Jólin koma á pólsku
Jólin koma hefur nú komið út í rúmlega 30 útgáfum síðan hún var fyrst gefin út 1932. Síðast var hún útgefin 2021 og var það talið 30. prentun. En við vitum að hún hefur komið út a.m.k. einu sinni oftar, því fyrir nokkrum árum fannst eintak í Hveragerði sem var merkt sem 3. útgáfa og var ekki vitað um þá prentun áður. Það var prentað í Félagsprentsmiðjunni 1943.
Árið 2015 var Jólin koma gefin út á ensku í þýðingu Hallbergs Hallmundssonar. Það er bókaútgáfan Griffla sem stóð að því og er nú verið að prenta 2. prentun af þeirri útgáfu sem kemur á markað fyrir þessi jól.
Nú á 90 ára afmælisári Jólin koma hefur bókin nú verið þýdd á pólsku og þýðandinn er pólsk og heitir Nina Slowinska.
Það var fyrir milligöngu Margrétar Blöndal fjölmiðlakonu og verkefnisstjóra fyrir rúmu ári síðan að þetta samstarf hófst og Bókaútgáfa Forlagsins tók að sér að gefa bókina út. Margrét fékk styrk úr Samfélagssjóði Krónunnar til þýðingarinnar og verkið hófst. Af hálfu Forlagsins var það Úa – Hólmfríður Matthíasdóttir sem sá um að koma bókinni í gegnum verkferilinn: þýðingu, umbrot, prentun og bókband og nú er bókin komin út í sama formi og 80 ára afmælisútgáfan 2012.
Bókin fæst einnig sem hljóðbók á vef Forlagsins og á Storytel.