Í Vísnahorni Morgunblaðsins laugardaginn 9. febrúar 2008 birtist eftirfarandi frásaga.
Kristján Bersi Ólafsson skrifar hugleiðingu í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Sverris Kristjánssonar:

„Sverrir var einn þeirra manna sem settu mark á samtíð sína. Hann var virkur í þjóðmálaumræðunni og fékk iðulega á sig dembur frá andstæðingum sínum. Einna þekktust urðu mjög rætin skrif í Tímanum árið 1942 en þar var m.a. sagt um hann, að hann hefði lengi legið eins og glerbrot á mannfélagsins haug í Kaupmannahöfn en væri nú kominn heim til Íslands og þættist vera heil flaska.“

Þegar Jónas Jónsson frá Hriflu var sjötugur skrifaði Sverrir langa og og beinskeytta afmælisgrein um hann og rakti í henni ítarlega stjórnmálaferil Jónasar. Jónasi líkaði greinin vel og í framhaldi af henni tókst vinátta með Sverri og Jónasi.
Á sextugsafmæli Sverris þakkaði Jónas fyrir sig og skrifaði lofsamlega afmælisgrein um Sverri. En fleiri sendu honum góðar kveðjur, þar á meðal Jóhannes úr Kötlum sem sendi honum þessa vísu:

Þér munið það glerbrot á mannfélagshaug.
Hvort mundi það grafið í dufti og ösku?
– Nei, land vort átti einn lifandi draug
sem loks hefur gert úr því heila flösku.

Ég er ekki viss um að þessi vísa hafi nokkru sinni komist á prent, en Sverrir var hrifinn af henni og óspar á að fara með hana á mannfundum og hann kenndi mér vísuna á hádegisbarnum á Borginni þegar við rákumst þar saman einu sinni sem oftar.

P.S. Tilvísunin um lifandi draug er tekin frá Halldóri Laxness, en ein af greinum hans um uppistandið við útför Einars Benediktssonar hafði sem fyrirsögn:
Lifandi draugur ofsækir dauðann mann.”

Ólafur Stefánsson bendir á að samlíkingin sé úr Betlikerlingunni eftir Gest Pálsson:

Hún var kannske perla, sem týnd í tímans haf
var töpuð og glötuð, svo enginn vissi af
eða gimsteinn, sem forðum var greyptur láns í baug,
– en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug.

Í skjölum föður míns að honum látnum fann ég eftirfarandi kveðskap sem ég vissi ekki fyrir víst hvort væri eftir hann. Taldi það samt líklegt. Nú hefur Ingólfur Ólafsson fv. kaupfélagsstjóri sagt mér, að þessi vísa sé eftir Sigurð V. Friðþjófsson fv. blaðamann á Þjóðviljanum. Það getur vel passað því vísan er prentuð í „Glundroðanum“ starfsmannablaði Þjóðviljans, en án höfundarnafns.

Sem frelsandi engill var Franzson til okkar sendur
því freistarinn Mykle æsti upp holdsins þrár.
Á siðgæðisvakt hann stæltur á verði stendur
með stork milli fóta og ljósgullið englahár.

Það er víst að þarna er átt við Björn Franzson, en hann tengdist Mykle-málinu þannig, að hann var í umræðuþætti í útvarpinu ásamt Jóhannesi, Kristmanni Guðmundssyni og Aðalbjörgu Sigurðardóttur. Þetta var árið 1958 og faðir minn var byrjaður að þýða Rauða rúbíninn eftir norska rithöfundinn Agnar Mykle fyrir Gísla Ólafsson í Bláfellsútgáfunni. Yfir stóðu einstæð málaferli í Noregi um þessa bók og andstæðingar ritfrelsisins hér á landi fengu því áorkað að hætt var við að gefa bókina út á Íslandi. Samt sem áður gaf Jóhannes út bækling um málið og birti kafla úr bókinni sem hann var búinn að þýða. Björn og hann voru miklir vinir og Björn og Ragna kona hans dvöldu með foreldrum mínum bæði að Laugum í Hvammssveit sumarið 1936 og í Svíþjóð 1946-1947.

Nýlega kom út bókin „90 sýni úr minni mínu“ eftir Halldóru Kristínu Thoroddsen. Þar segir hún frá því m.a. hvað það hafi verið erfitt að bera út Þjóðviljann í Snobbhill. Áskrifendur voru svo strjálir að þetta var tveggja tíma ganga með fimmtíu blöð. Í Selvogsgrunni (á að vera Sporðagrunni 7) bjó Jóhannes úr Kötlum og konan hans blíða. Þar var henni stundum boðið inn í kakó og þegar hún hætti útburðinum kvaddi Jóhannes hana með þessari vísu:

Svo að lifi list fín,
lengur en hér vist þín,
hvar getum við hist mín,
Halldóra litla Kristín.

