Guðrún Gerður Ásmundsdóttir

Guðrún Gerður Ásmundsdóttir, leikari, leikstjóri og leikritahöfundur, er landsmönnum að góðu kunn fyrir áratuga starf í þágu leiklistar. Guðrún var árið 2009 heiðruð sérstaklega af félögum sínum í Leikfélagi Reykjavíkur og þá gerð að heiðursfélaga og er hún eina konan fyrir utan Vigdísi Finnbogadóttur sem þann heiður hefur hlotið. Guðrún var einmitt einn helsti baráttumaðurinn fyrir byggingu Borgarleikhússins á sínum tíma.


Íslendingaljóð 17. júní 1944



Land míns föður, landið mitt,
laugað bláum straumi:
eilíft vakir auglit þitt
ofar tímans glaumi.
Þetta auglit elskum vér,
— ævi vor á jörðu hér
brot af þínu bergi er,
blik af þínum draumi.

Hvíslað var um hulduland
hinst í vestanblænum:
hvítan jökul, svartan sand,
söng í hlíðum grænum.
Ýttu þá á unnarslóð
Austmenn, vermdir frelsisglóð,
fundu ey og urðu þjóð
úti í gullnum sænum.

Síðan hafa hetjur átt
heima í þessu landi,
ýmist borið arfinn hátt
eða varist grandi.
Hér að þreyja hjartað kaus,
hvort sem jörðin brann eða fraus,
— flaug þá stundum fjaðralaus
feðra vorra andi.

Þegar svalt við Sökkvabekk
sveitin dauðahljóða,
kvað í myrkri um kross og hlekk
kraftaskáldið móða.
Bak við sára bænarskrá
bylti sér hin forna þrá,
þar til eldinn sóttu um sjá
synir vorsins góða.

Nú skal söngur hjartahlýr
hljóma af þúsund munnum,
þegar frelsisþeyrinn dýr
þýtur í fjalli og runnum.
Nú skal fögur friðartíð
fánann hefja ár og síð,
varpa nýjum ljóma á lýð
landsins, sem vér unnum.

Hvort sem krýnist þessi þjóð
þyrnum eða rósum,
hennar sögur, hennar ljóð,
hennar líf vér kjósum.
Ein á hörpu íss og báls
aldaslag síns guðamáls
æ hún leiki ung og frjáls
undir norðurljósum.




Guðmundur Páll Ólafsson

Guðmundur Páll Ólafsson fæddist árið 1941 á Húsavík. Hann stundaði háskólanám og ýmis störf í Bandaríkjunum á árunum milli 1960 og 66, lærði meðal annars köfun, myndlist og líffræði og lauk B.Sc gráðu frá Ohio State University. Frá 1966 til 68 var hann skólastjóri og kennari við Barna- og miðskóla Blönduóss þar sem hann setti á fót fyrstu tungumálastofu landsins en frá 1968-70 var hann líffræðikennari við Menntaskólann á Akureyri. Á árunum 1970-72 lærði hann ljósmyndun við Stockholms Fotografiska Skola og stundaði doktorsnám í sjávarlíffræði við Stokkhólmsháskóla á árunum 1971-74 ásamt rannsóknum á fjörulífi við Flatey á Breiðafirði. Árin 1970-71 samdi Guðmundur Páll námsefnið Líf og umhverfi, ætlað 12 ára nemendum grunnskóla, sem unnið var á vegum Menntamálaráðuneytis og er fyrsti vísirinn að seinni stórvirkjum hans, tilraun til að sameina náttúrufræði í eina heilsteypta sýn. Á árunum 1972-76 starfaði hann í Flatey á Breiðafirði þar sem hann var búsettur, var skólastjóri og kennari, stundaði náttúru- og heimildaljósmyndun og kvikmyndagerð um þúsund ára sambúð manns og náttúru í Flateyjarhreppi, Næsta áratuginn starfaði hann jöfnum höndum við köfun, hönnun bóka, trésmíðar, fiskveiðar og teikningar, meðal annars í rit Lúðvíks Kristjánssonar Íslenzkir sjávarhættir I-IV 1984-85 stundaði Guðmundur Páll svo listnám við Columbus College of Art and Design í Ohio í Bandaríkjunum, en eftir 1985 starfaði hann samfellt sem rithöfundur, náttúrufræðingur, náttúruljósmyndari, virkur náttúruverndari og fyrirlesari heima og erlendis. Guðmundur Páll lést árið 2012.

© Ljósmynd/Ingibjörg Snædal, Þjórsárjökli 2006.


Bæn (síðasta erindið)



Náttúra, vagga alls og einnig gröf
yngdu mig, vertu sálar minnar hlíf,
gefðu mér aftur gleði mína og söng,
gefðu mér aftur trúna á þetta líf.




