Eftirfarandi vísu fékk ég hjá Skúla Jóhannssyni í Búðardal:

Það tjáir lítt að hafa hátt
og hafa margt á orði,
því orðin hafa engan mátt,
ef ekkert sést á borði.

Jóhannes kom eitt sinn í heimsókn að Dröngum á Skógarströnd, en þar bjuggu þá Guðbrandur Gíslason og kona hans Friðbjörg Eyjólfsdóttir (Þau bjuggu seinna eða 1924-1950 á Kambsnesi í Dölum. Þeir Jóhannes og Guðbrandur voru systrasynir). Ólafur sonur þeirra skrifar mér: ,,Þegar Jóhannes kvaddi þau hjón skildi hann eftir þessa vísu:

Þess ég finna þykist vott
og það mun sannast löngum
að hjartað það er hlýtt og gott
í húsfreyjunni á Dröngum.”

Ólafur skrifar ennfremur: ,, Í Vinaspegli bls. 155 er minningargrein eftir föður þinn um séra Ólaf Ólafsson á Kvennabrekku. Þeir voru góðir kunningjar og fóru saman í útreiðartúra. Í þessari minningargrein sem ber heitið ,,Á rauðum fákum”, minnist hann á gæðinga prestsins m.a. klárinn Hausta sem hann hafði miklar mætur á. Og var eitt sinn nýbúinn að fella þegar þeir hittust. Þá orti Jóhannes:

Er sú spurning áleitin,
arfur fornra kynna.
Hvort ég muni Hausta minn
hinum megin finna.”

Ég sagði Ólafi Guðbrandssyni að þessa vísu hafi faðir minn birt í bókinni ,,100 hestavísur” og þar segi hann séra Ólaf vera höfund hennar. Vísan birtist þar svona:

Er sú spurning áleitin
arfur sælla kynna,
hvort ég muni Hausta minn
hinumegin finna.

Ólafur Guðbrandsson heldur því fram að faðir minn hafi ort vísuna í orðastað séra Ólafs og segist aldrei hafa heyrt að prestur hafi sett saman vísu. Það er ekki útilokað því það hefur komið fyrir áður að faðir minn hafi ort í orðastað annara. Það verður sjálfsagt aldrei úr því skorið en við birtum vísuna samt því hún segir margt um kynni þeirra séra Ólafs og Jóhannesar.

Þá sendir Ólafur vísu úr rímu sem Jóhannes sendi tengdaföður sínum Einari á Hróðnýjarstöðum er hann var níræður 20. apríl 1948. Ríman er alls 25 vísur og ein vísan er svona:

Einar aÌ? HroÌ?ðn.jpg
Einar Þorkelsson

Sá má vera svei mér þrár
sömuleiðis orðinn hár,
sem um heiminn fleygur, frár
fer í níutíu ár.

Þeir frændurnir, Jóhannes og sr. Jón skjalavörður Guðnason áttust stundum við í glettingum og góðu gamni.- Þegar Jóhannes gaf út sína fyrstu ljóðabók, Bí, bí og blaka, sendi skáldið sr. Jóni eitt eintak, er var áritað með þessum hætti:

Bókina fína, frændi minn,
fyrst skal á það minna
að einn, sem virðist ofjarl þinn
er þó hægt að finna.

Skáldlistin á ,,þessa þjóð“
það er svo ansi gaman.
– En ,,pólitík“ og ,,lyrisk“ ljóð
lítið eiga saman.

Með bestu óskum.
Frá höfundinum.

JoÌ?n Guðnason.jpg
Séra Jón Guðnason og kona hans Guðlaug Bjartmarsdóttir

Ort í póesibók til sr. Jóns Guðnasonar, sem þá var prestur á Kvennabrekku í Dölum.

Þú hefur á ýmsu um ævina snert,
og oftast nær gengið með ,,stélið sperrt“.
– Að berjast við íhaldið einskisvert
er eitt af því skársta, sem þú hefur gert.

