mamman þjófur,
sem mættust um stundarbil,
veit enginn maður; – en allt er blessað,
sem almættið stofnar til.

Hans daglega pund er að draga fram lífið
um daunill og forug torg,
og berjast af grimd, eins og skynlaus skepna,
við skítinn í stórri borg. –
Hans hugsun er frost og hungur og þorsti,
en hvorki gleði né sorg.
– Í stað þess að laugast í sól og sumri
hann svelgir eimloftsins korg.

Í borginni sefur hvert barn í náðum,
sem borið er samlífs til,
við mjúka svæfla og mjúkar sængur
og móðurhyggjunnar yl. –
Þau dreymir um engla og dýrar krásir,
og dásemdir hljóms og óðs,
meðan hann, þessi sonur syndar og nektar,
sýgur hvern fingur til blóðs.

Hann getur ei sofnað, – því sár er kuldinn,
en sulturinn verri þó.
Þeir naga, þeir tæta hans sál í sundur
og svifta hann allri ró. –
Í hugsunarleysi höndin kreppist
að hjartanu blá og rauð,
eins og höndin vilji við hjartað segja:
Æ, hver vill gefa okkur brauð?

Hver hreyfing hans er sem gráðug glíma
við guð þann er líf hans skóp,
– hvert augnatillit sem stálbeitt stunga,
hver stuna sem neyðaróp. –
Hann á engan tilgang og enga framtíð,
því öll hans barátta er tál.
Það vefur sig upp, eins og eiturnaðra,
sem átti að verða sál.

Hans lögmál er hatur til alls sem andar,
því allt er það fjandlið hans. –
Hann lokkar og svíkur, hann lýgur og stelur,
með lævísi dýrs og manns. –
Hann þekkir ei siði hins ráðsetta og ríka,
– hans reynsla er eintómt skarn.
Hann sparkar í heiminn með þrjósku þrælsins,
og þó er hann – saklaust barn.

Í horninu dimma hann húkir löngum,
sem horbein úr spiltri þjóð. –
Og hljóðlega seytlar úr sognum fingrum
hið svívirta fórnarblóð.
– Hann er nú rúmlega ellefu ára,
og ósköp stuttur og mjór.
En þjóðin mun læra að þekkja hann betur,
þegar hann verður stór.




Valgerður Benediktsdóttir

Valgerður Benediktsdóttir er ljóðskáld og starfar sem lögfræðingur hjá réttindastofu Forlagsins. Fyrsta ljóðabók hennar, Ferðalag með þér, kom út árið 2001 en einnig hafa birst eftir hana ljóð í blöðum og ýmsum safnritum.


„Mér hefur alla tíð þótt einstaklega vænt um ljóð Jóhannesar úr Kötlum. Það var bara síðast í gær sem ég sat með Sjödægru í höndunum og rifjaði upp kynni mín af ljóðum hans. Ég vel ljóðið Enn um gras úr bókinni Ný og nið.“


Enn um gras



Óskiljanlegt er grasið:
maður treður það undir fótum sér
en það reisir sig jafnharðan við aftur.

Óskiljanlegt er grasið:
skepnurnar bíta það og renna því niður
og skila aftur hinu ómeltanlega
– en viti menn:
á því nærist svo nýtt gras.

Já óskiljanlegt er það
hið græna gras jarðarinnar:
auðmýktin og uppreisnin í senn.




Torfi Geirmundsson

Torfi Geirmundsson er rakarinn á Hlemmi, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, ljóðaunnandi, fimm barna faðir og 8 barna afi. Torfi hefur margoft starfað sem alþjóðlegur dómari í hárskurði og dæmdi m.a. á fyrsta heimsmeistaramóti sem Ísland tók þátt í árið 1986 í Veróna á Ítalíu. Árið 1990 opnaði hann stofuna tége að Grettisgötu 9 og rak hana í tvö ár. Veturinn 1991 starfaði hann við hárgreiðslu við Þjóðleikhúsið. Opnaði síðan Nýju hárstofuna að Laugaveg 44 og var með hana í tvö ár. Á þessum árum sat hann í fjölda nefnda, var formaður fræðslunefndar í háriðnum og tók þátt í að semja drög að námsskrá fyrir meistaraskóla í hársnyrtiiðn og kenndi við meistaranámið í Iðnskólanum í Reykjavík. Árið 1995 hlaut hann viðurkenningu frá The Art & Fashion Group International World Master of the craft í New York. Torfi hefur rekið Hárhornið við Hlemm allt frá 1997 er hann keypti þá stofu af Jörundi Guðmundssyni en þar er búin að vera stofa síðan árið 1962.


„Þegar ég hlustaði á Sóleyjarkvæði í fyrsta skipti þá var ekki aftur snúið, ég varð yfir mig ástfanginn af ljóðlist. Ekki skemmdi fyrir frábær lestur Arnars Jónssonar og tónlist Péturs Pálssonar. Þessi ást við fyrstu kynni varð til þess að ég varð að eignast allt safn Jóhannesar úr Kötlum. Síðan hef ég safnað ljóðabókum og les ljóð mér til andlegrar betrunar. Sóleyjarkvæði eru mér mjög hjartfólgin og skyldulestur hjá mér á hverju ári.
Það er samt nær tíðarandanum núna að rifja upp ljóðið Staðið yfir moldum.
Það er því ljóðið sem ég tel eiga við í dag.“


Staðið yfir moldum



Ég er að koma frá jarðarför
í hinum afskekkta Kirkjugarði Hugsjónanna
þar sem leiðin eru hundaþúfur.

Það var verið að hola niður
karlaumingjanum honum Stóra Sannleik
sem hrökk upp af nýlega:
við trúarafglaparnir fylgdum
en danspresturinn í Hruna kastaði rekunum
og Smálygakórinn söng Allteinsog

– allt eins og Guð væri með í spilinu.