Guðborg Aðalsteinsdóttir

Guðborg Aðalsteinsdóttir er fyrrverandi bóndi í Kaldaðarnesi og víðar á Suðurlandi, en á nú heima í Hveragerði. Hún hefur tekið þátt í bókmenntahópi eldri borgara í Hveragerði síðan hann var stofnaður fyrir nokkrum árum. Guðborg er ættuð vestan úr Dölum, er frænka Jóhannesar og hefur mikið dálæti á ljóðum hans.


„Ég hef alltaf hrifist mikið af ljóðum Jóhannesar úr Kötlum. Ég úthellti mörgum tárum yfir kvæðunum Stjörnufákur og Karl faðir minn, þegar ég var ung. Og sem betur fer get ég enn tárast yfir fallegum ljóðum. En þetta litla ljóð, sem ég hef valið „Hinn slyngi sláttumaður”, hittir mann einhvernveginn beint í hjartað. Hvers myndi maður fremur óska, þegar lokastundin nálgast, en að fá að sjá vorið og blómin „bara einu sinni enn“. Síðan einskis biðja framar.“


Hinn slyngi sláttumaður



Og þegar dauðinn kemur segi ég ekki:
komdu sæll þegar þú vilt
heldur segi ég:
máttu vera að því að bíða stundarkorn?

Ég bíð aldrei eftir neinum
segir hann
og heldur áfram að brýna ljáinn sinn.

Þá segi ég:
æ lof mér að lifa fram á vorið segi ég
bara ofurlítið fram á vorið
því þá koma þessi litlu blóm þú veist
sem glöddu mig svo mikið í vor eð leið
og hvernig get ég dáið án þess að fá að sjá þau
einu sinni enn
bara einu sinni enn?




Eysteinn Þorvaldsson

Eysteinn Þorvaldsson hefur kynnt sér manna best módernismann í íslenskri ljóðagerð og skrifaði um það efni bókina Atómskáldin sem kom út 1980. Jafnframt hefur hann fylgst grannt með þeim ungu skáldum sem síðar komu fram á sjónarsviðið undir nýjum straumum og stefnum. Þá hefur Eysteinn átt stóran þátt í að kynna Íslendingum ýmis úrvalsverk evrópskra bókmennta með því að þýða, í samvinnu við Ástráð son sinn, verk skálda eins og Franz Kafka og Max Frisch. Drjúgur hluti af starfsævi Eysteins var helgaður bókmenntakennslu við Kennaraháskólann þar sem fræðistörfin snertu bæði sjálfan skáldskapinn og kennslu hans og kynningu. Um það efni skrifaði hann 1988 bókina Ljóðalærdómur, athugun á skólaljóðum handa skyldunámsskólum 1901–1979. Í tilefni af sjötugsafmæli Eysteins sumarið 2002 kom út bókin Ljóðaþing sem hefur að geyma greinar, ritgerðir og erindi hans um íslenska ljóðagerð á 20. öld. Eysteinn hefur gefið út mörg úrvalsrit til lestrar í skólum og telst meðal frumkvöðla á því sviði.


„Mörg af ljóðum Jóhannesar úr Kötlum hafa verið förunautar mínir allar götur frá unglingsárum. Eitt er samt það ljóð sem talar til mín oftar en önnur við margskonar aðstæður í amstri daganna og á góðum stundum. Í skýrleika sínum og einlægni hefur það tekið sér bólfestu í hjartastað. Í einfaldleika sínum verður það leiðarljós þess sem leitar að lífssannindum og hamingju. Þetta ljóð heitir líka Ljóð um hamingjuna og það fjallar um hina jarðnesku hamingju sem er sérhverjum náttúruunnanda kær. Hamingjuna er ekki hægt að kaupa í kapphlaupinu um neyslukramið; hún er ekki til sölu. En við getum öðlast hana ókeypis, t.d. í fylgd Jónasar Hallgrímssonar efst á Arnarvatnshæðum. Við verðum að finna hana sjálf. Allir óska sér hamingju en flestir leita langt yfir skammt og fá aldrei nóg í stað þess að yrkja jörðina og elska. Það er boðskapur þessa dýra ljóðs.“


Ljóð um hamingjuna



Hamingjan er ekki til sölu:
fljúgið of heim allan
gangið búð úr búð
– engin hamingja

Hamingjan er það ódýrasta sem til er:
kostar ekkert
– það dýrasta:
kostar allt.

Bíðið ekki hamingjunnar:
hún kemur ekki af sjálfu sér
– eltið hana ekki:
hún flýr.

Hamingjan er alstaðar og hvergi:
í ofurlítilli tó undir norðurásnum
á hafi úti
við þitt brjóst.

Þetta er hamingjan:
að yrkja jörðina
að yrkja ljóðið
og elska jörðina og ljóðið.