Og stundum ég gef þínum orðum agt
og eins þó þeim fylgi´ekki mikil pragt.
– ,,Ég vil ekki íhaldsins aumu magt“,
er eitt með því skársta, sem þú hefur sagt.

Að flytja þér lofgjörð svo feginn ég vil,
en fátt eitt af principum þínum ég skil.
Ég veit bara að þú, með þinn ósvikna yl
ert eitt með því skársta, sem – drottinn bjó til !

Jóhannes og Séra Jón Guðnason fóru einhverju sinni að kveðast á:

Séra Jón:

Ljóðdísar þú hrepptir hlut
hlaust hann þó í meinum,
leir í stafni, leir í skut,
lengi er von á einum.

Jóhannes svaraði:

Þú hefur lengi á lífs þíns dröfn
ljóðdís haft að frillu,
loksins henni leystist höfn.
Lengi er von á illu.
(Heimild: Útvarpstíðindi)

Eitt sinn á efri árum sr. Jóns Guðnasonar mættust þeir Jóhannes á götu í Reykjavík. Þá mælti Jóhannes af munni fram:

Nú hyllir þig hver hringaskorðin,
minn hjartkæri Guðnabur,
því nú ertu loksins í ellinni orðinn
svo andskoti fallegur !

Jóhannes úr Kötlum gerði þessa vísu um Eyjólf Jónasson bónda í Sólheimum. Flestir Dalamenn þekktu dillandi hlátur Eyjólfs. Þarna er einnig vísað til silungsvatnanna fram á heiði, en í einu þeirra, Hólmavatni, er lítill hólmi þar sem Svartbakar verptu.

Eyjólfur rekur upp sitt hnegg
örvar lífsins sperrilegg,
silungur og svartbaksegg
setja fjörið í þann stegg.

Eyjólfur og Jóhannes voru miklir vinir og áttu margt sameiginlegt. Einhverju sinni upp á fjalli sagðist Eyjólfur hafa verið að hugleiða þeirra kunningsskap og hvern mann Jóhannes hefði að geyma. Sagði hann skáldið Jóhannes mann ágætan og sérlega hjartahreinan og geta hrifið alla upp úr skónum með snilli sinni, en hann væri þannig gerður að hann fyndi til með öllum og bæri sorgir og þjáningu heimsins með sér og yrði því ekki sæll fyrr en í gröfinni. Aftur á móti þótti Eyjólfi Jóhannes hafa einkennilega mikla tiltrú á sér og kvaðst hafa verið eins og skrautstytta upp á hillu hjá Jóhannesi alla tíð, en nú væri því lokið. Út frá þessum hugleiðingum gerði hann eftirfarandi vísu á heimleiðinni ofan úr Fellum.
(Þessi frásögn er tekin af netinu: www.angelfire.com/ex/solheimar)

Jóhannes hefur jafna lund.
Jagar hann til sín indæl sprund.
Postulíns eitt sinn átti hann hund.
Alsæll fyrst á dauðastund.

Edda Helgadóttir, Einarssonar, húsgagnasmíðameistara var í Sólheimum þegar þetta gerðist og hún gerði Eyjólfi viðvart um að Jóhannes væri væntanlegur í Dalina. Eyjólfur fór að undirbúa komu hans, en fannst vísan ekki nógu góð og bætti þá við endingunum.
(Þessi frásögn er höfð eftir Eddu)

Jóhannes hefur jafna lund – ölvaður.
Jagar hann til sín indæl sprund – bölvaður.
Postulíns eitt sinn átti hann hund – mölvaður.
Alsæll fyrst á dauðastund – fölvaður.