Frásögn Jóns Sigurðssonar, sem nú er ráðherra, en þeir Jóhannes unnu á sama tíma í húsi Máls og menningar að Laugavegi 18.

,,Starfsmenn Máls og menningar, forlagsins og verslunarinnar, mynduðu þéttan hóp og var liðsandi mjög góður. Margir aðrir starfsmenn í húsinu voru kunningjar til langs tíma og talsverð samskipti milli hæða. Jóhannes var hvers manns hugljúfi í allri viðkynningu. Dagfar hans var rólegt, vinsamlegt og hlýtt. Hann var ræðinn og fyndinn og ævinlega til í gamanmál. Hann var afskaplega vel látinn og vinsæll. Hann hafði auðvitað haft tengsl við Mál og menningu og starfsmenn fyrirtækisins um langt árabil og var tekinn sem einn úr hópnum og leit þannig á sig sjálfur, að ég held.

Jóhannes átti sem kunnugt er ótrúlega létt um að yrkja og kasta fram stöku. Kom það oft fyrir. Fræg var vísa hans um eina konuna í hópnum:

Yndisleg er Ester

einkum þegar hún sest er,

fallegt á henni flest er

en framhliðin þó best er.”

(Heimild: Tímarit Máls og menningar, 4. hefti 1999)

Eftirfarandi vísur fékk ég hjá Önnu Einarsdóttur fv. verslunarstjóra í Bókabúð Máls og menningar:

Starfsfólk í Bókabúð Máls og menningar að Laugavegi 18 var á kaffistofunni ásamt Jóhannesi, sem vann þá hjá Endurskoðunarskrifstofu Björns Svanbergssonar í sama húsi. Þá varð þessi vísa til hjá Jóhannesi:

Óla frúrnar hér tipla tvær

tilkippilegar eru þær.

Önnur í dag við hlið mér hlær,

hin var að blikka mig í gær.

Óla frúrnar voru Ester Benediktsdóttir sem vann í mörg ár í bókabúð MM, hennar maður var Ólafur Þórarinsson, látinn og Æsa Jóhannesdóttir kona Ólafs Þórðarsonar sem lengi var í bókabúð M.M. Æsa vann um tíma í ritfangadeild M.M.

Anna sagði ennfremur: ,,Jóhannes kom alltaf niður til okkar á kaffistofu M.M. í kaffitímanum, mig minnir að Björn Svanbergsson hafi komið líka og jafnvel Björn meðeigandi hans. Þarna var oft glatt á hjalla og skemmtilegar umræður, nefni nöfn eins og Sigfús Daðason, Einar Andrésson, Kristinn E. Andrésson, Magnús Torfi Ólafsson og Jónsteinn Haraldsson sem þá var verslunarstjóri, svo litu oft við aðrir sem störfuðu í húsinu.”

Við svipað tækifæri var Einar Andrésson umboðsmaður Máls og menningar að stríða Önnu dóttur sinni og Fríðu dóttur hennar út af kjól sem Anna var að sauma á hana, 2ja til 3ja ára gamla. Þá varð Einari að orði:

Það er mikil sorgarsaga

sem er ekki hægt að laga.

þinn er kjóll með ljótum kraga

og kippist allur upp á maga.

Jóhannes sat þar hjá þeim og mælti þá fram vísu fyrir hönd dótturdótturinnar, en sú vísa hefur nú fallið í gleymsku um sinn. En seinna áritaði Jóhannes bókina ,,Jólin koma” fyrir Fríðu með eftirfarandi vísu:

Falleg verður, Fríða mín,

fima litla höndin þín,

þegar þú grípur gullin fín

og gleðst við þau um jólin

og þú færð að fara í nýja kjólinn.

 

Fésbókarvinkona mín, Pálína St. Pálsdóttir sendi mér eftirfarandi vísu, sem hún sagði að Jóhannes hefði gert þegar hann vann í húsi Máls og menningar, Laugavegi 18:
Frænka Pálínu vann þá í Bókabúð Máls og menningar, en nafn hennar kemur fram í vísunni. Hún var að fara að gifta sig og Jóhannes sendi henni þessa vísu í brúðargjöf:

Brúðarsæng ég blessa þína,
bláa, hvíta, sallafína.
Sé þig alla iða og skína,
Ellen Hekla Karólína.