Jóhannes úr Kötlum talar um kúna í þættinum Dýraríkið, 9. október 1960. Í Gullkistunni á Rás 1 í dag var flutt gömul segulbandsupptaka úr safni Ríkisútvarpsins en þar fjallar Jóhannes um íslensku kúna og margt sem henni tengist frá fyrri tíð og fram á okkar daga sem forvitnilegt er að hlusta á.

Nokkrar vísur hafa bæst við í lausavísnaþáttinn: Má þar nefna runhendu sem Jóhannes flutti Símuni av Skarði í Þrastalundi 1929. – Bragarhættirnir stefjahrun, gagaraljóð, dverghenda og stúfhenda, sem eru á netinu í Bragfræði Jóns Ingvars Jónssonar.

Sunnudaginn 28. október síðastliðinn var áhugaverður þáttur á Rás 1 sem bar nafnið Ársól, lög og ljóð. Njörður P. Njarðvík ræðir m.a. stuttlega um Jóhannes og les ljóð eftir hann. Hægt er að hlusta á þáttinn gegnum Vefvarp Ríkisútvarpsins.

Nú byrjar nýr þáttur í Skáldasetri Jóhannesar úr Kötlum en það eru minningarljóð hans sem hann fékkst við mest alla ævina. Meiningin er að safna þeim hér saman á einn stað. Það hefur komið í ljós að þau eru víða til, bæði í bókum hans, tímaritum og blöðum.

[dropcaps]I[/dropcaps]nni á Gaflfellsheiði neðanverðri, um tíu kílómetra veg frá Ljárskógum í Dölum, liggur hjáleigan Miðsel (Ljárskógasel) sem var í byggð frá árinu 1833-1927. Þar áður höfðu verið selfarir frá Ljárskógum, sennilega um aldir, jafnvel allt frá landnámsöld.

Skáldasetur á Facebook

Hér birtast sjálfkrafa innlegg og umræða af Facebooksíðu Skáldaseturs.

Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum

Ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldar á Íslandi yrði það nærri því óhjákvæmilega Jóhannes úr Kötlum. Hann lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum og um engan samtímamann hans í skáldahópi verður sagt með jafnmiklum sanni að hann hafi fundið til í stormum sinnar tíðar. Enginn fylgir heldur eins nákvæmlega þróun ljóðlistarinnar á öldinni. Hann hóf feril sinn sem nýrómantískt skáld á þriðja áratugnum, innblásinn af löngun til að efla hag landsins og ást þegnanna á því. Hann var líka einlægur trúmaður og þó að hann yrði síðar gagnrýninn á guð almáttugan hélt hann alla tíð vinskap sínum við Jesú Krist, eins og launkímni ljóðaflokkurinn Mannssonurinn (1966) er dæmi um. Á kreppuárum fjórða áratugarins var hann í broddi fylkingar róttækra skálda, knúinn áfram af löngun til að efla sjálfstraust alþýðunnar og örva hana til að berjast fyrir bættum kjörum.