Sumarið 1975 komum við Ragnheiður kona mín að Sólheimum til Yngva Eyjólfssonar og Helgu Guðbrandsdóttur konu hans og þáðum góðgerðir. Eyjólfur var þá orðinn nokkuð aldraður en kom fram í stofu og ræddi lengi við okkur. Meðal annars fór hann með þessar vísur og kenndi okkur. Hann var farinn að sjá illa og hann bað mig að láta höfuð mitt bera í birtuna frá glugganum því þá sæi hann svipinn af pabba. (Pabbi dó 1972)

Haustið 2006 vorum við enn á ferðalagi vestur í Dölum og áskotnaðist mér þá eftirfarandi ljósrit af bréfi pabba til Eyjólfs. Það er dagsett 18. sept. 1965:

Kæri frændi minn:
Það var mér dýrðleg sálubót að hitta þig þessa stuttu stund í gærkveldi og finna gamla og góða strauma líða um mína aumu sál.
Ég var að velta fyrir mér perlunni þinni eftir að ég kom heim í nótt og vil gera á henni smávegis breytingar henni til enn meiri fullkomnunar, því aldrei er góð vísa of lengi fáguð. Ég sendi þér því tillögur mínar nú þegar, áður en þetta makalausa afkvæmi þitt flýgur út um allar trissur.
Ég vil þá hafa vísuna svona:

Jóhannes minn er jafn í lund – ölvaður,
jagar hann til sín herleg sprund – bölvaður,
postulíns átti´ ann eitt sinn hund – mölvaður,
alsæll mun verða á dauðastund – fölvaður.

Eins og þú munt strax sjá lengjast allar ljóðlínurnar til samræmis við þá þriðju, betur hittir í mark að skipta um viðlagið í fyrstu og annari línu, ,,herleg“ fer betur en ,,indæl“ við sögnina að ,,jaga“ og ,,mun verða“ kemur í staðinn fyrir ,,fyrst“ vegna atkvæðafjöldans og er ekki verra, því f-in í fyrst og fölvaður nálgast of mikið stuðlun.
Sem sagt: meiningin breytist ekkert og er ,,god nok“ eftir sem áður, en hrynjandin verður heilli og ísmeygilegri. Ef þú fellst á þetta fer það ekki annara á milli, heldur segjum við þeim sem þegar kunna að hafa heyrt vísuna eða lært að þú hafir hnikað henni þannig til við nánari athugun. Og mun ég nú keppast við að kenna öllum hana í þessari mynd.
Og svo er hér staka sem mér datt í hug út frá orðaskiptum okkar í sambandi við oss skáldfrændur:

Skáldafák sínum Skúli rennir
á skeið frá kónglegu setri.
En Eyjólfur flennir allt og glennir
og ákveðst því betri.

SkuÌ?li aÌ? DoÌ?nust.jpg
Lilja Kristjánsdóttir og Skúli Jóhannesson á Dönustöðum.

Árna svo þér og þínum allrar blessunar nú og ævinlega.
Þinn einl.
Jóhannes úr Kötlum

Á þessu bréfi sést að Eyjólfur hefur ekki tekið tilboði pabba um breytingu á vísunni, því 10 árum seinna fer hann með upphaflegu gerðina fyrir okkur Rögnu. Eða þá að hann hefur ekkert viljað breyta henni og talið best að hafa hana eins og hún var frá honum kominn og hallast ég helst að því. En menn vita þá ástæðuna ef báðar gerðir vísunnar eru í gangi.

Í Pálsseli, næsta bæ við Sólheima bjó um tíma Guðrún systir Jóhannesar úr Kötlum, og maður hennar Gísli Jóhannsson. Hjá þeim í heimili var m.a. Jóhannes Ásgeirsson, kallaður Jói í Pálsseli. Hann var mikill vinur Eyjólfs og Jóhannesar. Eitt sinn voru þeir nafnarnir að koma frá Sólheimum niður að Lambastöðum, en þar bjó þá Guðrún. Er þeir koma að bænum og fara af baki vill ekki betur til en svo að Jóhannes faðir minn dettur og fer á kaf í fjóshauginn. Guðrún systir hans verður að hjálpa honum upp úr og háttar hann síðan niður í rúm. Daginn eftir færir hún honum föt af Gísla bónda sínum. Þá kvað Jói í Pálsseli þessa vísu um nafna sinn:

Loksins gastu fundið frið
frelsaður af syndinni.
Nú er á þér annað snið
en í drullulindinni.

