Í Vísnahorni Morgunblaðsins laugardaginn 9. febrúar 2008 birtist eftirfarandi frásaga.
Kristján Bersi Ólafsson skrifar hugleiðingu í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Sverris Kristjánssonar:

„Sverrir var einn þeirra manna sem settu mark á samtíð sína. Hann var virkur í þjóðmálaumræðunni og fékk iðulega á sig dembur frá andstæðingum sínum. Einna þekktust urðu mjög rætin skrif í Tímanum árið 1942 en þar var m.a. sagt um hann, að hann hefði lengi legið eins og glerbrot á mannfélagsins haug í Kaupmannahöfn en væri nú kominn heim til Íslands og þættist vera heil flaska.“

Þegar Jónas Jónsson frá Hriflu var sjötugur skrifaði Sverrir langa og og beinskeytta afmælisgrein um hann og rakti í henni ítarlega stjórnmálaferil Jónasar. Jónasi líkaði greinin vel og í framhaldi af henni tókst vinátta með Sverri og Jónasi.
Á sextugsafmæli Sverris þakkaði Jónas fyrir sig og skrifaði lofsamlega afmælisgrein um Sverri. En fleiri sendu honum góðar kveðjur, þar á meðal Jóhannes úr Kötlum sem sendi honum þessa vísu:

Þér munið það glerbrot á mannfélagshaug.
Hvort mundi það grafið í dufti og ösku?
– Nei, land vort átti einn lifandi draug
sem loks hefur gert úr því heila flösku.

Ég er ekki viss um að þessi vísa hafi nokkru sinni komist á prent, en Sverrir var hrifinn af henni og óspar á að fara með hana á mannfundum og hann kenndi mér vísuna á hádegisbarnum á Borginni þegar við rákumst þar saman einu sinni sem oftar.

P.S. Tilvísunin um lifandi draug er tekin frá Halldóri Laxness, en ein af greinum hans um uppistandið við útför Einars Benediktssonar hafði sem fyrirsögn:
Lifandi draugur ofsækir dauðann mann.”

Ólafur Stefánsson bendir á að samlíkingin sé úr Betlikerlingunni eftir Gest Pálsson:

Hún var kannske perla, sem týnd í tímans haf
var töpuð og glötuð, svo enginn vissi af
eða gimsteinn, sem forðum var greyptur láns í baug,
– en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug.