Afdráttarháttur
Afdráttarháttur er það kallað þegar síðari hluti vísu fæst með því að sleppa fyrsta staf í hverju vísuorði. Jóhannes úr Kötlum kveður:
Drósir ganga, dreyrinn niðar
drjúpa skúrir.
Seinni hluti vísunnar er því svona:
Rósir anga, reyrinn iðar,
rjúpa kúrir.
(Heimild: Vísnasafn Sigurðar Jónssonar frá Haukagili III. Útg. 1975)
Runhenda
Á 9. sambandsþingi UMFÍ 18.-20. júní 1929 ávarpaði Jóhannes úr Kötlum Símun av Skarði með ræðu og flutti honum runhendu. Fulltrúar hrópuðu þá Íslendingahúrra fyrir Færeyjum, en Símun þakkaði með snjallri og fróðlegri ræðu. Hér er runhenda Jóhannesar:
Gakk heill frá garði,
greppur sóknharði,
signdur sól-arði,
Símun av Skarði.
Gakk heill til hildar,
heiðríkrar snilldar.
Njóta Fróns fylgdar,
Færeyjar mildar.
(Heimild: Ungmennafélög Íslands 1907-1937 – Minningarrit – Geir Jónasson tók saman. Útg.1938; Bls. 139-140)
Á veraldarvefnum í Bragfræði Jóns Ingvars Jónssonar (http://www.heimskringla.net) eru þessar vísur eignaðar Jóhannesi úr Kötlum, sem dæmi um eftirfarandi bragarhætti:
Stefjahrun
Stefjahrun hefur fjórar ljóðlínur og eru allar stýfðar. Rímið er víxlrím, það er síðustu bragliðir fyrstu og þriðju ljóðlínu ríma saman og síðustu bragliðir annarrar og fjórðu ljóðlínu ríma saman. Fyrsta og þriðja ljóðlína hafa fjóra bragliði en önnur og fjórða ljóðlína hafa þrjá bragliði.
Æðir sjór um öldustokk,
iða tár um hvarm.
– Ég hef falið ljósan lokk
lengi við minn barm.
Gagaraljóð
Í gagaraljóðum eru allar fjórar ljóðlínurnar stýfðar og hver um sig er fjórir bragliðir. Endarímið er víxlrím, því fyrsta og þriðja ljóðlína ríma saman annars vegar, en önnur og fjórða ljóðlína hins vegar. Stuðull verður að vera í þriðja braglið fyrstu og fjórðu ljóðlínu og höfuðstafur í fyrsta braglið annarrar og fjórðu ljóðlínu. Svona líta gagaraljóð út:
Held ég taumi höndum tveim.
Hjálpaljós í glugga skín.
Nú er þungt að hugsa heim,
– hún er veik og bíður mín.
Dverghenda
Í dverghendu eru fjórar ljóðlínur. Rímskipan er víxlrím, þannig að fyrsta og þriðja ljóðlína ríma saman annars vegar og önnur og fjórða ljóðlína hins vegar. Fyrsta og þriðja ljóðlína samanstanda af fjórum bragliðum og mynda kvenrím og önnur og fjórða braglína ríma saman og eru stýfðar og mynda því karlrím. Stuðlasetning er hefðbundin. Stuðull verður að vera í þriðja braglið fyrstu og þriðju ljóðlínu og höfuðstafur verður að vera í fyrsta braglið annarrar og fjórðu ljóðlínu.
Greini ég frá grafreit svörtum
grátinn söng.
Lag sitt þrumar lostnum hjörtum
Líkaböng.
Stúfhenda
Stúfhenda samanstendur af tveimur ljóðlínum sem báðar eru stýfðar og mynda saman endarím. Fyrri ljóðlínan samanstendur af sex bragliðum en sú seinni af fjórum. Stuðlar í fyrri ljóðlínu eru þrír og verður stuðull að vera í þriðja braglið og síðasti stuðull verður að vera í fimmta braglið. Seinni ljóðlínan er sér um tvo stuðla.
Út í geiminn ákaft leita augu mín.
Hvað er það, sem þarna skín?