(Vísan er höfð eftir Eyjólfi í Sólheimum 1975)

Eitt sinn gisti Jóhannes í Pálsseli ásamt sr. Ólafi á Kvennabrekku. Var þröngt í bænum og samrektu þeir prestur og Jóhannes.- Þegar þeir voru háttaðir varð presti all tíðrætt um fjárkláða þar í nágrenni. Þjóðskáldið var ekki meira en svo hrifið af umræðuefni klerksins. Eftir stutta stund kom vísa þessi frá þilinu við rúmið:

Lengst hér frammi í Laxárdal,
liggjandi upp við þilið,
klerkurinn okkar kveða skal
um kláðatímabilið.

Eitt sinn er þeir Jóhannes og sr. Ólafur á Kvennabrekku urðu samnátta á Leiðólfsstöðum þá bar svo við um morguninn, þegar Sigríður húsfreyja bar presti kaffið í rúmið, að hann bylti sér til í rúminu og leysti vind skörulega mjög.- Varð þá Jóhannesi að orði:

Ólafur prestur, andans hestur,
í honum brestur nokkuð hátt,
er hann mesti auðnugestur,
opnar flestar dyr á gátt.

Segir sagan að prestur hafi verið afar ánægður með vísuna, hafi jafnvel tekið efni hennar út frá öðrum forsendum en Jóhannes ætlaðist til.-

Sigga aÌ? LeiðoÌ?lfsst.jpg
Sigríður Einarsdóttir húsfreyja á Leiðólfsstöðum.

Hugrún Þorkelsdóttir frá Hróðnýjarstöðum átti eitt sinn kettling og sagði hún Jóhannesi að kettlingurinn og hann ættu sama afmælisdag. Varð Jóhannesi þá á munni:

Magnaðri köttur og meiri
mun ekki finnast hér,
fæddur er hann eins og fleiri
hinn fjórða nóvember.

Þessar tvær vísur fann ég nýlega á Landsbókasafni – Háskólabókasafni.

Handrit – Grímur Helgason, Ögmundur Helgason, IV. Aukabindi.
Handrit 578. Lbs. 4705, 4to, 20,2×12,2, 144 bls. – Lausavísur m.a. eftir Jóhannes úr Kötlum.

1.
Rósir spretta og röðull skín
reynir þéttur lifir.
Fagra og netta fjólan mín
frjóvgast sléttu yfir.

2.
Sumartíðin blíð á brá
blæinn fríða hefur.
Birki og víðir blómgast þá
byljastríð ei tefur.

Undir er ritað: Jóhannes Bjarni Jónasson, Ljárskógarseli 10 ára gerði þetta 1910.

Heitt og lengi hlakkað til.
Hugir tengjast gömlum yl.
Haustið gengur heill í vil.
Hefja drengir gangnaskil.

Vísa þessi birtist í bókinni Göngur og réttir, 4. bindi.

Jóhannes safnaði nokkrum hestavísum og voru þær gefnar út af Heimskringlu í litlu kveri 1962. Þar á meðal er þessi eftir hann sjálfan:

Blakkar frýsa og teygja tá,
tunglið lýsir hvolfin blá,
knapar rísa og kveðast á,
kvikna vísur til og frá.

Þegar breska herstjórnin lét flytja Einar Olgeirsson ritstjóra Þjóðviljans, 4. þingmann Reykvíkinga, til Englands, tók varamaður hans, Jóhannes úr Kötlum, sæti á þingi. Í umræðum um þegnskylduvinnu var Jóhannes meðal andmælenda, og kom fyrir í máli hans orðið taxtakaup. Kvað þá Bjarni Ásgeirsson til hans vísu:

Teygað hefir þorstlát þjóð
af þínu boðnar-staupi.
Ortir þú samt öll þín ljóð
undir taxtakaupi.

Jóhannes svaraði þá með eftirfarandi vísu:

Taxtakaupið tíðum brást
tregu ljóðsins barni,
en ef það skyldi eitt sinn fást,
yrði ég þægur Bjarni.

(Heimild: Þingvísur 1872-1942, útg. 1943; Jóhannes úr Kötlum safnaði)